Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 115-2021 Hvítbók um byggðamál

By 1. júní 2021No Comments

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 31. maí 2021

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um hvítbók um byggðamál

Í 1. mgr. bls. 5 segir að samhliða endurskoðun byggðaáætlunar hafi verið unnið tilraunaverkefni þar sem sérstaklega sé hugað að kynja – og jafnréttissjónarmiðum. Það væri áhugavert að vita hvort jafnréttissjónarmið séu hér aðeins kynjasjónarmið, en fatlað fólk hefur ekki alltaf upplifað að réttindi þess séu virt til jafns við aðra.

Það sem stingur í augu við lestur hvítbókar um byggðamál er að það vantar að minnast á fatlað fólk víða í áætluninni. Í mörgum tilfellum er talað um hópa út frá aldri, kyni eða uppruna. Í þessa upptalningu vantar ítrekað að tilgreina fatlað fólk, s.s. í a-lið bls. 11, a-lið bls. 12, aðgerð C.12 bls. 37 og C.13. bls. 37. Eins tekið er fram undir Markmiði C þá skal unnið að innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks því eins og stendur í 3. mgr. 4 gr. samningsins: „Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Þá vekur athygli að ekki eru mælanleg markmið um allar aðgerðir í áætluninni, þó að sums staðar sé minnst á hvernig árangur verði mældur.

Eftirfarandi athugasemdir hefur ÖBÍ við hvern lið fyrir sig:

L-liður bls. 10 verði: „…óháð, búsetu, efnahag og fötlun.“
Í lið A.4 er talað um að styðja notendur og fjölskyldur þeirra til sjálfshjálpar. Mikilvægt er að byggja upp kerfi þar sem fólk sem þarfnast aðstoðar fái aðstoðina. Vinnan má ekki lenda öll á aðstandendum, til að mynda foreldrum barna sem þurfa mikla umönnun. Þessi áhersla stangast á við frumvarp um lög um samþættingu um þjónustu í þágu farsældar barna sem liggur fyrir. ÖBÍ ætti að vera inni í upptalningu um samstarfsaðila og leggur ÖBÍ til að úr því verði bætt.

Í lið A.5 er mældur árangur með fjölda koma. Þó fjöldi koma gefi ákveðnar upplýsingar telur ÖBÍ gagnlegra og eðlilegra að notast við þarfagreiningu og greina árangur af meðferð og/eða þjónustu.

Í lið A.10 er talað um almenningssamgöngur milli byggða, en þær hafa hingað til verið nánast alveg útilokaðar hreyfihömluðu fólki enda hefur landsbyggðarstrætó ekki verið því aðgengilegur og akstursþjónusta fatlaðs fólks, sem á að vera ígildi strætó, er bundin við þau sveitarfélög sem hana reka. Nú er loks kominn vísir að því að bæta úr aðgengi að strætó með kaupum á fjórum aðgengilegum vögnum sem eiga að duga fyrir landið. Samhliða því að strætó sé aðgengilegur þarf að gera biðstöðvar um allt land aðgengilegar. Enn hefur ekki verið leyst úr vanda notenda akstursþjónustunnar sem enn komast ekki milli sveitarfélaga. Úr þessu verður að bæta. ÖBÍ ætti að vera inni í upptalningu um samstarfsaðila og leggur ÖBÍ til að úr því verði bætt.

Í lið A.14 ætti ÖBÍ að vera inni í upptalningu um samstarfsaðila og leggur ÖBÍ til að úr því verði bætt. Í aðgerð C.5 er rætt um fjölgun nýbygginga, sérstaklega á köldum svæðum. Þarna væri gott að sjá vilyrði fyrir því að einstaklingar geti fengið styrk til að breyta húsnæði sínu þegar aðstæður breytast þannig að þeir geti áfram búið í húsnæðinu sínu en þurfi ekki að flytja búferlum. Mikilvægt er einnig að tryggja fjármagn til dæmis til að veita hlutdeildarlán. Eins og staðan er núna veitir HMS ekki nein hlutdeildarlán og hafa einungis verið tvær úthlutanir í ár og ekki vitað hvenær opnað verður aftur fyrir umsóknir.

Í 1. mgr., bls. 17 er fjallað um það hvernig heimsfaraldurinn hefur opnað augu fólks fyrir því að hægt sé að vinna ýmis störf hvar sem er í fjarvinnu. Það felur jafnframt í sér að möguleikar fatlaðs fólks til að fá ráðningu, meðal annars hjá sveitarfélögunum, hljóta að aukast umtalsvert þegar það getur sinnt störfum við hæfi á eigin heimili. Þetta tengist m.a. aðgerð B7 Störf án staðsetningar.
Við hlökkum til að eiga frekari samtal og samstarf við aðra hlutaðeigandi aðila um þessa áætlun.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri hjá ÖBÍ

Valdís Ösp Árnadóttir
verkefnastjóri hjá ÖBÍ

Þórdís Viborg
verkefnastjóri hjá ÖBÍ