Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálNPAUmsögn

Jöfnunar­sjóður sveitar­félaga

By 12. maí 2025No Comments
Mynd af tveimur konum með kröfuspjöld merkt ÖBÍ. Texti á spjaldi í forgrunni er Ó-jöfn. Merkingin er tvíbend. þar sem aðeins sést í efri hluta bókstafsins Ó.

„Heimilisleysi á ekki að vera einkavandamál einstakra sveitarfélaga. Því þurfa ríki og sveitarfélög að snúa bökum saman til að tryggja húsnæðisöryggi á Íslandi.“

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir áherslur frumvarps um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um mikilvægi öflugra sveitarfélaga og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Markviss jöfnun spilar lykil hlutverk fyrir sveitarfélög svo þau geti öll veitt lögbundna þjónustu. Sveitarfélög hafa mikið frelsi til að forgangsraða og útfæra verkefni fyrir nærsamfélagið. Frelsi fylgir ábyrgð og brýnt að sveitarfélög láti engin lögbundin verkefni mæta afgangi eða sinni þeim á ófullnægjandi hátt.

ÖBÍ áréttar áherslur sínar frá fyrri umsögn að þess sé gætt að þjónusta í málefnum fatlaðs fólks skerðist ekki heldur styrkist við sameiningu sveitarfélaga. Stuðla má að hagræðingu í rekstri við sameiningu og ljóst er að mörg minni sveitarfélög ráða illa eða ekki við skyldur sínar. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.

Deild um málefni fatlaðs fólks og NPA

ÖBÍ fagnar stofnun sérstakrar deildar innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Slík deild getur stuðlað að aukinni þekkingu og yfirsýn ríkisins um stöðu málaflokksins á landsvísu, stytt boðleiðir og beitt sér fyrir jafnri veitingu lögbundinnar þjónustu um land allt. ÖBÍ fagnar ákvæði frumvarpsins sem veitir Jöfnunarsjóði heimild í reglugerð til að veita önnur fjárframlög til þjónustusvæða, sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og annarra aðila vegna rekstrarmála eða þróunarvinnu sem nýtist þjónustusvæðum og sveitarfélögum til framþróunar í málaflokknum. Að mati ÖBÍ er mikilvægt að ráðuneytið útlisti jafnframt skýr viðmið og skýrt verklag um úthlutun vegna þróunarvinnu og rekstrarmála til framþróunar í málefnum fatlaðs fólks í sömu reglugerð. Þá leggur ÖBÍ til að Jöfnunarsjóður kynni heimildarákvæðið fyrir hagaðilum og auglýsi reglulega eftir umsóknum.

ÖBÍ vonar að fyrirhuguð ákvæði í reglugerð vegna ráðstöfunar framlaga Jöfnunarsjóðs til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar NPA muni tryggja fötluðu fólki jafnt aðgengi að sjálfstæðu lífi um allt land. Togstreita milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun NPA má ekki bitna á notendum sem treysta á framfylgd lögbundinnar þjónustu. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að útfæra reglugerðarákvæðið í samræmi við hugmyndafræði um sjálfstætt líf og jafnan rétt fatlaðs fólks til búsetufrelsis á við ófatlað fólk. Þá leggur ÖBÍ til að fjármagn frá Jöfnunarsjóði vegna samþykktra NPA samninga fylgi einstaklingum sem flytja í nýtt sveitarfélag.

Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs

ÖBÍ telur jákvætt að Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs muni áfram gegna mikilvægu hlutverki við uppbyggingu aðgengilegra mannvirkja og breytingar á fasteignum í eigu sveitarfélaga sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk. ÖBÍ áréttar að hugmyndafræði um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla nær yfir öll mannvirki óháð því hvort byggingin er sérstaklega hugsuð til búsetu eða atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Með fyrirhugaðri lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) mun Íslandi bera lagaleg skylda að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Dæmi eru um að fatlað fólk hafi ekki fengið úthlutað lausri félagslegri leiguíbúð í eigu sveitarfélags sökum þess að íbúðin er ekki aðgengileg. ÖBÍ leggur til að tilgreint verði í reglugerð 280/2021 heimild Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til að úthluta framlögum til sveitarfélaga vegna endurbóta á almennu leiguhúsnæði í sinni eigu í samræmi við hugmyndafræði um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla.

Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi 1. september næstkomandi sem mun meðal annars stuðla að fjölgun fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Með breytingunni gefst ríki og sveitarfélögum sóknarfæri til að verða leiðandi í inngildingu fatlaðs fólks inn í atvinnulífið og vera fyrirmynd fyrir fyrirtæki í einkaeigu. Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki og vont versnandi fer þegar leitað er eftir aðgengilegum atvinnuhúsnæðum. Óaðgengileg hönnun húsnæðis og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks um atvinnuþátttöku, aðgengi að þjónustu og að samfélaginu. ÖBÍ leggur til að tilgreint verði í reglugerð 280/2021 heimild Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til að úthluta framlögum til sveitarfélaga vegna endurbóta á almennu atvinnuhúsnæði í sinni eigu í samræmi við hugmyndafræði um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla.

Heimilisleysi og fatlað fólk

Aðgengi að hagtölum um fatlað fólk á Íslandi eru af skornum skammti, en erlendar rannsóknir og tölfræðigögn benda til að stór hluti heimilislausra sé fatlað fólk. Samkvæmt tölum kanadísku mannréttindanefndarinnar er fatlað fólk fjórfalt líklegra til að verða heimilislaust en ófatlað fólk. Sú mynd rímar við reynslu framlínufólks í Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR) sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefnavanda og geðvanda.

ÖBÍ leggur áherslu á að gætt sé að ákvæðum SRFF. Í 28. gr. samningsins er áréttað að aðildarríkin skulu, tryggja fötluðu fólki sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar og jafnan aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera án mismununar á grundvelli fötlunar. Heimilisleysi á ekki að vera einkavandamál einstakra sveitarfélaga. Því þurfa ríki og sveitarfélög að snúa bökum saman til að tryggja húsnæðisöryggi á Íslandi.

ÖBÍ tekur undir áherslur Reykjavíkurborgar í umsögn borgarinnar til Innviðaráðuneytisins um að höfuðstaðarframlag eigi að þjóna þeim tilgangi að mæta umfram kostnaði við félagsleg útgjöld þeirra sveitarfélaga er framlaginu er ætlað vegna þeirra velferðarmála sem þau þurfa í meira mæli að sinna en önnur sveitarfélög landsins. ÖBÍ leggur til að sérstakt jöfnunarframlag vegna höfuðstaðarálags verði hækkað úr 2,5% í 3%. Þá leggur ÖBÍ til að tilgreint verði sérstaklega að 0,5% af sérstöku jöfnunarframlagi skal skipt milli sveitarfélaga í samræmi við fjölda heimislausra einstaklinga sem fá veitta þjónustu og fjölda heimislausra einstaklinga á biðlista eftir þjónustu 1. janúar ár hvert.

Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk

ÖBÍ telur endurskipulagningu framlaga Jöfnunarsjóðs vegna akstursþjónustu fyrir fatlað fólk úr dreifbýli vera jákvætt skref í rétta átt. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins verður ekki lengur þörf á að skerða framlög frá Jöfnunarsjóði til þeirra sveitarfélaga sem sinna þessari þjónustu. Í lið E.2. í landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024 – 2027 kemur fram að ólíkar reglur sveitarfélaga og þjónustusvæða um akstursþjónustu fatlaðs fólks valda því að réttindi eru ólík á milli svæða, þrátt fyrir að reglur hafi átt að vera samræmdar árið 2020 í samræmi við Leiðbeiningar um akstursþjónustu við fatlað fólk. Í 20. gr. SRFF er tilgreint að gerðar skuli ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt. Víða um land er akstursþjónusta af skornum skammti, bundin við fyrir fram ákvarðaða staði og án tenginga við nágrannasveitarfélög. ÖBÍ vonar að notendur akstursþjónustu þeirra sveitarfélaga sem áður fengu skert fjárframlög njóti góðs af breytingunum og leggur til að Innviðaráðuneytið láti framkvæma þjónustukönnun hjá þjónustunotendum viðkomandi sveitarfélaga ári eftir að breytingarnar taka gildi.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Jöfnunar­sjóður sveitar­félaga
270. mál, lagafrumvarp.
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Umsögn ÖBÍ, 12. maí 2025