Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 3-2021 Drög að stefnu um félags- og tómstundastarf

By 15. mars 2021No Comments

Mennta- og menningarmálaráðuneytið                                                                                                            

4. febrúar 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030

Drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030 sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda bera skýr merki um skort á samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Ástæða er til að minna á að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“. Til þess að samráð sé raunverulegt en ekki sýndarmennska þarf samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks að vera virkt á öllum stigum máls, frá mótun stefnu til gildistöku, framkvæmdar, þróunar og endurskoðunar.

Stefnumörkun er afar mikilvæg og ætluð til þess að vera leiðarljós. Ætli stjórnvöld sér að setja stefnu sem mark er takandi á og skilar árangri þarf hún að vera algerlega skýr og laus við tækifæri til túlkunar. Hér er hinsvegar um að ræða plagg sem skrifað er á afar opinn hátt og uppfyllir þau skilyrði engan veginn.

Athugasemdir og tillögur varðandi tiltekna liði.

A. Framboð og inntak félags-og tómstundastarfs

Kveðið er á um réttindi barna til tómstunda og skapandi starfs samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. ÖBÍ leggur til að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði hafður til hliðsjónar við stefnumótunina enda tilgreinir hann enn frekar mannréttindi fatlaðra barna og ungmenna.

Eins og segir í 30. gr., d

„tryggja fötluðum börnum aðgang, til jafns við önnur börn, til að taka þátt í leikjum og tómstunda- og frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins“.

Liður 6, „stuðlar að fræðslu fyrir börn og ungt fólk um almenn réttindi sín og skyldur og gefur þeim tækifæri til að beita þeim.“

ÖBÍ leggur til að Barnasáttmálinn og SSRF verði sérstaklega tilgreindir í þessum lið.

Liður 8, „leggur áherslu á að samsetning hópa sé fjölbreytt er varðar bakgrunn og reynslu“.

Samkvæmt fenginni reynslu er þörf á því að tilgreina um hvaða hópa ræðir.

ÖBÍ leggur til að orða lið 8 með eftirfarandi hætti, „leggur áherslu á að samsetning hópa sé fjölbreytt er varðar fötlun, kyn, uppruna, kynhneigð, trúarbrögð og félagslega stöðu“.

B. Rekstrar- og starfsumhverfi félags-og tómstundastarfs

Liður 1, „lagarammi rekstraraðila í félags-og tómstundastarfi er skýr og styður við rekstur og þróun starfsins“.

Liður 2, „gæðaviðmið fyrir rekstur og stjórnun eru forsenda rekstrarfjármögnunar til þeirra sem standa fyrir starfinu, til samræmis við umgang starfseminnar“.

Hér er um að ræða miklar kröfur sem hætta er á að einungis stærri samtök geti staðið undir og gæti því mögulega útilokað smærri aðila og hindrað nýsköpun. Gæta verður að því að smærri samtök hafi jöfn tækifæri og þau stærri til að standa fyrir félags- og tómstundastarfi.

Liður 3, „aðstaða og tæki sem stuðla að faglegu starfi og þróun þess er til staðar“.

ÖBÍ leggur til að til liðurinn verði ítarlegri og orðaður á eftirfarandi hátt, „viðeigandi aðlögun t.d. aðgengi, aðstaða, hjálpartæki og önnur tæki sem stuðla að faglegu starfi og þróun þess er til staðar“.

Liður 4, „ aukin fjárframlög til reksturs eru tryggð og jafnræðis gætt við úthlutun fjármagns.

Þörf er á að skýra betur þá jafnræðisreglu sem á að fara eftir. Á að úthluta fjármagni út frá hausatölu félagsmanna, fjölda starfsmanna eða öðrum leiðum? Úthlutun fjármagns verður að vera skynsöm og tryggja þarf að fjármagnið fari þangað sem þörfin er mest.

ÖBÍ leggur til að bætt verði við að aukin fjárframlögð séu tryggð þegar aukið fjármagn þarf til að tryggja þátttöku fatlaðra barna og ungmenna.

Liður 5, „öll börn og ungmenni hafi aðgang að og jöfn tækifæri til þátttöku“. 

Liður 6, „félags-og tómstundastarf sé öruggur vettvangur allra barna og alls ungs fólks“.

ÖBÍ leggur til að í lok beggja liða verði bætt við, „óháð fötlun, kyni, uppruna, kynhneigðar, trúarbragða og félagslegri stöðu“.

Liður 8, „félags- og tómstundageirinn starfi með viðeigandi aðilum að sameiginlegum málum, með það að markmiði að bæta starfið og tryggja samræmi milli málaflokka“.

     ÖBÍ leggur til að skilgreint sé hvað átt er við með „viðeigandi aðila“.

C. Mannauður sem undirstaða félags-og tómstundastarfs

Settar eru gríðarlega kröfur um þekkingu og færni til sjálfboðaliða jafnt og launaðra starfsmanna. Staða sjálfboðaliða og launaðra starfsmanna er afar ólík og því einkennilegt að gera ráð fyrir því að sjálfboðaliðar eigi að vera stór hluti af mannauði félags- og tómstundastarfs. Svo virðist sem fjárhagslegir hagsmunir ráði hér stefnunni í stað þess að tryggja öruggasta umhverfið fyrir börn og ungmenni. Launaður starfsmaður ber eðlilega meiri ábyrgð en sjálfboðaliði og getur vinnuveitandi krafið starfsmann um bakgrunnsupplýsingar, t.d. sakavottorð og meðmæli. Slíkar kröfur eiga ekki við um sjálfboðaliða.

Fötluð börn eru líklegri en önnur til að verða fyrir ofbeldi og því er afar brýnt að starfsfólk sem vinnur með þeim sé vel menntað og fái þjálfun í að starfa með fötluðum börnum.

ÖBÍ leggur til að skilgreint verði hvaða kröfur er hægt að fara fram á bæði varðandi sjálfboðaliða sem og launaðs starfsfólks. Einnig þarf að skýra hver ber ábyrgð á að veita þá fræðslu sem nauðsynleg er til að starfsmenn og sjálfboðaliðar hafi þá þekkingu og færni sem ætlast er til að þeir búi yfir.

D. Rannsóknir og þróun í félags- og tómstundastarfi

Jákvætt er að leggja eigi áherslu á rannsóknir enda mikil vöntun á tölfræði og almennum rannsóknum sérstaklega varðandi þátttöku fatlaðra barna í félags- og tómstundastarfi.

Í þessum drögum er hvergi að finna stefnu um fagleg gæðaviðmið félags-og tómstundastarfsins og leggur ÖBÍ til að úr því verði bætt. Nauðsynlegt er að tryggja að rödd fatlaðra barna heyrist og þau fái sömu tækifæri og önnur börn til þátttöku í félags-og tómstundastarfi á eigin forsendum.

Til stendur að hafa sérstakt samráð um aðgerðir út frá stefnunni og áréttar ÖBÍ samráðsskyldu stjórnvalda þegar að því kemur.

Ekkert um okkur, án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ