Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurUmsögn

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. 592. mál.

By 2. júní 2022janúar 29th, 2024No Comments

Alþingi
Nefndarsvið
101 Reykjavík

Reykjavík, 2. júní 2022

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025. Þingskjal 834 – 592. mál.

ÖBÍ lýsir yfir ánægju með að í þingsályktunartillögunni eru tvær aðgerðir er varða fatlað flóttafólk og mikilvægi þess að veita því stuðning. Annars vegar er um að ræða 2.3. Fötluð börn af erlendum uppruna og stuðningur við aðstandendur þeirra og hins vegar 5.8. Móttaka og þjónusta við flóttafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, en fatlað flóttafólk er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Undirritaðar taka undir með umsögnum Mannréttindaskrifstofu Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Fræðsla, aðgengi að upplýsingum og túlkaþjónusta

Undir framkvæmd/lýsing á 2.3. er m.a. „Fræðsluefni um réttindi fatlaðs fólks samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja ásamt upplýsingum um þjónustu og stuðning sem því stendur til boða sé aðgengilegt á fjölda tungumála.“ Mjög mikilvægt er að tryggja fræðslu til fatlaðs fólks um Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að sú fræðsla nái til fatlaðs fólks sem ekki skilur né les íslensku.

Ennfremur er mjög mikilvægt að tryggja að fólk sem flyst til Íslands og lendir í alvarlegum slysum og/eða veikindum fái aðstoð og verði leiðbeint um réttindi sín. Þessi hópur á oft á tíðum minni réttindi bæði í almannatrygginga- og lífeyrissjóðskerfinu vegna styttri búsetu- og vinnutímabils á Íslandi auk þess sem hann á erfiðara með að fá upplýsingar um réttindi sín og hvert hann getur leitað, vegna takmarkaðrar íslenskukunnáttu.

Túlkaþjónustu er því miður oft ábótavant og eins og fram kemur í umsögn Mannréttinda- skrifstofu Íslands „nokkuð hefur skort á að innflytjendur fái þá túlkaþjónustu sem þeim er nauðsynleg. Það markmið að tryggja þeim sem ekki tala íslensku kost á faglegri túlkun af og á eigið tungumál í samskiptum þeirra við stjórnvöld og þjónustuaðila er því mikið framfara- skref.“ Lagt er til að setja í lög ákvæði er varða þjónustu, stuðning og réttindi til að tryggja fólki sem ekki talar íslensku eða notar táknmál túlkun á upplýsingum, samanber 5. gr. laga nr. 74/1997 um sjúklinga. Því til viðbótar þarf að tryggja að fólk sem ekki les íslensku eigi þess kost að fá úrskurði og aðrar ákvarðanir í sínum málum, s.s. frá sýslumanni og úrskurðanefndum, þýdd yfir á tungumál sem það getur lesið.

Málefni fatlaðra flóttamanna

Mælt er með því að innleidd verði áætlun um hvernig tryggja megi að starfsfólk dómsmála- ráðuneytisins, sem kemur að verkefnum sem varða umsækjendur um alþjóðlega vernd, barna og fullorðinna, sem og starfsfólk Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála hafi örugglega nauðsynlega þekkingu á aðstæðum og þörfum fatlaðs fóllks og á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem máli skipta í þessu samhengi þannig að meðferð mála fatlaðra umsækjenda um aðlþjóðlega vernd og fatlaðs flóttafólks samræmist skyldum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningnum og Barnasáttmálanum.
Mælst er til þess að tryggt sé svo hafið sé yfir vafa að talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi fullnægjandi þekkingu og skilning á Barnasáttmálanum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Mjög mikilvægt er að leitað verði allra leiða til að auðvelda fötluðum fullorðnum og fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra þátttöku í samfélaginu, ekki síst menntakerfi og atvinnulífi. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa á að byggja mikilli þekkingu og reynslu á málefnum fatlaðs fólks, sem dýrmæt gæti reynst stjórnvöldum eða öðrum sem að málaflokknum koma.

Ítrekað er að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ