Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Greiðslumat taki mið af greiddri húsaleigu

By 14. nóvember 2022nóvember 15th, 2022No Comments

„Einn möguleiki til að tryggja fólki öruggt húsnæði væri að útbúa sértækt greiðslumat fyrir fólk með allra lægstu tekjurnar.“

 

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um að greiðslumat taki mið af greiddri húsaleigu.

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að fram sé komin tillaga sem miðar að því að tekjulágt fólk geti staðist greiðslumat til að kaupa húsnæði. Það greiðslumat sem flestar fjármálastofnanir bjóða, gerir lágtekju fólki ómögulegt að standast það. Fólk sem á til að mynda eignir en er með litla framfærslu kemst ekki í gegnum greiðslumat fjármálastofnanna. Það er því mikilvægt að tekið sé tillit til greiðslusögu fólks á leigumarkaði við gerð greiðslumats.

Húsnæðiskostnaður er stór hluti útgjalda fatlaðs fólks. Samkvæmt 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna eiga allir að hafa kost á fullnægjandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Einn möguleiki til að tryggja fólki öruggt húsnæði væri að útbúa sértækt greiðslumat fyrir fólk með allra lægstu tekjurnar. Slíkt greiðslumat yrði að vera byggt á öðrum sjónarmiðum en byggt er á í núverandi kerfi. Finna yrði út greiðslugetu lántakanda heildstætt og gæti einn liður í því verið að taka tillit til greiddrar húsaleigu undanfarið ár. Lánið yrði að vera til lengri tíma með lægri eignamyndun en um leið veitti það öryggi sem fæst með því að búa í eigin húsnæði. Hlutdeildarlánin hafa sýnt sig að henta ekki lágtekjufólki heldur eru frekar hugsuð fyrir fólk sem á von um bættari hag.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Valdís Ösp Árnadóttir
verkefnisstjóri ÖBÍ


Greiðslumat. 345. mál, þingsályktunartillaga. Umsögn ÖBÍ send Velferðarnefnd Alþingis, 14. nóvember 2022.

Sjá nánar á vef Alþingis