Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Heilbrigðiskröfur til sjómanna

By 24. janúar 2023mars 2nd, 2023No Comments
Fiskibátar á Húsavík.

Umsögn ÖBÍ um drög að breytingum á reglugerð nr. 944/2020 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

ÖBÍ – réttindasamtök gera athugasemdir við þau skilyrði sem sett eru fram í reglugerðinni um heilbrigðisskoðanir áhafna og telja að vegið sé með alvarlegum hætti að grundvallar mannréttindum þeirra einstaklinga sem kjósa að starfa á sjó.

ÖBÍ leggur til að skilyrðin um að heimilislæknir framkvæmi heilbrigðisskoðanir og gefi út læknisvottorð verði felld brott úr reglugerðinni.

Í reglugerðinni segir að það falli í hlut heimilislækna að famkvæma heilbrigðisskoðanir sjómanna, annarra en skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna á skipum, og gefi út vottorð um almenna hæfni sjómanna. Þá er það jafnframt hlutverk heimilislæknis að leggja mat á það hvort sjómaður sé haldinn sjúkdómi, t.d. taugasjúkdómi, geðsjúkdómi eða hjartasjúkdómi, sem ógnað geti öryggi skips og áhafnar eða skert verulega hæfni hans í starfi. ÖBÍ bendir á að varasamt er að setja slíkt matskennt skilyrði í reglugerð. Auk þess býður það uppá afar mismunandi túlkun eftir því hvaða læknir á í hlut.

Sjómenn, ólíkt skipstjórnarmönnum og vélstjórnarmönnum, starfa ekki á grundvelli sérstakra starfsréttinda eða menntunar. Það er því ljóst að skilyrðin um heilbrigðisskoðanir sjómanna ganga mun lengra en þörf er á.

Skilyrðin fela í sér verulegar takmarkanir á þeim rétti sem tryggður er í 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994 um að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.

Jafnframt fela skilyrðin í sér verulegar takmarkanir á þeim rétti sem tryggður er í 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 27. gr. samningsins áskilur að réttur fatlaðs fólks til vinnu, til jafns við aðra, sé viðurkenndur, í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, sé án aðgreiningar og er því aðgengilegt.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingafyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ


Heilbrigðiskröfur til fiskara [sjómanna][- drög að reglugerð -] Mál nr. 258/2022. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 20. janúar 2023