Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 57-2021 Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (fjölgun mismununarþátta)

By 15. mars 2021No Comments
Forsætisráðuneytið 
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg 

101 Reykjavík 

 Reykjavík, 8. mars 2021 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um mál S-57/2021 drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (fjölgun mismununarþátta), nr. 85/2018. 

ÖBÍ lýsir ánægju með það samráðsferli sem hefur verið viðhaft við samningu frumvarpsins og þakkar fyrir samstarfið við vinnslu málsins. Mjög gagnlegt var að að koma snemma inn í ferlið. Það er von ÖBÍ að samráðsferli þessa máls verði fyrirmynd við samningu annarra frumvarpa og mála sem fjalla um málefni fatlaðs fólks. 

ÖBÍ styður heilshugar við markmið frumvarpsins um að bann við mismunun nái til fleiri þátta heldur en kynþáttar og þjóðernisuppruna. Hér á eftir fylgja athugasemdir ÖBÍ um drögin. ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma fleiri ábendingum á framfæri varðandi frumvarpið á síðari stigum, þar með talið þegar frumvarpið er til meðferðar hjá Alþingi. 

Skilgreining á hugtökunum „fötlun“ og „fatlað fólks“ þyrfti að vera víðtækari. 

Í c-lið, 3. gr. frumvarpsdraganna eru lagðar til níu nýir töluliðir með orðskýringum þeirra mismununarþátta sem frumvarpinu er ætlað að bæta við lögin. Í  7. tl. er orðskýringin fyrir „Fötlun“ orðuð svo: 

Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar  til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar. 

Í 8. tl. sömu greinar í frumvarpsdrögunum er orðskýring fyrir „Fatlað fólk“ orðuð svo: 

Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við. 

ÖBÍ gerir alvarlega athugasemd við að hugtakið „fötlun“ sé skilyrt við „langvarandi skerðingar“ í 7. tl.  og að fólk þurfi að vera með „langvarandi. . . skerðingu eða skerta skynjun“ til að teljast til „fatlaðs fólks“ skv. 8. tl. greinarinnar. Þó það sé ágætis samræmi milli skilgreiningarinnar á hugtakinu „fatlað fólk“ í frumvarpsdrögunum og 2. mgr. 1. gr. í nýjustu útgáfu íslenskrar þýðingar Samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er að finna á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands1 þá er skilgreiningin í samningnum víðari. Orðalagið sem þar er ber þess skýr merki að upptalningin í málsgreininni er ekki tæmandi listi yfir hverjir teljist vera „fatlað fólk“. Það verður enn meira áberandi þegar litið er til i.-liðar formála samningsins samhliða. Málsgreinin orðast svo í þessari þýðing. 

Til fatlaðs fólks teljast m.a. [áherslu bætt við] þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. 

Í enskri útgáfu samningsins hljómar sama málsgrein svo:  

Persons with disabilities include those [áherslu bætt við] who have long-term physical, mental, intellectual or sensory impairments which in interaction with various barriers may hinder their full and effective participation in society on an equal basis with others. 

Tillaga að breytingu: 

Lagt er til að skilgreining frumvarpsins á hverjir teljist til „fatlaðs fólks“ verði afrituð orðrétt upp úr 2. mgr. 1. gr. þýðingar SRFF sem er að finna á vef Stjórnarráðs Íslands og að skilgreiningar laga nr. 38/2018 og laga nr. 86/2018 á sama hugtaki verði uppfærðar til samræmis. 

Tilgreina þarf fleiri svið samfélagsins sérstaklega til áherslu 

Í 3. hluta greinargerðar með frumvarpinu kemur fram að bann við mismunun skv. þessum lögum gildi á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar en að einstök svið væru sérstaklega tilgreind til áherslu. Nýleg dómaframkvæmd þar sem svo virðist sem fötlun þolanda sé látin liggja til grundvallar neikvæðu mati á trúverðugleika vitnisburðar þolandans er skýrt merki um þörfina á að dómstólar séu sérstaklega tilgreindir í þessum lögum. Að dómstólar þurfi sérstaklega að huga að viðeigandi aðlögun svo fatlað fólk njóti sama réttar í dómskerfinu eins og ófatlaðir. 

Tillaga að breytingu: 

ÖBÍ leggur til að dómstólum sé bætt við þau sérstöku svið sem tilgreind eru til áherslu. Að þar komi sérstaklega fram að dómstólum beri að leita allra leiða til að tryggja að enginn þeirra mismununarþátta sem fram koma í frumvarpi þessu geti sjálfstætt leitt til neikvæðs mats á trúverðugleika vitnisburðar einstaklings. Að það sé jafnvel enn ríkari skylda lögð á herðar dómstóla að sjá til þess að viðeigandi aðlögun sé beitt til að lágmarka áhrif fötlunar á trúverðugleika vitnisburðar. 

Félagsleg staða sem mögulegur mismununarþáttur

Að mati ÖBÍ er þekkt staðreynd að félagsleg staða er oft sjálfstæður grundvöllur mismununar. T.d. fær fólk í fátækt oft verri þjónustu en aðrir, t.d. þegar þjónustuveitandi dregur ályktun af klæðaburði viðskiptavinar að svo sé ástatt um viðkomandi. Svipað getur gerst út frá þekktum fjölskyldutengslum, húsnæðisstöðu, árangri í námi, hvort sem er skyldu- eða framhaldsnámi, o.s.frv. Nú þegar er lagt til í þessu frumvarpi að fjölþætt mismunun verði bönnuð samhliða fjölgun mismununarþátta. Það er m.a. þekkt að fatlað fólk er hættara við að lenda í fátækt, þurfa að láta lélegt eða óboðlegt húsnæði duga sér. Því fleiri þættir mögulegrar mismununar sem á við einstakling því meiri verða líkurnar á að viðkomandi verði fyrir fjölþættri mismunun. Með það í huga og að ákveðið hafi verið að setja inn nýtt bráðabirgðaákvæði um að ráðherra skuli innan árs frá gildistöku laga þessa verði frumvarpið samþykkt skipa starfshóp til að fjalla um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á lögunum og lögum nr. 86/2018 leggur ÖBÍ til eftirfarandi  

Tillaga að breytingu: 

Á eftir textanum „mismunun vegna tengsla“ í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins bætast við orðin: „og mismunun vegna félagslegrar stöðu“. Bætt verði við athugasemdir við bráðabirgðaákvæðið í greinargerð frumvarpsins texta sem skilgreinir hvað átt er við með mismunun vegna félagslegrar stöðu í samræmi við útskýringu hér að ofan. 

Ekkert um okkur án okkar! 

Með vinsemd og virðingu, 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ  


Nánar um frumvarpið á Samráðsgátt