Skip to main content
AðgengiAlmannatryggingarAtvinnumálHúsnæðismálKjaramálMenntamálSRFFUmsögn

Fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028

By 21. apríl 2023maí 5th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka

um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028, mál 894 á 153. löggjafarþingi 2022–2023

Í þessari umsögn munu ÖBÍ réttindasamtök leggja áherslu á 14 atriði og óskar eftir að alþingismenn taki þau til greina. Það er mikilvægt að fatlað fólk á Íslandi geti séð von í þeirri framtíðarsýn sem birtist í fimm ára fjármálaáætlun stjórnvalda.

Fatlað fólk þarf iðulega að reiða sig á greiðslur og stuðning hins opinbera og er það ein af grunnskyldum sérhvers alþingismanns að hafa það í huga.

Kjaramál

1

Samkvæmt fjármálaáætluninni munu heildarútgjöld til málefnasviðsins „Örorka og málefni fatlaðs fólks“ fara úr rúmum 100 milljörðum og í rúma 119 milljarðar á næstu fimm árum. Hækkunin nemur því um 19%.

Hluti af þessari fjármagnsaukningu má rekja til þeirra 2,5% árlegri fjölgunar fatlaðs fólks sem stjórnvöld gera sjálf ráð fyrir. Þó er rétt að upplýsa að tölfræðigögn á vef TR styðja ekki við þessa fjölgun.

Áætlun um fjárheimildir til málefnasviðsins eru til að mæta áætlaðri 2,5% fjölgun en horft er fram hjá verðbólguþróunin. Uppsöfnuð 12 mánaða verðbólga í mars 2023 er 9,8% og því um helmingi hærri en spá og forsendur fjárlaga ársins 2023 (5,6% eftir uppfærslu). Verðbólguspá fjármálaáætlunarinnar er í besta falli varfærin miðað við stöðuna innan- og utanlands í dag. Áhrif verðbólgu bitnar verst á lágtekjufólki sem ver stærstum hluta ráðstöfunartekna í húsnæði og nauðsynjar.

Það vekur athygli að fjármagn til málefnasviðsins lækkar á milli 2023 og 2024, sjá töflu 5 í fjármálaáætluninni þetta þyrfti að skýra betur.

2

Nettóaukning útgjalda vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins eru talin vera um 8 milljarða kr. (bls. 56) samkvæmt fjármálaáætluninni. Í áætluninni er ekki að finna skýringar á orðalaginu nettóaukning né muninum á 8 ma.kr. og 16. ma.kr.?

Sú útgjaldaaukning er einungis um 0,5% af heildarútgjöldum ríkisins.

3

ÖBÍ réttindasamtök lýsa hins vegar áhyggjum yfir að í fjármálaætluninni er öll áhersla á getu fatlaðs fólks til að framfleyta sér með öflun eigin atvinnutekna en það er ekki möguleiki allra eðli málsins samkvæmt. Afkomuöryggi alls fatlaðs fólks ætti að vera í forgrunni, að þeim séu tryggðar tekjur til fullnægjandi framfærslu óháð getu, tækifærum og möguleikum til að afla atvinnutekna.

Alþingismenn þurfa því að velta fyrir sér af hverju það er sanngjarnt að fatlað fólk fái lægri framfærslu heldur en sá sem er á lágmarkslaunum, sem eru ekki há.

ÖBÍ minnir á að í fjármálaáætluninni er sérstaklega áréttað að endurskoðun eigi að skila sér til þeirra sem verst hafa kjörin.

  • ÖBÍ leggur til að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga verði hækkaðar strax á þessu ári um að lágmarki 5,8% til að mæta launaþróun og að lágmarki hækkun vísitölu neysluverðs.
  • ÖBÍ leggur til að tekjuskerðingar atvinnutekna á framfærsluuppbót verði afnumdar frá byrjun árs 2024. Helsta ástæða ofgreiðslna og krafna örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hjá TR eru skerðingar á framfærsluuppbótinni, en hún skerðist frá fyrstu krónu. Því til viðbótar má árétta að svo eigin markmið stjórnvalda um aukna atvinnuþátttöku örorkulífeyristaka náist þurfa þessi sömu stjórnvöld að draga verulega úr tekjutengingum TR.

Lögfesting SRFF og Mannréttindastofnun

4

Í stjórnarsáttmála er lofað að ljúka við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hefur ríkisstjórnin nýverið tilkynnt um stofnun sérstakrar mannréttindastofnunar sem er að mati hennar mikilvæg forsenda fyrir lögfestingunni. Hins vegar er hvergi að finna fjármuni í fjármálaáætluninni til þessa atriða.

  • ÖBÍ leggur til að tryggt verði fjármagn í að ljúka lögfestingunni og setja á fót mannréttindastofnunar.

Staða fatlaðra kvenna

5

ÖBÍ fagnar því að fjármálaáætlunin geri grein fyrir lakri stöðu fatlaðra kvenna með örorkumat og því að ætlunin sé að bæta hana. 60% örorkulífeyrisþega eru konur.

  • ÖBÍ leggur til að fjárlaganefnd óski eftir að rannsakað verði hvað í íslenskri samfélagsgerð veldur því að konur yfir fimmtugt er stærsti hópur þeirra sem koma nýir inn á örorku árlega.

Húsnæðismál

6

Aðgengi að öruggu og viðunandi húsnæði er ein af grundvallar forsendum þess að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Aðgengi að húsnæði eitt og sér dugar þó skammt ef byrði húsnæðiskostnaðar er of þung. Þetta á sérstaklega við um þá hópa samfélagsins sem standa hvað höllustum fæti, t.a.m. fólk á örorkulífeyri.

Á tímabili fjármálaáætlunar verða stofnframlag aukið um 10 ma.kr. sem á m.a. að skapa grundvöll fyrir leiguverði sem samræmist greiðslugetu leigjanda og sé að jafnaði ekki hærri en 25% af tekjum.

Hins vegar er rétt að upplýsa Alþingi að einungis 17% þeirra sem eru með 75% örorkumat ná að greiða innan við 25% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði samkvæmt rannsókn HÍ. Um 40% fatlaðs fólks samkvæmt könnuninni greiðir meira en 51% af útborguðum launum sínum í rekstur á húsnæði.

  • ÖBÍ leggur til að hefja strax vinnu við endurskipulagningu á formi húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings í eitt stuðningskerfi á vegum ríkisins.
  • ÖBÍ leggur til að ríki og sveitarfélög setji sér metnaðarfyllri markmið við uppbyggingu húsnæðis og byggi 41.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf landsmanna.
  •  ÖBÍ leggur til að auka fjármagn við áætlaða aukningu á stofnframlögum, í aðgerðir í þágu leigjenda á örorkulífeyri, t.a.m. með fjölgun íbúða ætlað fötluðu fólki.

 

Samgöngur

7

Bifreiðastyrkir hreyfihamlaðra hafa lítið og sjaldan verið uppfærðir frá 2009 og fatlað fólk hefur setið eftir meðan allt hefur hækkað

Þekkingarleysi er ráðandi um inntak og útfærslu algildrar hönnunar sem er grundvöllur sjálfbærrar og sjálfstæðrar búsetu þjóðar sem eldist hratt.

  • ÖBÍ leggur til að fjárhæðir bifreiðastyrkja og uppbóta hækki sjálfkrafa a.m.k. árlega samkvæmt vísitölu, enda styðji það við áætlanir um hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar samgöngur. 
  • ÖBÍ leggur til að gerð vandaðra leiðbeininga sem muni gagnast í allri mannvirkjagerð og í kennslu verði fjármagnaðar.

Menntamál

8

Menntun er mikilvægur liður í því að stuðla að samfélagslegu réttlæti, bættum lífsgæðum og kjörum óháð líkamlegu eða andlegu atgervi einstaklinga. Öll börn skulu lögum samkvæmt hafa jöfn tækifæri og jafnan rétt til náms og njóta til þess viðeigandi stuðnings.

Fatlaðir nemendur geta verið viðkvæmur hópur. Þá geta allir veikst eða orðið fyrir slysi hvenær sem er á lífsleiðinni. Slíkt áfall getur haft miklar breytingar í för með sér, meðal annars fjárhagslegar. Þá getur það einnig leitt til þess að viðkomandi geti ekki lengur nýtt menntunina til að afla tekna.

Þá eru dæmi um að fötluð börn fái ekki viðeigandi stuðning í námi þrátt fyrir lögbundinn rétt. Brýn þörf er á fjölgun stuðningsúrræða í skólum fyrir börn með fjölþættan vanda. Deildir sem ætlaðar eru einhverfum börnum eru yfirfullar og langir biðlistar.

Það er tómt mál að tala um hin svokölluðu “farsældarlög” sem lúta að börnum ef þjónusta gagnvart fötluðum börnum er skilin eftir eða einkennist af biðlistum, vangreiningum og úrræðaleysi.

  • Efla þarf stórlega framboð náms í framhaldsfræðslu og auðvelda aðgengi fatlaðs fólks að námi.
  • ÖBÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að lög um skólaþjónustu og nýja ráðgjafar- og stuðningsstofnun verði innleidd þar sem stuðningur við fatlaða nemendur er mjög breytilegur milli sveitarfélaga og stofnana.
  • Tryggja verður fjármagn svo að öll börn eigi jafna möguleika til þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi alveg óháð fötlun þeirra eða efnahagi foreldra þeirra.

Atvinnumál

8

ÖBÍ réttindasamtök lýsa áhyggjum af að í fjármálaætluninni er öll áhersla á getu fatlaðs fólks til að framfleyta sér með öflun eigin atvinnutekna. Afkomuöryggi alls fatlaðs fólks ætti að vera í forgrunni, að því séu tryggðar tekjur til fullnægjandi framfærslu óháð getu, tækifærum og möguleikum til að afla atvinnutekna. Við samþætta sérfræðimatið á vinnugetu á að líta til getu einstaklinga til að framfleyta sér, þ.e. með atvinnutekjum. Í því skyni er áætlað að setja inn 470 m.kr. framlag undir málaefnasvið 30. Ekki er ljóst hvernig eigi á að nýta það fjármagn.

Heilbrigðismál

10

Í fjármálaáætlun er enn staðfest að endurskoða eigi ákvæði reglugerðar um hjálpartæki og umgjörð í málaflokknum. Hefja átti þá vinnu á árinu samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2023, en fátt er að frétta. Málaflokkurinn er og hefur verið vanfjármagnaður.

11

Mikilvægt er að stjórnvöld semji við fagstéttir í heilbrigðisþjónustu þannig að aðgengi allra að þjónustu verði tryggt. Brýnt er að leysa vandann sem samningsleysi við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara hefur valdið og fjármagna greiðsluþátttöku vegna sjálfstætt starfandi sálfræðinga.

 12

Aukin sálfræðiþjónusta sparar ríkinu ómælt fé til lengri tíma og skiptir máli að Alþingi fjármagni sinn eigin vilja að sálfræðiþjónusta verði niðurgreitt.

  • ÖBÍ leggur til að Alþingi sýni í fimm ára áætlun sinni að sálfræðiþjónusta verði niðurgreitt á gildistíma fjármálaáætlunarinnar. Minnt er að að Alþingi hefur nú þegar samþykkt þingsályktun þess efnis.

 13

Miðlægir biðlistar eru forsenda þess að bæta forgangsröðun auk þess sem þeir munu tryggja aukið gagnsæi í heilbrigðiskerfinu í heild sinni.  Brýnt er að brugðist verði markvisst við skorti á heilbrigðisstarfsfólki á landsvísu samhliða því að innleitt verði verklag um utan um hald og birtingu biðlista eftir heilbrigðisþjónustu.

14

ÖBÍ ítrekar mikilvægi þess að ráðist verði markvisst í það verkefni að fjölga endurhæfingarúrræðum og -plássum og að gerðar verði allar þær ráðstafanir sem til þarf til að stytta biðtíma eftir endurhæfingarúrræðum. Í allt of mörgum tilfellum synjar Tryggingastofnun umsóknum einstaklinga um endurhæfingarlífeyri sökum skorts á endurhæfingarúrræðum og/eða vegna biðtíma eftir endurhæfingarúrræði.

Um +100 -50

Að hækka bætur: Hvað kemur inn á móti?

Þegar krónan kostar ekki krónu … heldur 50 aura!

Í samþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir þegar ríkisstjórnin er að meta áhrif aðgerða sinna að „tekið sé tillit til svokallaðra ríkisfjármálamargfaldara sem endurspegla mismunandi áhrifum skattbreytinga, fjárfestingar og annars útgjaldaauka á efnahagsumsvif.

Ríkisútgjaldamargfaldari mælir áhrif aukinna útgjalda ríkissjóðs á landsframleiðsluna og þar með á hag ríkissjóðs. Samkvæmt Seðlabanka Íslands er ríkisútgjaldamargfaldari á Íslandi um 0,8 sem er svipað og IMF telur að G-7 ríki hafi búið við.

Að mati Samtaka atvinnulífsins hafa um 33% af verðmætum sem verða til hagkerfinu runnið til hins opinbera. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2022 kemur fram að heildartekjur ríkisins eru tæplega 27% af landsframleiðslu.

Með hliðsjón af ofangreindu er því ljóst að aukin ríkisútgjöld sem hækkun lífeyris til fatlaðs fólks er, skapa margfeldisáhrif upp á um 0,8 af hverri krónu og er það varlega áætlað.

Ríkisjóður tekur síðan að jafnaði um þriðjung af því sem verður til í hagkerfinu

  • Þannig að af hverjum 100 krónum sem renna í viðbót til fatlaðs fólks verða til margfeldisáhrif upp á 80 krónur og af þeim tekur ríkið þriðjung eða 27 kr.
  • Nettó-áhrifin á ríkissjóð vegna aukinna umsvifa eru því ekki 100 krónur heldur 73 krónur. Því til viðbótar ná nefna það að því hærri jaðarneysluhneigð, sem er það hlutfall tekna sem fer í neyslu (í tilviki lágtekjufólks er það hátt), því hærri verður margföldunarstuðullinn.

En þá er ekki öll sagan sögð

  • Ríkið tekur sitt af tekjum fatlaðs fólks en áætla má að ríkið fái til baka rúmlega fimmtung af tekjum fatlaðs fólks vegna skatta, aðallega vegna virðisaukaskatts sem er hérlendis einn sá hæsti í heiminum.
  • Lágtekjufólk á ekki annarra kosta völ en að verja þeirri tekjuaukningu sem það fær í neyslu og peningarnir renna því strax út í hagkerfinu þar sem þeir bæði skapa umsvif og ekki síst skatttekjur fyrir ríkissjóð.
  • Það leiðir til þess að af 100 krónum sem renna til fatlaðs fólks fær ríkið um um fimmtung til baka eða um 20-25 kr. Sú upphæð bætist við fyrrgreinda fjárhæð (27 kr.) sem ríkið fær vegna margfeldisáhrifa nýrra ríkisútgjalda. Samanlagt fær því ríkissjóður 27 kr. að viðbættum 20-25 kr. eða um 50 kr. af hverjum 100 krónum sem er varið til fatlaðs fólks.

Niðurstaðan er því sú að af 100 kr. útgjaldaauka ríkissjóðs vegna hærri lífeyri fatlaðs fólks renna um 50 kr. aftur til ríkisins

  • Ríkið fær því um “helmingsafslátt” af hverri krónu sem það lætur renna til fatlaðs fólks.

Hér hefur ekki verið eytt orðum í hversu mikið lífsgæði og möguleikar fatlaðs fólks batna við hærri tekjur heldur einungis verið dregin fram sú hagfræðilega nálgun að með hverri krónu sem rennur til fatlaðs fólks frá ríkissjóði kemur 50% til baka aftur í ríkissjóð.

Að lokum

Að lokum minna ÖBÍ réttindasamtök á eigin orð ríkisstjórnar sem komu fram í fjármálaáætlun hennar haustið 2021 en þar stóð:

“Aðgerðir sem miða að því að auka tekjur lægri tekjuhópa og þeirra verst settu eru líklegri til að skila sér hratt og örugglega út í hagkerfið”

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Bergþór Heimir Þórðarson
varaformaður ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. 894. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 21. apríl 2023.