Skip to main content
HeilbrigðismálSjúkratryggingarUmsögn

Lyfjalög ofl. (viðbrögð við lyfjaskorti o.fl.)

By 19. maí 2025No Comments

„nauðsynlegt að Lyfjastofnun hafi allar heimildir til að bregðast við lyfjaskorti, til að lágmarka áhrif skorts á heilsu fólks“

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) hafa fengið til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum ofl.  ÖBÍ fagna þeim áformum og aðgerðum heilbrigðisráðherra til að draga úr lyfjaskorti sem fram kemur í frumvarpinu og styður framgang þess.

Aðgerðir til að draga úr lyfjaskorti

Lyfjaskortur er grafalvarlegt mál í ljósi þess að lyf er mörgu fötluðu fólki,  endurhæfingar- og örokulífeyristökum lífsnauðsynleg. Frumvarpinu er ætlað að auka getu Lyfjastofnunar til að draga úr lyfjaskorti. Samkvæmt frumvarpinu ber heildsöluleyfishöfum að tilkynna Lyfjastofnun um fyrirsjáanlegan lyfjaskort innan tveggja mánaða og án tafa skal tilkynna ófyrirsjáanlegan lyfjaskort. ÖBÍ styður framkomnar tillögur sem er að finna í frumvarpinu um viðbrögð við lyfjaskorti, sem Lyfjastofnun er heimilt að grípa til, og eru tilgreindar fjórar leiðir til þess. ÖBÍ styður sérstaklega C. lið nýrrar greinar í frumvarpinu sem skal bætast við Lyfjalög (32. gr.a.) sem segir að Lyfjastofnun heimilt til að sporna við lyfjaskorti að: „stýra og/eða takmarka afgreiðslu og afhendingu lyfja við ákveðna sjúklingahópa, ákveðna aldurshópa eða sjúkdómsástand sjúklinga samkvæmt áhættumati“.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er „skortur á lyfjum er vaxandi ógn við lýðheilsu sem grefur undan rétti sjúklinga til að fá aðgang að viðeigandi læknismeðferð.“ Því er nauðsynlegt að Lyfjastofnun hafi allar heimildir til að bregðast við lyfjaskorti, til að lágmarka áhrif skorts á heilsu fólk. ÖBÍ styður allar aðgerðir til að draga úr lyfjaskorti og þar með lágmarka þau áhrif sem lyfjaskortur hefur í för með sér fyrir sjúklinga.

Undanþágulyf

Í frumvarpinu eru svokölluð undanþágulyf skilgreind betur, m.a. að ekki eigi að gefa lyfi undanþágu sem hefur nú þegar markaðsleyfi á Íslandi, en hafa ekki verið markaðssett hér á landi.

Greiðsluþátttaka í lyfjum

Í frumvarpinu er fjallað um greiðsluþáttttöku á lyfjum og ferli um greiðsluþátttöku verði einfaldað og komið í veg fyrir tvíverknað við vinnslu greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingastofnun og Lyfjastofnun. Að auki fagnar ÖBÍ því að heimild til að veita einstaklingum greiðsluþátttöku í lyfjum sem hafa ekki markaðsleyfi hér á landi verði flutt til Lyfjastofnunar.

Lokaorð

Lyfjamarkaður á Íslandi er mjög frábrugðinn lyfjamörkuðum hjá fjölmennari þjóðum í ljósi þess að markaðurinn hér á landi er örmarkaður. Því kallar það á ýmsar sértækar aðgerðir, m.a. til að bregðast við lyfjaskorti. Fjöldi undanþágulyfja er ein birtingamynd örmarkaðar hér á landi en undanþágulyf eru um  25% lyfja hér á landi. Ástæðan er fyrst og fremst sú að markaðurinn hér á landi er hreinlega of lítill til að kostnaður við skráningu lyfs standi undir sér.

ÖBÍ fagnar öllum aðgerðurm til að tryggja fólki nauðsynlegt og öruggara aðgengi að lyfjum og eru samtökin reiðubúin til að fylgja þessari umsögn eftir á fundi velferðarnefndar og áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum


Lyfjalög o.fl. (viðbrögð við lyfjaskorti o.fl.)
257. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 16. maí 2025