
© Brandeis - National Research Center for Parents with disabilities
ÖBÍ réttindasamtök fagnar meginmarkmiðum frumvarps til laga um barnavernd. ÖBÍ leggur áherslu á að það verður að vera tryggt að ákvæði frumvarpsins leiði ekki til þess að fötlun skerði rétt barns eða foreldra, að þjónusta sé aðgengileg, og að sértækur stuðningur sé tryggður þegar þörf er á.
Fatlaðir foreldrar og foreldrar fatlaðra barna eiga sama rétt til fjölskyldulífs, stuðnings og virkrar þátttöku í samfélaginu og ófatlaðir. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leggur áherslu á að vernda fjölskyldur fatlaðs fólks. Samningurinn stuðlar að aðstæðum sem gera þeim mögulegt að sinna foreldrahlutverki sínu.
Rannsóknir sýna að fatlaðir foreldrar og foreldrar fatlaðra barna lenda gjarnan í kerfisbundinni mismunun þegar kemur að barnavernd. Fatlaðir foreldrar eru oftar metnir sem „óhæfir“ foreldrar og verða fyrir fordómum. Ef frumvarpið gerir ekki ráð fyrir sérstökum úrræðum eða stuðningi fyrir fatlaðar fjölskyldur, eru miklar líkur á að börn og fatlaðir foreldrar verði undir.
Þjónusta, stuðningur, upplýsingar og málsmeðferð skuli vera að fullu aðgengileg og taka mið af þeirri fötlun sem viðkomandi býr við.
Sérstök áhersla skal lögð á valdeflingu fjölskyldna, einstaklingsmiðað mat og forvarnir frekar en íhlutun. Mismunun vegna fötlunar skal bönnuð, beint og óbeint, og sérúrræði tryggð þegar þörf er á.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Frumvarp til laga um barnavernd
Mál nr. S-224/2025. Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 27. nóvember 2025

