Skip to main content
Fáni ÖBÍ

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka 7. október 2022 við 1. mál. Fjárlög 2023, lagafrumvarp. 153. löggjafarþing 2022–2023.

Umsögnin og áherslur ÖBÍ

Að þessu sinni tekur ÖBÍ fyrir tvær megináherslur í sinni umsögn sem varða annarsvegar  kjör og atvinnumál fatlaðs fólks og hinsvegar heilbrigðismál og endurhæfingu.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2022-2026 kemur fram:  „Aðgerðir sem miða að því að auka tekjur lægri tekjuhópa og þeirra verst settu eru líklegri til að skila sér hratt og örugglega út í hagkerfið”.

ÖBÍ hefur bent á að margfeldisáhrif af hverri krónu á hagkerfið sem rennur til örorkulífeyristaka eru umtalsverð, því til viðbótar fær ríkið skatttekjur af þessum sömu tekjum. Af hverjum 100 krónum sem varið er til hækkunar örorkulífeyris, skila um 50 krónur sér aftur í ríkissjóð.

Örorkulífeyrir, atvinnumál og tekjuskerðingar

Tillögurnar eru þrjár:

A.   Hækkun örorkulífeyris um 10%

ÖBÍ leggur til að örorkulífeyrir verði hækkaður um 10% þann 1. janúar 2023 í stað 6% eins og áætlað er í drögum fjárlagafrumvarps. Sú hækkun ætti að stemma stigu við áætlaðri verðbólgu og jafnvel bæta örlítið um betur. Æskilegt er að tekjutrygging og grunnlífeyrir verði sérstaklega hækkaður til viðbótar. Fólk á erfitt með að framfleyta sér á lágmarkslaunum í dag en fötluðu fólki er ætlað að lifa af á um 25% lægri fjárhæð.

  • Óskertur örorkulífeyrir til einstaklings sem fékk örorkumat 40 ára er 301.029 kr. á mán
  • Atvinnuleysisbætur eru 313.729 kr. á mánuði.
  • Lágmarkslaun eru 378.500 kr. á mánuði.
  • Óskertur örorkulífeyrir er enn tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu.
  • Nær helmingur örorkulífeyristaka hefur lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum.

 

B.   Tekjuskerðingum frá fyrstu krónu verði hætt

ÖBÍ leggur til að tekin verði út tekjuskerðing frá fyrstu krónu vegna skattskyldra tekna til að hvetja til atvinnuþátttöku og bæta kjör þeirra sem hafa litlar tekjur aðrar en greiðslur almannatrygginga.

 

C.   Frítekjumark hækkað upp í 200.000 kr. á mánuði

ÖBÍ leggur til að frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað upp í 200.000 kr. á mánuði eins og hjá ellilífeyristökum. Frítekjumark örorku-/grunnlífeyris verði hækkað samsvarandi til að koma í veg fyrir að “krónufalls” áhrif komi aftur inn í kerfið. Það skýtur skökku við að yngri hópar sem eru að stofna fjölskyldu, koma sér upp húsnæði og mennta sig skuli sitja eftir með 14 ára gömul viðmið.

Samkvæmt lögum eiga bætur almannatrygginga að taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.  Í fjárlagafrumvarpinu er horft fram hjá launaþróun á þeirri forsendu að ekki séu „fleiri kjarasamningshækkanir fyrirliggjandi á yfirstandandi kjarasamningstímabili.“[2] Ljóst er að fjölmargir kjarasamningar eru lausir og allar líkur á að samið verði um launahækkanir á árinu. Kjaragliðnun lífeyris hefur viðgengist í áratugi sökum þess að árlegar breytingar lífeyris í fjárlögum eru ákvarðaðar út frá forsendum sem ekki stóðust og hafa almennt ekki verið leiðréttar. Það virðist einnig eiga við um fjárlagafrumvarp ársins 2023.

ÖBÍ bendir á að í fjárlagafrumvarpinu er ýmist gefið upp að ársverðbólga 2022 verði 7,5% fyrir útgjaldahlið  en 7,7% fyrir tekjuhlið frumvarpsins, þessar forsendur byggja á talsverðri lækkun verðbólgu síðustu þrjá mánuði ársins. Greiningaraðilar spá hins vegar að ársverðbólga á árinu 2022 verði yfir 8%.

Heilbrigðismál & endurhæfing

Til að heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg og skilvirk þarf rétt þjónusta að vera í boði á réttum tíma á réttum stað og veitt af réttum aðila. Nauðsynlegt er að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu sé viðráðanlegur öllum.

Tillögurnar eru þrjár:

A.   Stjórnvöld auki fjárheimildir vegna endurhæfingar- og heilbrigðisþjónustu

ÖBÍ leggur til að stjórnvöld styðji betur við nauðsynlega þjónustu með afdráttarlausum hætti og tryggi fjármagn svo fullnægjandi endurhæfingarúrræði séu til staðar.

 

B.   Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) fái fjárheimild til að semja við fagstéttir í heilbrigðisþjónustu

ÖBÍ leggur til að SÍ verði tryggðar nægar fjárheimildir til að semja við fagstéttir í heilbrigðisþjónustu þannig að aðgengi allra að þjónustu verði tryggt.

 

C.   Fjárframlag til geðheilbrigðisþjónustu verið aukið

ÖBÍ leggur til að 400 m.kr. fjárframlag til geðheilbrigðismála verði óbreytt og til viðbótar komi 400 m.kr. fjárframlag til að auka geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar.

Á sama tíma og áform eru um að lengja greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris úr þremur árum í fimm ár frá 1. janúar 2023, og aukna áherslu á endurhæfingu, er fjármagn til endurhæfingarlífeyris lækkað um 1200 m.kr. og fjárheimild til endurhæfingarþjónustu lækkuð um 329,4 m.kr. frá fjárlögum 2022. Hluti af lækkuninni (131,4 m.kr) er aðhaldskrafa á málaflokkinn. Þegar yfirlýst markmið stjórnarvalda er að auka áherslu á endurhæfingu og draga úr nýgengi örorku þá skýtur það skökku við að lækka fjárheimildir vegna endurhæfingarþjónustu og setja aðhaldskröfu á málaflokkinn.

Geðheilbrigðisþjónusta er mikilvægur þáttur þegar kemur að endurhæfingu og því afar brýnt að gert verði ráð fyrir fjárframlagi annars vegar til heilsugæslunnar og hins vegar annarrar geðheilbrigðisþjónustu.

Í frumvarpinu kemur fram að auknar fjárheimildir séu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að lækka greiðsluþátttöku með áherslu á viðkvæma hópa. ÖBÍ fagnar því, en bendir á að að fjárhæðir eru í engu samræmi við það fjármagn sem þarf til að markmiði um að lækka greiðsluþátttöku viðkvæmra hópa náist. Brýnt er að leysa vandann sem samningsleysi við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara hefur valdið og fjármagna greiðsluþátttöku vegna sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Aukin sálfræðiþjónusta sparar ríkinu ómælt fé til lengri tíma.

Um aðra málaflokka

ÖBÍ hefur myndað sér afstöðu til allra mála sem viðkoma málaflokki fatlaðs fólks, og er tilbúið að ræða málefni sem tengjast kjaramálum, atvinnumálum, menntamálum, málefnum barna, heilbrigðismálum, aðgengismálum, húsnæðismálum og NPA, ásamt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, nýrri mannréttindastofnun og réttindagæslu fatlaðs fólks. Afstöðu ÖBÍ til framangreindra mála má sjá hér á síðunni.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)

Lagt er til að stjórnvöld viðhafi virkt samráð við vinnu neðangreindra markmiða ásamt því að leggja til nægjanlegt fjármagn í þessa mikilvægu vinnu. Þingmenn fjárlaganefndar eru vinsamlega beðnir um að tryggja slíkt fjármagn í þessum fjárlögum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi SRFF. Enga umfjöllun um lögfestinguna er að finna í frumvarpinu eða fjármálaáætlun. Lögfestingin felur í sér margskonar innleiðingu í lög, reglugerðir og alla stjórnsýsluframkvæmd og því mikilvægt að vandað sé til verka.

Innlend mannréttindastofnun

Lagt er til að stjórnvöld viðhafi virkt samráð við vinnu neðangreindra markmiða ásamt því að leggja til nægjanlegt fjármagn í þessa mikilvægu vinnu. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa ítrekað komið með athugasemdir um að á Íslandi sé ekki til staðar innlend og óháð Mannréttindastofnun. Mannréttindastofnunin þarf að uppfylla svokölluð Parísarviðmið og því nauðsynlegt að nægjanlegt fjármagn sé fyrir hendi ef ætlunin er að uppfylla viðmiðin og ganga fram með gott fordæmi. Þingmenn fjárlaganefndar eru vinsamlega beðnir um að tryggja slíkt fjármagn í þessum fjárlögum.

Stýrihópur Stjórnarráðsins leiðir vinnu við Grænbók mannréttinda og er hún m.a. undirbúningur að lagasetningu fyrir frumvarp að innlendri og óháðri Mannréttindastofnun. Stefnt er að því að leggja fram frumvarpið fyrir árslok 2023. Það vekur athygli að lítil sem engin umfjöllun er um Grænbókina í frumvarpinu. Þá skýtur það skökku við að fjárframlög til málaflokksins lækka en ljóst er að mikil og vönduð vinna þarf að liggja til grundvallar lagasetningu fyrir frumvarpið og vinnunni sem því fylgir.

Samgöngumál (11)

Lagt er til að áætlanir um úrbætur á biðstöðvum, hafnarsvæðum og flugvöllum verði fjármagnaðar.

„Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt“ SRFF 20. gr.

Fatlað fólk hefur mun minni möguleika á að fara sinna ferða um landið en aðrir íbúar þess. Landsbyggðarstrætisvagnar eru óaðgengilegir fötluðu fólki, nema á tveim leiðum á ákveðnum tíma. Biðstöðvar á þjóðveginum uppfylla ekki aðgengiskröfur samkvæmt nýrriúttekt ÖBÍ, en eitt lykilviðfangsefni heildarstefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum milli byggða er að „aðgengi allra að þjónustunni, þar með talið fatlaðs fólks sem er hreyfihamlað, verði eins og best verður á kosið“ og er það markmið stjórnvalda að árið 2024 muni 90% stoppistöðva almenningssamgangna standast hönnunar- og öryggiskröfur. Þá eru bátasiglingar almennt ekki raunhæfur kostur fyrir hreyfihamlað fólk og miklum vandkvæðum háð að fljúga milli landshluta vegna aðstöðu á flugvöllum.

Íþrótta- og æskulýðsmál (18)

Grípa verður fyrr inn með því að takast á við þær félagslegu aðstæður sem leiða til brotthvarfs og með því að styðja við námsárangur nemenda strax í grunnskóla sem og með félagslegum úrræðum utan skólakerfisins.

ÖBÍ fagnar því að ætlunin sé að koma á samhæfðri þjónustu fyrir viðkvæma hópa sem ætlað er að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum.  Í skýrslunni „Félagsleg og efnahagsleg staða og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum“ sem gefin var út af Velferðarvaktinni í janúar 2022 kemur skýrt fram að það að eiga foreldri með örorkumat eykur almennt líkurnar á brotthvarfi, dregur úr líkum á endurkomu í nám og eykur líkurnar á endurteknu brotthvarfi.

Framhaldsskólastig (20)

Grípa verður fyrr inn með því að takast á við þær félagslegu aðstæður sem leiða til brotthvarfs og með því að styðja við námsárangur nemenda strax í grunnskóla sem og með félagslegum úrræðum utan skólakerfisins.

ÖBÍ fagnar því að ætlunin sé að koma á samhæfðri þjónustu fyrir viðkvæma hópa sem ætlað er að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum.  Í skýrslunni „Félagsleg og efnahagsleg staða og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum“ sem gefin var út af Velferðarvaktinni í janúar 2022 kemur skýrt fram að það að eiga foreldri með örorkumat eykur almennt líkurnar á brotthvarfi, dregur úr líkum á endurkomu í nám og eykur líkurnar á endurteknu brotthvarfi.

Háskólastig (21)

Lagt er til að auka fjármagn í málaflokkinn til þess að hægt sé að auka tækifæri fatlaðs fólks til menntunar til jafns við aðra. Mælt er með því að Menntasjóður námsmanna endurskoði reglur varðandi styrki til þess að koma í veg fyrir mismunun vegna fötlunar.

Þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn leggi áherslu á fjölbreytni í skólakerfinu gerir frumvarpið hvorki ráð fyrir fjármagni í bætt aðgengi að skólabyggingum né að námi almennt. Námsmenn fá einungis styrki frá Menntasjóði námsmanna út frá námsframvindu en þeir geta margir hverjir ekki stundað fullt nám vegna fötlunar eða langvarandi veikinda og verða því fyrir mismunun.

Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála (22)

Leikskóla- og grunnskólastig

Efla verður stuðning við einstaka nemendur og nemendur í viðkvæmri stöðu. Auka þarf fjárveitingu í sérdeildir þar sem skortur hefur verið á úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda.

Mikilvægt er að börn búi við jöfn tækifæri til náms. Alltof fá pláss eru í sérhæfðum sérdeildum og synja þarf fjölda barna um skólavist í slíkum deildum ár hvert vegna þessara takmarkana.

Fjölskyldumál (29)

Barnabætur

Lagt er til að fjárhæðir og skerðingarmörk verði uppfærð í samræmi við verðlag á sama hátt og krónutöluskattar.

Barnabætur tekjulægstu fjölskyldna rýrna að raunvirði, þar sem fjárhæðir og tekjuviðmið eru óbreytt þrátt fyrir 9,3% ársverðbólgu (miðað við september 2022). Fatlaðir foreldrar eru að stórum hluta í hópi tekjulægri foreldra sem þurfa að treysta á barnabætur. Skerðingarmörkin eru þó enn of lág eða rétt yfir lágmarkslaunum.

 

Annar stuðningur við fjölskyldur og börn

ÖBÍ fagnar að settar verði af stað sérstakar aðgerðir til að bregðast við löngum biðtíma eftir þjónustu fyrir börn og að fjárheimildum málaflokksins verði aukið vegna úrræða fyrir börn með fjölþættan vanda.

Ljóst er að ekki eru fyrir hendi þau fjölbreyttu úrræði sem beita þarf í málum barna með flókinn og fjölþættan vanda. Þróun í sérhæfðum búsetuúrræðum eða skammtímavistunum hefur ekki orðið til samræmis við fyrirliggjandi þörf. Fjarað hefur undan vistunarúrræðum vegna barna með fjölþættan vanda. ÖBÍ vísar í niðurstöðu og samantekt skýrslu stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2021 um stöðu barna með fjölþættan vanda um mikilvægi þess að slík úrræði  séu sveigjanleg og taki mið af þörfum barna á hverjum tíma. Umsóknir um úrræðin verði einföld og markviss og að ríkið taki þátt í uppbyggingu slíkra úrræða.

Vinnumarkaður og atvinnuleysi (30)

Lagt er til að sérfjármagn til að setja á fót áfallatryggingasjóð fyrir vinnuveitendur vegna kostnaðar vegna viðeigandi aðlögunar. Mælt er með hærri fjárheimild en 300 m.kr. fyrir ný vinnumarkaðsúrræði.

Í frumvarpinu kemur fram að stuðla eigi að auknum fjölbreytileika og fjölga tækifærum á vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsgetu með tilraunaverkefnum sem eiga að greiða fyrir ráðningum. Það kemur heim og saman við áherslur stjórnarsáttmálans og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölgun sveigjanlegra hlutastarfa. Mikilvægt er að gert verði ráð fyrir viðeigandi aðlögun á vinnustöðum og tillit verði tekið til aðstæðna hvers og eins. Leiða má líkur að því að þessi nýju vinnumarkaðsúrræði séu mikil að umfangi og kostnaði og er því mælt með hærri fjárheimild en 300 m.kr.

Komi til þess að örorku- og endurhæfingarlífeyristakar fari í auknum mæli út á vinnumarkaðinn, eins og stjórnvöld stefna að, er nauðsynlegt að afnema allar skerðingar vegna atvinnutekna. Þá þarf einnig að gera ráð fyrir viðeigandi aðlögun á vinnustöðum og að tillit verði tekið til aðstæðna hvers og eins. Leiða má líkur að því að þessi nýju vinnumarkaðsúrræði séu mikil að umfangi og kostnaði og er því mælt með hærri fjárheimild en 300 m.kr.

Húsnæðismál og skipulagsmál (31)

Húsnæðisbætur

Lagt er til að húsnæðisbætur og tekjumörk þeirra tengist vísitölu neysluverðs, sem væri ein leið til að ná fram lækkun húsnæðiskostnaðar, líkt og kveðið er á í stjórnarsáttmálanum.

 

Stofnframlög

Lagt er til að árlegt viðbótarframlag stofnframlaga hækki tímabundið vegna kaupa á almennum íbúðum úr 4% í 12% fyrir íbúðir ætlaðar fötluðu fólki. Sú aðgerð stemmir stigu við hækkunum leiguverðs.

 

Hlutdeildarlán

Lagt er til að komið verði á stofn sérsniðnum lánaflokki fyrir fólk með lágar tekjur þar sem lánstími væri lengri og hlutdeild ríkisins meiri en er í núverandi hlutdeildarlánum.

Lög um hlutdeildarlán sem samþykkt voru á Alþingi haustið 2020 og áttu að gagnast tekjulitlu fólki hafa sýnt sig að gagnast ekki tekjulágu fólki. Þessu verður að bregðast við til dæmis með nýjum lánaflokki sem væri einungis í boði fyrir þennan hóp. Það gæti til dæmis verið lausn fyrir marga ef lánstími væri lengri þar sem mikilvægast er að fólk ráði við greiðslubyrði en ekki eins nauðsynlegt að eignamyndun sé hröð.

 

Vaxtabætur

Lagt er til að vaxtabætur verði auknar í kjölfar breytinga á lánamarkaði þar sem vextir aukast hjá fólki þrátt fyrir að eiga mikið í húsnæðinu er greiðslubyrðin orðin mjög há vegna vaxtakostnaðar.

 

Styrkur til að breyta húsnæði

Lagt er til að fatlað fólk geti fengið styrk til að breyta húsnæði sínu í takt við fötlun sína.

Breyttar aðstæður hjá fólki í kjölfar slyss eða sjúkdóma veldur því oft að núverandi húsnæði hentar þeim ekki. Þetta veldur því að fólk þarf oft á tíðum að finna húsnæði við hæfi og flytja. Margir vildu geta átt kost á því að breyta núverandi húsnæði í tak við breyttar þarfir. Þarna er nauðsynlegt að stjórnvöld stigi inn í og veiti fólki styrki til að breyta húsnæðinu. Núverandi lán eru bæði dýr og greidd eftir á þannig að fólk þarf að geta lagt út fyrir þessum breytingum.

NPA

Lagt er til að fjárframlög til NPA verði aukin um að minnsta kosti 300 m. kr., auk uppreiknings fyrri framlaga vegna kjarasamningsbundinna hækkana launa aðstoðarfólks. Skortur á fjármagni frá ríkinu er það sem veldur töfum á lögbundinni þjónustu sem orsakar skerðingu á réttindum sem og þjáningu fatlaðs fólks sem fær ekki að lifa sjálfstæðu lífi utan stofnana.

Í fyrsta lagi ber tillaga fjárlagafrumvarpsins með sér lækkun á framlagi ríkisins til NPA á milli ára. Í öðru lagi hefur forgangsröðun framlags til NPA ekki verið gert varanlegt og því gengur tillagan þvert á fyrirmæli nefndarálits fjárlaganefndar um að forgangsraða framlaginu með þeim hætti að það yrði varanlegt (Þingskjal nr. 530/2020-2021). Í þriðja lagi tekur tillagan ekki tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana aðstoðarfólks á síðastliðnu ári. Frumvarpið ber því með sér að ætlunin sé að fækka NPA samningum á komandi ári. Slík niðurstaða gengur í berhögg við bráðabirgðaákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Í lagaákvæðinu er gert ráð fyrir að á árinu 2022 yrði fjöldi NPA samninga orðinn allt að 172 en í dag eru einungis um 90 og hefur fjöldi þeirra staðið í stað í talsverðan tíma. Þessi þróun er andstæð gildandi landslögum, fyrri fyrirheitum stjórnvalda sem og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

ÖBÍ vísar til umsagnar NPA-miðstöðvarinnar hvað varðar nánari útlistun á fjárþörf fyrir þennan málaflokk: https://www.althingi.is/altext/erindi/153/153-34.pdf 

Bifreiðamál

Lagt er til að hækka fjárhæðir bifreiðastyrkja með breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 með tilliti til verðlagsþróunar frá árinu 2009.

Þrátt fyrir mikla hækkun kostnaðar við kaup á bíl, eldsneyti og gjalda hafa styrkir og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga nánast staðið í stað frá árinu 2009 og hækkað án nokkurrar reglu á sex ára fresti að jafnaði. Staðan er orðin sú að styrkirnir nýtast varla til annars en til kaupa á úr sér gengnum hræjum, mengandi og óöruggum. Það er tómt mál að tala um orkuskipti undir þessum formerkjum.

Fylgiskjal – Orðskýringar

A.

Boðuð 6% hækkun lífeyris almannatrygginga er byggð á spá Hagstofunnar um 4,9% verðbólgu á árinu 2023, er verulega vanáætluð en eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi 2022 eru meiri líkur á því að verðbólgu sé vanspáð en að henni sé ofspáð.3 Ársverðbólga í september 2022 er 9,3%. Því þarf verðbólga að hjaðna hratt og stöðugt ef hún á ekki að verða hærri en 4,9% á næsta ári. 

Í krónutölum er 6% hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris til einstaklings með óskertar greiðslur almannatrygginga á bilinu 17 þúsund til 20 þúsund kr. á mánuði (án heimilisuppbótar). Til ráðstöfunar verða óskertar greiðslur á bilinu 275.000 kr. til 294.000 kr. á mánuði að teknu tilliti til boðaðrar 8,8% hækkunar persónuafsláttar.  

Áhrif verðbólgu bitna verst á lágtekjufólki, sem ver stærstum hluta ráðstöfunartekna til að greiða fyrir húsnæði og nauðsynjar s.s. matvæli.  Húsnæðiskostnaður, til dæmis húsaleiga og lán hafa hækkað í takt við vísitölu neysluverðs eins og matvæli. Þær hækkanir eru umfram hækkanir örorkulífeyris ársins.   

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 0,5% kaupmáttaraukningu, sem í krónutölum nær ekki 2000 kr. á mánuði fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka með hæstu tekjurnar frá TR.  

 

B

Í frumvarpinu kemur fram að stuðla eigi að auknum fjölbreytileika og fjölga tækifærum á vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsgetu, með tilraunaverkefnum sem eiga að greiða fyrir ráðningum. Það kemur heim og saman við áherslur stjórnarsáttmálans og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölgun sveigjanlegra hlutastarfa. Hins vegar eru engin sjáanleg merki um að draga eigi úr tekjutengingum í þessu fjárlagafrumvarpi, en þær eru forsenda þess að fatlað fólk hætti sér út á vinnumarkaðinn hafi það tækifæri og getu til. Frítekjumörk fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hafa verið óbreytt í 14 ár. Það er hart að ungt fólk sitji eftir með tekjuskerðingar og frítekjumörk sem hafa ekki hækkað í 14 ár. Engu fjármagni er bætt við fyrir helstu verkefni og markmið málaflokksins 27.1 og 27.2.   

Til viðbótar við kjaragliðnun milli örorkulífeyris og lágmarkslauna þurfa lífeyristakar að þola fordæmalausar tekjuskerðingar4 sem gera það að verkum að tekjur annars staðar ná ekki að bæta fjárhagslega stöðu þeirra, eða einungis að mjög litlu leyti.  

Í núverandi kerfi er ávinningur af atvinnutekjum lítill eða jafnvel enginn. Greiðsluflokkurinn sérstök uppbót örorkulífeyrisþega (undir 27.2) skerðist frá fyrstu krónu vegna allra skattskyldra tekna og er skerðingarhlutfallið 65% af tekjum fyrir skatt.   

 

C. 

Frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyristaka hefur ekki hækkað síðan 2009 og er enn 109.600 kr.  

 


Fjárlög 2023. 1. mál, lagafrumvarp.