Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Fjöleignarhús (dýrahald)

By 7. október 2025No Comments
Mynd af tveimur sofandi kisum sem hjúfra sig upp að hvor annarri.

ÖBÍ réttindasamtök árétta að samtökin lýstu hvorki yfir stuðningi við né andstöðu gegn áformum um breytingar á lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 í umsögn sinni til innviðaráðuneytisins 6. mars síðastliðinn, þrátt fyrir að slíkt sé nefnt í greinargerð frumvarpsins. ÖBÍ lagði hins vegar áherslu á að tryggt yrði virkt samráð við fatlað fólk áður en drögin yrðu lögð fram. ÖBÍ vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.

Jafnræði og aðlögun

Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Sumt fatlað fólk er með alvarlegt ofnæmi gagnvart dýrum, á meðan aðrir einstaklingar njóta verulegs ávinnings af því að halda hunda eða ketti vegna skerðingar sinnar og eða félagslegrar einangrunnar. Við mótun lagaramma um dýrahald í fjöleignarhúsnum þarf að gæta að ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), einkum 5. gr. um jafnræði og bann við mismunun, og tryggja að viðeigandi aðlögun sé ávallt til staðar. Lög og reglur sem varða dýrahald í fjöleignarhúsum mega því hvorki mismuna fötluðu fólki sem reiðir sig á andlegan og félagslegan stuðning hunda og katta, né koma í veg fyrir að fatlað fólk sé neytt til að flytja úr húsnæði vegna ofnæmis.

Virkt samtal og samráð

Að mati ÖBÍ er virkt samráð stjórnvalda við fjölbreytta hópa fatlaðs fólks lykillinn að uppbyggingu inngildandi umhverfis þar sem hver og einn getur lifað lífi sem virkur þátttakandi í samfélaginu óháð fötlun. ÖBÍ leggur áherslu á að samráð stjórnvalda við fatlað fólk sé á frumstigi máls, sé raunverulegt, markvisst og byggt á reynslu fjölbreyttra hópa. Virkt samtal er forsenda þess að móta inngildandi reglur sem endurspegla raunverulegar aðstæður fatlaðs fólks. Samráðið þarf að ná til fjölbreytts hóps fatlaðs fólks, þar á meðal þeirra sem eru með dýraofnæmi, þeirra sem halda gæludýr eða stuðningsdýr og þeirra sem búa í fjöleignarhúsum þar sem reglur um dýrahald hafa bein áhrif á daglegt líf þeirra. Þannig má tryggja að lagasetning og framfylgd laganna byggist á jafnræði, gagnsæi, viðeigandi aðlögun og stuðli að umhverfi þar sem allir geti notið öryggis og virðingar á eigin heimili.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Fjöleignarhús (dýrahald)
107. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 7. október 2025