Skip to main content
AðgengiKjaramálTRUmsögn

Félagsleg aðstoð (bifreiðastyrkir)

By 18. apríl 2023ágúst 23rd, 2023No Comments

„ÖBÍ vekur athygli velferðarnefndar Alþingis á því að fatlað fólk þarf að gangast undir mjög íþyngjandi og óraunhæfar kröfur til að uppfylla skilmála Tryggingastofnunar ríkisins (TR) um úthlutun styrkja og uppbóta.“

Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr 99/2007 (bifreiðastyrkir). Þingskjal 102 – 102. mál.

Frumvarp þetta er endurflutt frá 152. löggjafarþingi, með breytingum sem snúa að fjárhæðum. Eftirfarandi umsögn ÖBÍ við 61. mál var lögð fram dags. 29. mars 2022.

„Styrkur TR til bílakaupa hefur ekkert hækkað frá árinu 2015; hann er einungis að hámarki 1.440.000 krónur. Það dugir að sjálfsögðu alls ekki til neinna bílakaupa, en eins og allir vita eru örorkubætur ekki svo háar að öryrkjar hafi úr eigin sjóðum að spila. Stjórnvöld hvetja nú landsmenn til kaupa á rafbílum og heyrist jafnvel sagt að bílar knúnir jarðefnaeldsneyti verði bannaðir innan fárra ára. Með óbreyttum styrk, sem aldrei var nægilegur og hefur mjög rýrnað að verðgildi síðustu ár, eru öryrkjar dæmdir til að kaupa sér druslur sem eru stórhættulegar í umferðinni; menga eins og Satan sjálfur og kosta augun úr í viðhaldi.“ Úr erindi örorkulífeyrisþega til félagsmálaráðherra 29. nóvember 2021.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir með flutningsmönnum að brýn ástæða sé til að endurskoða fyrirkomulag bifreiðastyrkja fyrir hreyfihamlaða.

Þó svo að vissar og nauðsynlegar úrbætur hafi verið gerðar á undanförnum árum hefur skort heildarskoðun á lögum og reglugerð hvað varðar heimildir, fjárhæðir og úthlutunarreglur vegna bifreiðastyrkja og uppbóta.

Heimildir

Heimildir hafa verið rýmkaðar nokkuð frá gildistöku laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007, svo sem fyrir fólk í sjálfstæðri búsetu eða með aðstoðarmann, framfærendur hreyfihamlaðra barna og endurhæfingarlífeyrisþega, en þó sitja margir enn utan garðs.

Enn vantar til að mynda að hreyfihamlað fólk í sjálfstæðri búsetu sem ekki getur keyrt sjálft og hefur ekki aðstoðarmann, t.d. NPA, en reiðir sig á ættingja og vini sem hafa annað lögheimili til að geta komist um hafi heimild til úthlutunar styrkja og uppbóta vegna kaups og reksturs bifreiðar.

Þingmenn Framsóknarflokks lögðu þrívegis fram frumvarp þess efnis, á löggjafaþingum 139. (335. mál), 140. (50. mál) og 141. (36. mál), en það náði aldrei fram að ganga. Ekki er um marga einstaklinga að ræða í þessari stöðu og það er ekki ásættanlegt að fólk sitji eftir vegna þess að það nýtur ekki aðstoðar heimilisfólks eða persónulegra aðstoðarmanna. Lagt er til að úr vanda þeirra sé greitt með breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

Fjárhæðir

Fjárhæðir eru í dag bundnar við reglugerð um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 905/2021. Í frumvarpinu er lagt til að þau réttindi séu bundin í lög, „enda hefur reynslan sýnt fram á að ráðherrar geta með litlum fyrirvara skert réttindi með því að breyta reglugerðum“ eins og segir í 2. mgr. greinargerðar.
Það er rétt að vekja athygli á því að fjárhæðir hafa hækkað afskaplega stopult og án nokkurar reglu frá árinu 2009.

Í reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009 voru uppbætur vegna kaupa á bifreiðum 300.000 kr. en 600.000 kr. fyrir fyrstu kaupendur. Bifreiðakaupastyrkur var 1.200.000 kr. en 5.000.000 kr. fyrir sérútbúnar og dýrar bifreiðar.
Fjárhæðir hækkuðu fyrst árið 2015 með reglugerð nr. 997/2015 þrátt fyrir að verðlag hafði hækkað umtalsvert á sex ára tímabili. Aftur voru fjárhæðir hækkaðar árið 2021, en í þetta sinn aðeins á sérútbúnum og dýrum bifreiðum, með reglugerð nr. 905/2021.
Það er engan veginn ásættanlegt að fjárhæðir í reglugerð hækki af hendingu á sex ára fresti að jafnaði.

Frá árinu 2009 „hefur orðið 52,5% hækkun á verðlagi. Bíll sem kostaði 6.000.000 kr. í febrúar 2009 kostar í dag 9.150.000 kr. Miðað við verðlagsþróun ættu hærri bifreiðakaupastyrkirnir að vera um 1.830.000 kr. og 7.620.000 kr. en eru 1.440.000 kr. og 6.000.000 kr. Erfitt er fyrir fatlað fólk að kaupa sér bíl þar sem það ræður ekki við kaupin sem sést á því að árið 2020 var heimild á fjárlögum ekki fullnýtt.“ (Úr umsögn ÖBÍ um fjárlagafrumvarp 2022.) Lagt er til að fjárhæðir í reglugerð verði þegar hækkaðar samkvæmt fjárhæðum í frumvarpinu.
Gera þarf breytingu á lögum sem tryggja það að styrkir og uppbætur hækki reglulega til að halda í við verðlagsþróun. Lagt er til að í stað þess að binda fjárhæðir í lög verði það gert sjálfvirkt og reglulega með eftirfarandi hætti: „Fjárhæðir í reglugerð skulu breytast tvisvar sinnum á ári eða þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Skal helmingur taka breytingum miðað við launavísitölu og helmingur miða við breytingu á vísitölu neysluverðs. Fjárhæðir í gjaldskrá taka mið af verðlagi í maí 2022.“

Úthlutunarreglur vegna bifreiðastyrkja og uppbóta

ÖBÍ vekur athygli velferðarnefndar Alþingis á því að fatlað fólk þarf að gangast undir mjög íþyngjandi og óraunhæfar kröfur til að uppfylla skilmála Tryggingastofnunar ríkisins (TR) um úthlutun styrkja og uppbóta. Það er mjög mikilvægt að fatlað fólk sé ekki látið festast á kerfislægum hindrunum til að nálgast eðlileg réttindi sín.

Þá er vakin athygli velferðarnefndar á erindi málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál til TR frá 15. júní 2017 þar sem mælst er til þess að úthlutun styrkja verði einfölduð með þeim hætti að „umsækjendum verði gert kleift að gera kaupsamning við söluaðila um bifeiðakaup með fyrirvara um greiðslu frá TR. Þannig gæti viðkomandi sótt um lán eða fyrirgreiðslu hjá lánastofnun fyrir sínum hluta en ekki fullri fjárhæð bifreiðarinnar. Það myndi minnka óþægindi fólks og auðvelda því að nýta rétt sinn. TR greiði svo styrkinn milliliðalaust til söluaðila, frekar en inn á reikning umsækjanda eftir að kaup hafa farið fram, sem gengi frá kaupsamningi og eigendaskráningu. Það væri því í hag söluaðila að gera það strax.“ – Fylgiskjal1.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri


Fylgiskjal 1

Erindi til TR um greiðslu bifreiðastyrkja 15. júní 2017

Tryggingastofnun ríkisins (TR) veitir hreyfihömluðu og blindu fólki styrki til bifreiðakaupa og uppbætur til reksturs eða kaupa bifreiðar.

Hámarksfjárhæð styrkja til bifreiðarkaupa er nú 1.440.000 kr. eða 5.000.000 kr. ef um sérútbúna bifreið er að ræða.

Til að fá styrkinn greiddan verður viðkomandi þegar að hafa fest kaup á bifreiðinni, skv. reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða nr. 170/2009. Í svari lögfræðings TR dags. 11.5.2017 við fyrirspurn um afgreiðslu bifreiðastyrkja segir:
Tryggingastofnun gerir kröfu um það að skilað sé inn sérstakri yfirlýsingu um kaupin sem stofnunin sendir umsækjanda með samþykktarbréfinu. Með þeirri yfirlýsingu þarf að fylgja kaupsamningur/afsal vegna bifreiðarinnar. Einnig þarf umsækjandi eða maki hans að vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Þegar þetta liggur fyrir er uppbótin/styrkur greidd út.

Þessi framkvæmd byggir m.a. á ákvæðum 6. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 3. mgr. 5. gr.

Umrædd framkvæmd bakar styrkþegum óþarfa óþægindi og erfiðleika. Um er að ræða afar háar fjárhæðir og lánstraust lífeyrisþega í bönkum er að jafnaði lítið.

Ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega eru nú innan við 230.000 kr. á mánuði og geta verið talsvert lægri, t.a.m. ef viðkomandi er í sambúð.

Málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál leggur því til að framkvæmd styrktrargreiðslna vegna kaupa á bifreiðum verði breytt þannig að styrkþegar þurfi ekki að að leggja fram kaupsamning/afsal og eigendaskráningu.

Ekki er fullvíst að breyta þurfi ákvæðum reglugerðarinnar, heldur ætti að nægja fyrir stofnunina að breyta verklagsreglum við afgreiðslu styrkja til bifreiðakaupa.

Lagt er til að sú breyting verði gerð að umsækjendum verði gert kleift að gera kaupsamning við söluaðila um bifeiðakaup með fyrirvara um greiðslu frá TR. Þannig gæti viðkomandi sótt um lán eða fyrirgreiðslu hjá lánastofnun fyrir sínum hluta en ekki fullri fjárhæð bifreiðarinnar. Það myndi minnka óþægindi fólks og auðvelda því að nýta rétt sinn.

TR greiði svo styrkinn milliliðalaust til söluaðila, frekar en inn á reikning umsækjanda eftir að kaup hafa farið fram, sem gengi frá kaupsamningi og eigendaskráningu. Það væri því í hag söluaðila að gera það strax.

Fyrir hönd málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál

Emil Thoroddsen
formaður

Viðtakandi: Tryggingastofnun Íslands. Afrit sent til Velferðarráðuneytisins. 


Félagsleg aðstoð (bifreiðastyrkir). 102. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 18. apríl 2023

Bílastyrkir