Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 223-2021 Drög að reglugerð um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga

By 8. desember 2021No Comments

Dómsmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
108 Reykjavík

6. desember 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um reglugerð um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga nr. 76/2003

Mikilvægt er að hlustað sé á börn varðandi málefni sem snerta þau sjálf og að lagasetning árétti stöðu og réttindi barna enda er það í samræmi við þá mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undangengist. Í 7. grein, 1. málsgrein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, (SRFF) segir, „aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn“.

Ábendingar varðandi einstakar greinar reglugerðarinnar

Í 2. grein reglugerðarinnar er kveðið á um skilyrði sem sérfræðingur í málefnum barna þarf að uppfylla.

ÖBÍ mælir með að greinagóð þekking á þörfum og aðstæðum fatlaðra barna og fatlaðra foreldra sé bætt við skilyrðin.

Í 14. grein er staða barns við sáttameðferð ávörpuð. Þar kemur fram að gefa skuli barni kost á að tjá sig eftir atvikum og tekur sýslumaður ákvörðun, að höfðu samráði við foreldra, um hvort og hvenær gefa skuli barni kost á að tjá sig við sáttameðferð. Hér þarf að skýra frekar hvað „eftir atvikum“ merkir, enda afar opið til túlkunar. Sé ætlunin að vísa til þess að ómálga ungabörnum verði ekki boðið í viðtal þarf að taka það fram. Fötluð börn búa of oft við forræðishyggju þar sem ákvarðanir eru teknar fyrir hönd þeirra án þess að eftir þeirra áliti sé leitað. Í einhverjum tilfellum er því haldið fram að þau hafi ekki forsendur til að tjá tilfinningar, langanir og skoðanir sínar, einkum í þeim tilvikum þar sem barn notast við óhefðbundar tjáskiptaleiðir. Í greininni er upplýsingaskylda sáttamanns tilgreind en honum ber að gera barni grein fyrir rétti sínum, þeim ágreiningi sem er uppi sem og að svara þeim spurningum sem barnið kann að hafa. Til að koma til móts við mismunandi þarfir barna er nauðsynlegt að sáttamaðurinn sé kunnugur mismunandi fötlununum og óhefðbundnum tjáskiptaleiðum. Í 7. grein, SRFF, 3. málsgrein segir, „aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika“.

ÖBÍ mælir með að öllum börnum sé gefinn kostur á því að tjá sig og komið sé til móts við þær tjáskiptaleiðir sem henta hverju barni best.

Í 18. grein fjallar um undirbúning og framkvæmd sáttameðferðar á vegum sýslumanns. Markmiðið er að afla upplýsinga frá foreldrum í þeim tilgangi að komast að þeirri niðurstöðu sem er barni fyrir bestu. Tekið er fram að öllu jafna fari slíkir fundir fram á íslensku en sýslumaður hefur heimild til að kveða til táknmálstúlk. Foreldrum sem hafa annað móðurmál en íslensku er heimilt að hafa með sér túlk og þurfa þá að greiða fyrir túlkaþjónustuna úr eigin vasa. Slík framkvæmd mismunar fólki eftir því hvernig túlkaþjónustu fólk þarf á að halda. Einnig getur það komið í veg fyrir að foreldrar fái og hafi forsendur til að gefa réttar upplýsingar. Það eykur líkur á að niðurstaðan verði ekki sú sem er í reynd sú besta fyrir barnið ef aðstæður skapa valdaójafnvægi milli foreldra, t.d. í þeim tilvikum þar sem annað foreldri er með íslensku að móðurmáli en hitt með annað móðurmál en íslensku. Mikilvægt er að koma til móts við fatlaða foreldra og veita þeim upplýsingar og tækifæri til að tjá sig á því formi sem þeim hentar. Í 21. grein SRFF segir, „aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar“.

ÖBÍ mælir með því að túlkaþjónusta í sáttameðferð hjá sýslumanni sé fólki að kostnaðarlausu óháð tegund túlkunar. Mælt er með því að bætt sé við greinina að óhefðbundnar tjáskiptaleiðir séu leiðir til tjáningar og sýslumanni beri að koma til móts við þær.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Þórdís Viborg, verkefnastjóri ÖBÍ