Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Framboð hagkvæms húsnæðis

By 9. nóvember 2022nóvember 15th, 2022No Comments

„mikilvægt að sveitarfélögin nýti sér Carlsbergs ákvæðið um að heimilt sé að skilyrða um 25% íbúða á viðráðanlegu verði þegar samþykkt eru ný deiluskipulög“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um breytingu á skipulagslögum (framboð hagkvæms húsnæðis)

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að sett sé ríkari áhersla á að sveitarfélög geri ráð fyrir auknu húsnæði í formi hagkvæmra íbúða, leiguíbúða og félagslegra íbúða. Að þessu sögðu er það mat ÖBÍ réttindasamtaka að nauðsynlegt sé að gera meira en að einungis hvetja sveitarfélög til að skipuleggja íbúðarbyggð þannig að lágmark byggingarmagns verði 25% fyrir hagkvæmar íbúðir. Nú þegar er í lögum að sveitarfélög skuli tryggja framboð af húsnæði og að sveitarfélögin bera ábyrgð á að leysa húsnæðisþörf fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Eins og sjá má í eftirfarandi tilvitnunum í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1911 og lög um húsnæðismál 44/1998.

Í 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 segir: „Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.“ Í 5. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 segir: „Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu.“

Langir biðlistar eru eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá flestum sveitarfélögum. Samkvæmt húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 sem birt er á vef HMS eru 531 á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, 1700 á biðlista eftir almennum leiguíbúðum fyrir tekju- og eignalága og 121 á biðlista eftir sértæku búsetuúrræði. Á meðan fólk bíður eftir félagslegu leiguhúsnæði leigja flestir á almennum leigumarkaði þar sem greiða þarf mun hærri húsaleigu en fólk ræður við. ÖBÍ áréttar að í 19. gr. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er skýrt kveðið á um að fatlað fólk geti valið sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr.

Mikilvægt er að vel gangi að innleiða rammasamning ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032. Sveitarfélögin verða að standa við sitt lögbunda hlutverk að tryggja framboð af húsnæði eins og komið var inn á hér að ofan. Einnig er mikilvægt að sveitarfélögin nýti sér Carlsbergs ákvæðið um að heimilt sé að skilyrða um 25% íbúða á viðráðanlegu verði þegar samþykkt eru ný deiluskipulög. Sveitarfélögin verða að framfylgja þessu þannig að bygginaraðilar freistist ekki til að semja frekar við sveitarfélög sem ekki setja slík ákvæði inn í sína samninga.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Valdís Ösp Árnadóttir
verkefnastjóri ÖBÍ


Umsögn ÖBÍ, 9. nóvember 2022. Mál nr. 202/2022. Breytingar á skipulagslögum (framboð hagkvæms húsnæðis). [Drög að frumvarpi til laga]. Innviðaráðuneytið. Húsnæðis- og skipulagsmál.

Sjá nánar á Samráðsgátt stjórnvalda