Skip to main content
AlmannatryggingarUmsögn

Drög að breytingum á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð

By 23. september 2022október 6th, 2022No Comments

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) við frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum (réttindaávinnsla, endurhæfingargreiðslur og breytt uppsetning)

 

ÖBÍ er að skoða ákvæði í frumvarpsdrögunum er varða réttindaávinnslu og áhrif erlendra tekna. Ábendingar og umfjöllun þessu tengd munu koma í umsögn í þinglegri meðferð frumvarpsins.

Í frumvarpsdrögunum er lögð til sú jákvæða breyting að draga úr notkun á orðinu „bætur“ með því að skipta út orðinu „bætur“ fyrir orðið „greiðslur“. Enn er þó misræmi varðandi hvar og hvernig orðin „bætur“ og „greiðslur“ eru notuð. Til að mynda er í 10. grein frumvarpins c) lið um ofgreiðslur og vangreiðsla bæði orðin notuð til skiptis og án samræmis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsdraganna:

Um 1. gr. frumvarpsins (2. gr.laganna) Orðskýringar

Í frumvarpinu kemur hugtakið „greiðslur“ að miklu leiti í stað orðsins „bætur“. Skilgreining á hugtakinu „bætur“ er tekin út.
Bent er á að skilgreiningu og merkingu á orðinu „greiðslur“ vantar í frumvarpið.

Um 5. gr. frumvarpsins (13. gr. laganna) Úrskurðarnefnd velferðarmála

Um er að ræða jákvæða breytingu.

Um 9. gr. frumvarpsins a (24. gr. laganna) Skilyrði og ávinnsla örorkulífeyris.

Tilgangur með breytingunni virðist vera að skýra skilyrði og ávinnslu örorkulífeyris og auka svigrúmið til að geta átt rétt á örorkulífeyri hér á landi.

Í b lið ákvæðisins er skilyrði að umsækjandi hafi verið tryggður hér á landi við 18 ára aldur og metinn til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri. Skilja má ákvæðið þannig að umsækjandi þurfi að flytja til Íslands fyrir þann dag sem hann verður 18 ára til að þetta ákvæði eigi við. Í greinargerðinni kemur fram að þessi sérregla sé til hagsbóta fyrir unga öryrkja. Sérreglan mun ekki ná til umsækjanda sem flytja erlendis sem börn með foreldrum/forsjáraðilum og hafa ekkert um þann flutning að segja og flytja aftur til Íslands eftir að 18 ára aldri er náð. Orðalag ákvæðisins sem og skýring í greinargerðinni eru óskýr og ósamræmi milli ákvæðisins og skýringa um tilganginn sem er að vera til hagsbóta fyrir unga öryrkja.

Í c lið eru sett inn nokkur skilyrði til viðbótar við að „hafa verið tryggðir hér á landi í samfellt síðustu tólf mánuði áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%“ Þessi viðbótarskilyrði þurfa ekki að koma til ef einstaklingur hefur verið tryggður í öðru EES-ríki fyrir flutninginn til Íslands. Þetta þarf að vera skýrt.

Tryggingastofnun beinir því til örorkulífeyristaka sem hafa verið búsettir erlendis að sækja um örorkulífeyri frá öðru EES-ríki í gegnum stofnunina. Á sama hátt sækja samskiptastofnanir í öðrum EES-ríkjum um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar fyrir þá einstaklinga sem áður hafa verið búsettir á Íslandi. Umsækjendum um örorkulífeyri hjá TR er synjað um örorkulífeyri, (þrátt fyrir að engin áhöld séu um að þau uppfylli læknisfræðileg skilyrði örorkumats) sökum þess að erlend samskiptastofnun sótti um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun á meðan umsækjandi var enn búsettur í því búsetulandi. Umsækjendur sem búsettir voru erlendis þegar fyrsta umsókn um örorkulífeyri er lögð fram, geta því ekki uppfyllt skilyrði um 3ja ára búsetu áður en umsókn var lögð fram sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Með breytingunni sem lögð er til er staða þessara einstaklinga óbreytt, þ.e. þeir munu aldrei geta uppfyllt skilyrði um að hafa verið tryggðir hér á landi samfellt í a.m.k. þrjú síðustu almanaksárin áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%. Þessum einstaklingum eru til frambúðar vísað á sveitarfélagið varðandi framfærslu. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ætlað að vera tímabundið neyðarúrræði til að brúa tímabilið þar til einstaklingur kemst aftur í virkni (atvinnu) eða fær örorkulífeyri, en ekki kerfi sem stendur undir framfærslu til lengri tíma. Þar að auki er sú framfærsla sjaldnast í boði fyrir þá sem eiga maka sem aflar tekna eða fær fullar örorku- eða ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun.

Um 9. gr. (30 gr. laganna) Tekjugrunnur.

Í lögunum er enn gert ráð fyrir að fjármagnstekjur maka hafi áhrif á útreikning greiðslna. ÖBÍ hefur margsinnis vakið máls á því að það sé ótækt að fjármagnstekjur maka hafi áhrif á útreikning greiðslna. Í því samhengi bendir ÖBÍ einnig á að eignir og fjármagnstekjur barna örorkulífeyristaka hafa áhrif á útreikning greiðslna. Í 6. og 81. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir:

(6. gr.) „Barn, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, er ekki sjálfstæður skattaðili sé það á framfæri foreldra sinna (þar með taldir kjörforeldrar, stjúpforeldrar, fósturforeldrar). Þó skulu þær tekjur barns sem um ræðir í 1. tölul. A-liðar 7. gr. skattlagðar sérstaklega.“
(81. gr.). „Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. sr., teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr., og barnið er með skráð lögheimili hjá.“

Þetta þýðir að foreldri sem er örorkulífeyristaki er samskattað með barni/börnum sínum sem eru undir 16 ára aldri og með skráð lögheimili hjá og skiptir þar engu hvort eignir og fjármagnstekjur séu eign og fjármagnstekjur barnsins eða örorokulífeyristakans sjálfs. Nauðsynlegt er að gerðar verði ráðstafanir og lögum breytt á þann hátt að tryggt sé að örorkulífeyristakar verði ekki fyrir tekjuskerðingum sökum þess að barn/börn eigi eignir og/eða fái fjármagnstekjur. Ljóst er að foreldrar eru ekki á framfæri barna sinna sem eru undir 16 ára aldri.

Í 5. mgr. nýrrar 30. greinar er tilgreint sérstakt 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar sem er efnislega samhljóða núverandi frítekjumarki. Með þessu er núverandi fyrirkomulagi viðhaldið þar sem raunverulegt frítekjumark vegna atvinnutekna er tilgreint í bráðabirgðaákvæði. Ákvæði sem hefur verið endurnýjað óbreytt á hverju ári frá árinu 2009.

Æskilegra væri að færa frítekjumarkið úr bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlegt ákvæði. Það myndi engin áhrif hafa á kostnað ríkissjóðs vegna almannatrygginga en væri í samræmi við markmið frumvarpsins um að gera lögin skýrari. Það hefði einnig jákvæð áhrif á viðhorf fólks til laganna.

Um 10. gr. (33. gr.) Útreikningur og endurreikningur

Í 5. mgr. greinarinnar er heimild til mánaðaskiptingu atvinnutekna. Lagt er til að tekjum úr lífeyrissjóðum verði bætt við grein þessa. Sú viðbót væri mjög jákvæð og gagnleg sérstaklega þegar lífeyristaki fær eingreiðslu frá lífeyrissjóði, t.d. í upphaf greiðslna frá lífeyrissjóðum og/eða afturvirkar leiðréttingar hjá lífeyrissjóðum.

Um 10. grein (34. gr. ) Ofgreiðsla og vangreiðsla
Óljóst er hvar fólk finnur upplýsingar um vextina. ÖBÍ hefur sent nokkra tölvupósta til Seðlabanka Íslands til að fá úr því skorið um hvaða vexti væri að ræða og upplýsingar um vaxtaprósentuna á hverjum tíma. Þegar of- / vangreiddar greiðslur eru leiðréttar er óljóst hvaða aðferð er notuð til að reikna vexti á leiðréttinguna. Þarf að reikna leiðréttingu hvers mánaðar miðað við vexti þess mánaðar? Eða gildir bara ný vaxtaprósenta þegar krafa er stofnuð? Sem dæmi um miklar vaxtabreytingar þá hefur þessum vöxtum verið breytt 20 sinnum frá september 2018 (4 ár) og þar af sjö sinnum á síðast liðnu ári.

Almennt eru vextirnir sem lagt er til í frumvarpsdrögunum mun lægri en 5,5%. Þessum vöxtum er einungis beitt á ofgreiðslukröfum í vanskilum hjá Tryggingastofnun. Hins vegar er þeim mun oftar beitt í málum þar sem Tryggingastofnun hefur vangreitt greiðslutaka. Þessi breyting myndi koma niður á greiðslutökum fremur að en hún gagnist þeim.

Um 15. gr. frumvarpsins – breytingar á 7. gr. laga um félagslega aðstoð

Jákvætt er að stytta biðtíma eftir endurhæfingarlífeyrir úr þremur árum í eins árs samfelldan tíma.

Að mati ÖBÍ ætti hins vegar að vera nægjanlegt að umsækjandi um endurhæfingarlífeyri eigi lögheimili á Íslandi þegar umsókn er lögð fram óháð lengd samfelldrar búsetu á landinu. Því fyrr sem endurhæfing hefst eftir slys eða veikindi sem valda tímabundinni óvinnufærni því meiri líkur eru til að endurhæfing skili árangri og fyrirbyggja ótímabæra örorku. Því er mikilvægt að biðin eftir endurhæfingu sé eins stutt og mögulegt er. Árs bið, eða jafnvel lengri þrengir mjög möguleika einstaklings til að komast aftur á vinnumarkað og endurhæfast. Endurhæfingarlífeyri er ætlað að gera þeim, sem á þarf að halda, fjárhagslega kleift að stunda endurhæfingu og ná heilsu og jafnvel starfsorku á ný eftir sjúkdóma eða slys.

Að stytta skilyrði um búsetu á Ísland enn frekar myndi styðja við yfirlýsta stefnu núverandi ríkisstjórnar að við heildarendurskoðun almannatryggingar sé lögð rík áhersla á snemmtæka íhlutun, möguleika á endurkomu á vinnumarkað og að kerfið hvetji til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Um 17. gr. frumvarpsins – breytingar á 9. gr. laga um félagslega aðstoð

Í þessum lið eru aðeins gerðar nauðsynlegar breytingar á orðalagi 9. gr. laga nr. 99/2007 í samræmi við þær breytingar sem frumvarpið gerir til að viðhalda sérreglu tekjutenginga sérstakrar framfærsluuppbótar við aldursviðbót og tekjutryggingu.

Hér hefði verið tilvalið að nýta tækifærið og undanskilja mæðra-/feðralaun skerðingum á sérstakri framfærsluuppbót. Kostnaður við þá breytingu væri lítill en skipti miklu máli fyrir lífeyristaka sem fá greidd mæðra-/feðralaun. Í dag telja þessar greiðslur að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar þar sem þær teljast til bóta „samkvæmt lögum þessum“. Þrátt fyrir að þessar greiðslur séu í raun ekki hluti lífeyristrygginga heldur réttindi allra einstæðra foreldra tveggja eða fleiri barna sem búsett eru hér á landi. Lífeyristökum sem eiga rétt á þessum greiðslum er því mismunað þar sem þeir fá því ekki notið þeirra eins og aðrir einstæðir foreldrar.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Bergþór Heimir Þórðarsson
varaformaður ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Umsögnin var send í Samáðsgátt stjórnvalda 23 september 2022

Sjá nánar um málið