Skip to main content
AðgengiAtvinnumálHúsnæðismálKjaramálSRFFUmsögn

Grænbók um sjálfbært Ísland

By 26. maí 2023júní 19th, 2024No Comments

„Við þurfum að huga að þörfum neytenda frekar en hagsmunum þeirra sem vilja græða sem mest á sem skemmstum tíma.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um grænbók um sjálfbært Ísland

ÖBÍ – réttindasamtök telja kortlagningu sjálfbærs Íslands mikilvægt skref í þágu samfélagsins og komandi kynslóða. Samfélagsstoð sjálfbærar þróunar stendur ÖBÍ nærri enda beinist hún að því að tryggja að allir fái sanngjarna meðferð með reisn og virðingu. Aðgerðir innan þessarar stoðar geta falið í sér að veita aðgang að grunnmenntun, heilbrigðisþjónustu og húsnæðisöryggi, efla jafnrétti kynjanna og vernda mannréttindi.

Aðalinntak heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir og sérstök áhersla ríkisstjórnarinnar er að bera kennsl á og þjóna betur jaðarsettum hópum samfélagsins, skv. 2. kafla Grænbókar um sjálfbært Ísland. Í 3. kafla er fjallað um stöðulýsingu og stöðumat þeirra viðfangsefna sem stjórnvöld og aðrir lykilaðilar, þ.e. þeir sem eru aðilar að Sjálfbærniráði, vinna að.

ÖBÍ réttindasamtök, eiga aðild að Sjálfbærniráði, og þykir miður að stöðu fatlaðs fólks sé ekki gert skil í 3. kafla Grænbókar um sjálfbært Ísland. Gert er ráð fyrir að það hafi verið yfirsjón og því fylgir hér kafli ÖBÍ til birtingar í grænbók.

ÖBÍ réttindasamtök

ÖBÍ réttindasamtök eru stefnumótandi í réttindamálum fatlaðs fólks og frumkvöðull innan málaflokksins. Hlutverk þeirra er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum. ÖBÍ samanstendur af 40 aðildarfélagi sem öll eiga það sameiginlegt að vera hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa og starfa á landsvísu. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veitir margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 40.200 manns. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, er leiðarljós í öllu starfi ÖBÍ.

SRFF leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þess að málefni fatlaðs fólks verði samþætt sem óaðskiljanlegur hluti áætlana um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja sérstaka áherslu á að allir innviðir eigi að vera öruggir, aðgengilegir, hagkvæmir og sjálfbærir fyrir fatlað fólk árið 2030. Þá ítrekar Evrópskt samkomulag um þróunarsamvinnu, sem á að samræma þróunarstefnu Evrópusambandsins við heimsmarkmiðin, að stefna bandalagsins um sjálfbæra þróun sé mannréttindamiðuð og eigi að stuðla að auknum réttindum fatlaðs fólks.

Uppbygging aðgengilegs húsnæðis og bættir innviðir almenningssamgangna leggur grunninn að sjálfstæðu lífi og ýtir undir þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, ekki síst á vinnumarkaði. Það stuðlar að betra lífi og minnkar hættuna á félagslegri einangrun.

Gefa þarf öllum, ekki eingöngu sumum, tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Hafa verður það í huga að fólk með skerta starfsgetu er eins ólíkt og það er margt og það er grundvallaratriði að fólk fái störf við hæfi þar sem hæfileikar, menntun, reynsla og styrkleikar þess nýtast. Þá er ekki er nóg að einblína einungis á starfsgetu einstaklinga til að framfleyta sér með atvinnutekjum, þar sem hluti fatlaðs fólks getur ekki verið á vinnumarkaði sökum fötlunar og/eða skorts á tækifærum. Afkomuöryggi ætti að vera í forgrunni, þ.e að fólki séu tryggðar tekjur til fullnægjandi framfærslu óháð getu til að afla atvinnutekna.

Aðgengi og sjálfbær uppbygging á íbúðarhúsnæði sem samsvarar eftirspurn og þörfum almennings er ein af forsendum búsetuöryggis og grundvallar stoð til að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Aðgengi að húsnæði eitt og sér dugar þó skammt ef byrði húsnæðiskostnaðar er of þung. Þetta á sérstaklega við um þá hópa samfélagsins sem standa hvað höllustum fæti, t.a.m. fólk með örorkulífeyrisgreiðslur. Brýnt er að tryggja fötluðu fólki öruggt húsaskjól og fjárhagslegt aðgengi að húsnæði og þjónustu í samræmi við ákvæði SRFF. Því þarf stjórnsýslan á öllum stigum að leggja fram langtíma áætlanir í húsnæðismálum, fyrir auknu húsnæði í formi hagkvæmra íbúða, leiguíbúða og félagslegra íbúða sem tryggir sjálfbæra þróun á húsnæðismarkaði fyrir alla, þ.m.t. fatlað fólk.

Hugmyndafræði algildrar hönnunar felur í sér að við hönnun kerfa, hvort sem um er að ræða þjónustu, tækni, mannvirkja eða annað sem snertir á mannlegu lífi og upplifun, þurfi að horfa til þess þegar í upphafi að afurðin muni nýtast öllum sem best til framtíðar og að þá sé fyrst litið til þarfa þeirra sem eru jaðarsett og eru oftar en ekki skilin eftir. Í þessu ljósi má sér í lagi benda á stafræna þróun en þar er t.d. augljóst dæmi um að ekki er hugað að öllum hópum þegar hönnuð og þróuð er ýmiskonar tæknilausnir og öpp sem eiga að leysa ákveðna þjónustu af hendi og tryggja öryggi og vernd s.s. rafræn skilríki sem t.d. sumir aldraðir, fólk með ákominn heilaskaða, og þroskahamlað fólk getur ekki nýtt sér og kemst þar af leiðandi ekki í heimabanka eða á heilsuveru.

Þegar litið er framhjá þörfum fatlaðs fólks þarf iðulega að fara í kostnaðarsamar úrbætur eða viðbætur og auka þjónustustig síðar meir.

Í dag er meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi óaðgengilegur fötluðu fólki og þjóðin er skarpt að eldast. Með því einu að veita fötluðu fólki styrki og hagstæð lán til að aðlaga heimili sín að þeirra þörfum eða flytja ella í aðgengilegra húsnæði og veita húsfélögum styrk til að setja upp lyftur er ólíklegra að viðkomandi verði fangi á eigin heimili.

Við þurfum innviði sem nýtast öllum. Við þurfum húsnæði sem er aðgengilegt og endist. Við þurfum að huga að þörfum neytenda frekar en hagsmunum þeirra sem vilja græða sem mest á sem skemmstum tíma. Við þurfum að láta af þeim hugsunarhætti að allt þurfi að gerast núna, því að án umgjarðar fyrirhyggju, skipulags og þolinmæði stöndum við eftir með takmarkaðar afurðir með lélegan endingartíma sem gagnast ekki fólki.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Grænbók um sjálfbært Ísland. Mál nr. 82/2023. Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBí, 26. maí 2023