Skip to main content
SRFFUmsögn

Grænbók um mannréttindi

By 2. maí 2022mars 20th, 2023No Comments

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um fyrirhugaða grænbók um mannréttindi

Eftirfarandi eru athugasemdir Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) varðandi fyrirhugaða grænbók um mannréttindi og undirbúning að stofnun sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar. Að öðru leyti vísast í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ).

ÖBÍ fagnar þeirri ákvörðun forsætisráðherra um að hefja vinnu við grænbók um mannréttindi og undirbúningi á stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar til samræmis við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 48/134 um innlendar mannréttindastofnanir (National Human Rights Institutions).Er vinnunni ætlað að leggja mat á stöðu mannréttinda á Íslandi með sérstakri hliðsjón af mannréttindaeftirliti.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti í september 2016, leggur þær skyldur á aðildarríki að óháð og sjálfstæð mannréttindastofnun sé fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. Slíkum stofnunum er ætlað að vinna samkvæmt Parísarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna en þó eru þær sjálfstæðar í störfum sínum og ráða því útfærslu viðmiðanna og áherslum í starfsemi sinni. Allar vinna þær á sameiginlegum grunni og að sömu markmiðum, að stuðla að eflingu og vernd mannréttinda. Má nefna að sumar stofnananna leiðbeina einstaklingum með ráðgjöf og upplýsingum svo þeir fái gætt réttar síns á meðan aðrar taka beinlínis að sér mál einstaklinga og reka þau innan viðeigandi réttarúrræða.

Í verkáætlun grænbókar kemur fram að leita eigi til MRSÍ á öllum stigum ferlisins, eftir samráði, ráðgjöf, tillögu, og upplýsingum. ÖBÍ er aðili að MRSÍ og fagnar þeim fyriráætlunum. Engu að síður er þess vænst að fullt samráð verði viðhaft við ÖBÍ og önnur aðildarfélög MRSÍ, á öllum stigum ferlisins. Aðildarfélög MRSÍ vinna öll að mannréttindum, hvort heldur sem er jaðarsettra og viðkvæmra hópa eða mannréttindum almennt. Það er því mikilvægt að sérfræðiþekking aðildarfélaganna nái að endurspegla þá vinnu sem framundan er. Samkvæmt tímalínu verkefnisins, sem lögð var fram í samráðsgátt, virðast ekki fleiri fundir á dagskrá og þess óskað að til fleiri funda verði boðað. ÖBÍ telur mikilvægt að vinnan verði kynnt jafnóðum og að hagsmuna- og félagasamtök taki þátt í ferlinu, til þess að geta leiðbeint stjórnvöldum með sérþekkingu sinni í ferlinu öllu, ekki einungis í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.

ÖBÍ hvetur til þess að stjórnvöld tryggi að ný og sjálfstæð mannréttindastofnun sé nægilega stöndug til að sinna allri mannréttindagæslu í íslensku samfélagi. Í mati á áhrifum lagasetningarinnar sem fram komu í samráðsgáttinni (lið G) í frumvarpi frá 2019, var áætlað að aðeins þrír starfsmenn skuli starfa hjá mannréttindastofnuninni. Er það mat ÖBÍ að stofnunin nái ekki að sinna öllum þeim mikilvægu verkefnum sem henni er ætlað með einungis þrjá starfsmenn. Vonar ÖBÍ að gefinn verði gaumur að því hvert umfang stofnunarinnar kemur til með að verða, að öðrum kosti er ólíklegt að markmið hennar og tilgangur náist. Að lokum, ÖBÍ vill leggja þessari vinnu lið eins og kostur er.

Ekkert um okkur, án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Alma Ýr Ingólfsdóttir,
lögfræðingur ÖBÍ


Grænbók um mannréttindi. Mál nr. 74/2022. Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 2. maí 2022