Skip to main content
HúsnæðismálKjaramálUmsögn

Greiðsluaðlögun einstaklinga (málsmeðferð og skilyrði)

By 15. janúar 2024No Comments
Lögfestum samninginn ... bara strax, takk!

„Stór hluti örorkulífeyristaka sitja uppi með námslán vegna menntunar sem þeir koma aldrei til með að geta nýtt sér til tekjuöflunar og geta afborganir vegna þeirra lána verið mjög íþyngjandi fyrir þann hóp.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (málsmeðferð og skilyrði), þskj. 27, nr. 27.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir fyrirhugaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 110/2010 og fagna því að betrumbæta eigi og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta. Líkt og fram kemur í greinagerð voru örorkulífeyristakar 45% þeirra sem leituðu greiðsluaðlögunar árið 2023. Sá hópur hefur lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn og staða þeirra fer sífellt versnandi. ÖBÍ vill koma eftirfarandi áherslum á framfæri.

1.
ÖBÍ fagnar viðbrögðum Félags-og vinnumarkaðsráðuneytisins við ábendingum samtakanna um fatlað fólk í greiðsluvanda. Í greinargerð með lögunum segir að til að bregðast við þeim ábendingum mun embætti umboðsmanns skuldara setja í verklagsreglur sínar að við afgreiðslu og vinnslu umsókna frá fötluðum einstaklingum skuli litið til Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sérstaklega ákvæða um viðeigandi aðlögun. ÖBÍ telur þetta skref í rétta átt, en minnir á mikilvægi þess að lög og reglur séu skýr.

ÖBÍ óskar eftir að löggjafinn kveði fastar að orði og beini þeim tilmælum til umboðsmanns skuldara að embættinu beri að upplýsa fatlað fólk um réttindagæslu fatlaðs fólks og þá aðstoð sem þar býðst við upphaf greiðsluaðlögunar.

2.
Í 32. gr. er fjallað um breytingar á öðrum lögum sem taka í gildi við gildistöku frumvarpsins. ÖBÍ telur þörf á að löggjafarvaldið geri einnig viðeigandi breytingar á lögum um nauðungarsölu nr. 23/1991 samhliða gildistöku frumvarpsins. Huga þarf sérstaklega að frumkvæðisskyldu stjórnvalda í samskiptum við viðkvæmustu hópa samfélagsins og tryggja að öll úrræði hafi verið reynd til þaula. Samskiptaleysi opinberra stofnanna má aldrei skerða aðgengi einstaklinga að lögbundinni þjónustu.

ÖBÍ leggur til að löggjafarvaldið skerpi á upplýsingarskyldu sýslumanna á þann veg að sýslumanni beri að afla sér upplýsinga um hvort skuldari hafi óskað eftir aðstoð hjá umboðsmanni skuldara strax þegar skuldamál einstaklings berst sýslumannsembættinu. Sýslumaður skal upplýsa og leiðbeina þeim einstaklingum sem ekki hafa óskað eftir aðstoð umboðsmanns skuldara um úrræðið.

3.
Stór hluti örorkulífeyristaka sitja uppi með námslán vegna menntunar sem þeir koma aldrei til með að geta nýtt sér til tekjuöflunar og geta afborganir vegna þeirra lána verið mjög íþyngjandi fyrir þann hóp. ÖBÍ fagnar því að tryggja eigi skýra meðferð krafna vegna námslána þannig að skuldari mun vera í skilum þegar hann lýkur tímabili greiðsluaðlögunar.

ÖBÍ styður þau áform um að kröfur vegna ábyrgðaskuldbindinga á námslánum teljist ekki til krafna vegna námslána og að þær kröfur falli undir greiðsluaðlögun séu þær virkar á hendur ábyrgðarmanni.

4.
Í frumvarpinu er lagt til að embætti umboðsmanns skuldara hafi heimild til að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að synjunargrundvöllur liggi fyrir, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og veikindi eða erfiðar félagslegar aðstæður.

ÖBÍ telur þetta heimildarákvæði mikilvægt fyrir þann hóp sem verður tímabundið og skyndilega fyrir tekjumissi eins og t.d. örorku- og endurhæfingarlífeyristakar.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Greiðsluaðlögun einstaklinga (málsmeðferð og skilyrði)
27. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 15. janúar 2024