Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 16-2021 Drög að reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

By 15. mars 2021No Comments
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sölvhólsgata 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 1. febrúar 2021

Umsögn ÖBÍ um reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar því að lögð hefur verið fram reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og áherslum hennar um framlög til úrbóta á aðgengi fyrir fatlað fólk. Upplýsingar hefur skort um sjóðinn og reglur um hann, en þó hefur verið ljóst að hann þyrfti að opna betur.

Á Íslandi er meirihluti mannvirkja illa aðgengilegur fötluðu fólki sem hamlar möguleikum þess til að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra. Fólk er því í mjög misjafnri aðstöðu til búsetu, atvinnu og almennri þátttöku í samfélaginu. Ísland er langt á eftir nágrannalöndunum hvað varðar styrki og lán til að jafna aðgengi að mannvirkjum. Við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 minnkuðu möguleikar þess enn. Þá var framkvæmdasjóður fatlaðra lagður niður, en þar var hægt að sækja um styrki meðal annars til aðgengisúrbóta í íbúðarhúsnæði og á vinnustöðum á almennum markaði. Í staðinn var settur á fót fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem skv. lögum „hefur það hlutverk að jafna aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu eða breytingar á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir.“[1]

Fasteignasjóðurinn hefur því eingöngu verið til fyrir sveitarfélögin til að gera úrbætur á eigin húsnæði, en möguleikar einstaklinga, félagasamtaka og rekstraraðila á markaði til að gera úrbætur á eldri mannvirkjum var því háður aðgengi að lánum og eiginfjármagni. Mörg verkefni hafa stöðvast vegna þessa.

Það er því löngu tímabært að opna Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs fyrir þá sem vilja og þurfa að fara í framkvæmdir til að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk að eldra húsnæði. Þó ætti að vera heimilt að veita einstaklingum styrki til að gera útbætur á eigin húsnæði, en ekki aðeins rekstraraðilum eða einkaaðilum í samvinnu við sveitarfélögin. 

Í Noregi geta hreyfihamlaðir einstaklingar ekki aðeins sótt um sérstakan styrk frá Húsbankanum til að aðlaga húsnæði svo að þeir geti búið þar, heldur er einnig hægt að sækja um styrk til að fá faglega hjálp, t.a.m. frá arkitekt eða verkfræðingi, við að bæði leggja mat á hvaða breytingar þarf að gera á húsnæði til að uppfylla þarfir hreyfihamlaðra einstaklinga eða annarra sem þurfa aðlagað húsnæði og til að teikna upp húsnæðið fyrir framkvæmdir.

Á hinum Norðurlöndunum eru einnig veittir styrkir til að aðlaga eldra íbúðarhúsnæði til að hreyfihamlaðir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu lífi í eigin húsnæði[2] og til að aðgengisbæta sameignir, t.d. með lyftustyrkjum. Í Svíþjóð hafa verið í gildi lög frá 1992 sem kveða á um styrkveitingar sveitarfélaga til aðlögunar íbúðarhúsnæðis. Í Finnlandi fást styrkir frá bæði ríki og sveitarfélögum til að aðlaga húsnæði og sameignir. Í Danmörku hafa verið veittir lyftustyrkir og einstaklingsbundnir styrkir til aðgerða innan íbúðar. Þessar upplýsingar byggja á 15 ára gömlum gögnum og ef einhverjar breytingar hafa orðið á kerfunum, má gera ráð fyrir að þær séu til batnaðar.

Í b-lið, 1. mgr. 3. gr. er lagt til að sjóðurinn geti úthlutað framlögum til að gera úrbætur á biðstöðvum almenningssamgangna, útivistarsvæðum og almenningsgörðum. Þetta er allt brýnt og mikilvægt, enda víða pottur brotinn. Hins vegar verður að gæta þess að þessi framlög fari ekki í hít kostnaðar vegna framkvæmda sem ekki miða sérstaklega að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks. Þegar farið er í nýframkvæmdir eða stórfellda endurskipulagningu er aðgengi fatlaðs fólks eitt þeirra atriða sem á að vera í lagi frá upphafi.

Í b-lið, 1. mgr. 3. gr. er lagt til að sjóðurinn geti úthlutað framlögum til að gera úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks. Hér verður að taka sérstaklega fram að framlögin eiga að vera til þess að gera viðeigandi aðlögun fyrir fatlað fólk á vinnustöðum. Fatlað fólk stendur í dag höllum fæti á vinnumarkaði, ekki síst þar sem ætlast er til að vinnuveitandi greiði fyrir viðeigandi aðlögun þess að vinnustað. Það er því afar mikilvægt að atvinnurekendur geti sótt í opinbera sjóði til þess. Þessi framlög mega ekki aðeins vera eyrnamerkt sérstökum vinnustöðum fatlaðs fólks.

Mikil áhersla er lögð á framlög fasteignasjóðs til byggingar búsetukjarna fyrir fatlaða íbúa með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir. ÖBÍ vekur athygli á því stefna síðustu ára er að hverfa frá stofnana úrræðum fyrir fatlað fólk og minnir í því samhengi á  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt, en þar segir m.a. í a-lið, 19. gr.: „að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir.“ Því er mikilvægt í þessu samhengi að hvetja ekki sveitafélögin of mikið til að byggja búsetukjarna á kostnað annars húsnæðis fyrir fatlað fólk.

Þá er æskilegt að skýra nánar hvers konar sérstök undantekningartilvik teljast falla svo vel að hlutverki Fasteignasjóðs að þau teljist uppfylla skilyrði sjóðsins um úthlutun, sbr. e-lið, 1. mgr. 2. gr.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ


[1] https://www.althingi.is/lagas/150a/1995004.html, 1. mgr. 13. gr. b.
[2] http://www.felagsbustadir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1925