Skip to main content
RéttarkerfiUmsögn

Leigubifreiðaakstur (öryggi og starfsumhverfi)

By 26. maí 2025júní 13th, 2025No Comments
Leigubílar í Aðalstræti, Reykjavík.

Þann 1. apríl 2023 tóku gildi lög um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, sem meðal annars afnámu stöðvaskyldu og fjöldatakmarkanir á atvinnuleyfum til leigubílaaksturs. Þessar breytingar féllu vel í kramið meðal atvinnurekenda sem hömpuðu réttinum til atvinnufrelsis.

Öryggi farþega á að trompa rétt einstaklinga til að leggja stund á ákveðnar atvinnugreinar. Almenningur á Íslandi hefur fram að þessu getað treyst ágætlega á að umgjörð sé með þeim hætti að því sé óhætt í leigubílaakstri. Fatlað fólk er í sérstaklega viðkvæmri stöðu gagnvart misnotkun en það á einnig við um fleiri hópa eins og börn og aldraða.

Í kjölfar gildistaka laganna hefur borið á kvörtunum vegna hárrar gjaldtöku, lélegrar þjónustu og jafnvel ofbeldis. Frumvarpi því sem liggur fyrir er ætlað að auka öryggi farþega í leigubifreiðaakstri, en spurningin er hvort gengið sé nægilega langt.

Það getur vart þótt falla undir eðlilega samkeppni að einstaklingar hafi frjálsar hendur um að svindla og okra á viðskiptavinum. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa gagnvart notendum að gjaldskrá sé skýr, ferðir rekjanlegar og bílstjórar vel menntaðir og með flekklaust mannorð.

Í 2. tl. 2. mgr. 5. gr. og 2. tl. 2. mgr. 6. gr. um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022 er að finna skilyrði þess efnis að til að fá atvinnuleyfi annars vegar og rekstrarleyfi hins vegar þurfi umsækjendur að hafa gott orðspor. Gott orðspor þýðir hér að viðkomandi hafi ekki gerst sekur um kynferðisbrot eða hafi lokið afplánun vegna svokallaðs smávægilegs brots eða manndráps eða líkamsmeiðinga ýmist fimm eða tíu árum áður. Þá sé Samgöngustofu gert heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Það má deila um hvort þessi skilgreining á góðu orðspori einstaklings samræmist skilningi almennings. Kynferðisbrotamál eru til að mynda vandmeðfarin og krefjast mikillar sönnunarbyrði til sakfellingar. Einnig er óljóst hvort og hvernig heimild Samgöngustofu er nýtt. Hvort aflað sé upplýsinga úr sakaskrá erlendis jafnt sem hérlendis? Hvort það sé rétt að Samgöngustofu sé frekar gert skylt en heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá.

ÖBÍ réttindasamtök hvetja stjórnvöld til að huga að því hvernig öryggi og hagsmunir almennings, sér í lagi fatlaðs fólks, séu best tryggðir við veitingu mikilvægrar þjónustu.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Leigubifreiðaakstur (öryggi og starfsumhverfi)
388. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBí, 26. maí 2025