Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Leyfisskylda og eftirlit með áfangaheimilum

By 25. október 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um leyfisskyldu og eftirlit með áfangaheimilum, þskj. 10, mál nr. 10.

ÖBÍ réttindasamtök taka undir markmið þingsályktunartillögunar um mikilvægi þess að eyða allri óreiðu sem einkennir málaflokkinn. Skortur á opinberu eftirliti, skýru regluverki og takmarkaðar kröfur gagnvart ábyrgðaraðilum um rekstur áfangaheimili stuðlar að óöryggi íbúa. Mikilvægt er að félags- og vinnumarkaðsráðherra viðhafi víðtækt samráð við undirbúning lagasetningu um leyfisskyldu og eftirlit með rekstri áfangaheimila til að tryggja farsæld og réttindi fólks í viðkvæmri stöðu. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

1.

Í greinagerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að hópurinn sem nýtir úrræði áfangaheimila er fjölbreyttur og því þurfa úrræðin að endurspegla ólíkar þarfir. Jafnframt að brýnt sé að lögin endurspegli sem best ólíka þjónustuþörf einstaklinga sem dvelja á áfangaheimilum. ÖBÍ tekur undir þetta leiðarstef og ítrekar mikilvægi þess að ný lög taki tillit til fjölbreytta stöðu fatlaðs fólks og að það sé haft með í ráðum við gerð nýrra laga og reglugerða.

Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með fjölbreyttan bakgrunn, tengslanet og efnahagslega stöðu. Fötlun er afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

2.

Mikilvægt er að áfangaheimili séu aðgengileg fötluðu fólki og tryggt að engum sé synjað um þjónustu á þeim forsendum að húsnæðið hentar sumum en ekki öllum. ÖBÍ leggur til að ríkið styðji þau áfangaheimili sem eru óaðgengileg til framkvæmda á nauðsynlegum úrbótum í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki. Eitt af markmiðum laganna er að stuðla að tæknilegum framförum og nýjungum í byggingariðnaði, þ.m.t. að tryggja að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.

3.

ÖBÍ telur brýnt að ný lög og reglugerðir um áfangaheimili tilgreini skýrt verklag um samfellda þjónustu frá móttöku viðkomandi fram að eftirfylgni eftir útskrift. Tryggja þarf að einstaklingur fái réttan stuðning og þjónustu eftir að dvöl á áfangaheimili lýkur svo ekki komi til bakslags. Þetta á sérstaklega við fatlað fólk með geðrænar eða vitsmunalegrar skerðingar sem stendur höllum fæti í samfélaginu. Dæmi eru um að einstaklingar falli á milli í kerfinu og fái því ekki þá nauðsynlegu og lögbundnu þjónustu sem þeim ber til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Leyfisskylda og eftirlit með áfangaheimilum
10. mál, þingsályktunartillaga
Umsögn ÖBÍ, 25. október 2023