Skip to main content
AðgengiUmsögn

Reglugerð um smíði, hönnun og búnað skipa með mestu lengd allt að 15 metrum

By 22. september 2022október 6th, 2022No Comments
Ferjan Baldur á Siglingu

Summary

Til að tryggja að fatlað fólk geti ferðast með farþegaskipum þarf að ganga út frá ákveðnum viðmiðum um aðgengi að skipum og um borð þar sem það er hægt, svo sem að leiðir séu breiðar og hindrunarlausar, merkingar séu skýrar, leiðbeiningar og tilkynningar auðskildar og að hugað sé að lýsingu og hljóðvist. Salernisaðstaða þarf að vera til staðar og öll öryggisatriði til að tryggja skjóta rýmingu þurfa að vera í lagi.

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að reglugerð um smíði, hönnun og búnað skipa með mestu lengd allt að 15 metrum

Umsögnin byggir að stórum hluta á umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, dags. 6. júní 2018. Þá var ábendingum ÖBÍ ekki fylgt og það má fullyrða að ekki hafi verið farið að lögum við gildistöku þeirrar reglugerðar enda er þar ekki gert ráð fyrir að fatlað fólk ferðist með skipum. Sama á við um drög að reglugerðinni sem nú liggur fyrir til umsagnar.

Á þessu kjörtímabili á að löggilda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) en samkvæmt honum skuldbinda aðildarríkin sig til að „gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin“ , þar á meðal „að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til: 10 a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“

Eftirfarandi athugasemdir eiga fyrst og fremst við um farþegabáta og -skip.

Aðgengi að skipum

Til að tryggja að fatlað fólk geti ferðast með farþegaskipum þarf að ganga út frá ákveðnum viðmiðum um aðgengi að skipum og um borð þar sem það er hægt, svo sem að leiðir séu breiðar og hindrunarlausar, merkingar séu skýrar, leiðbeiningar og tilkynningar auðskildar og að hugað sé að lýsingu og hljóðvist. Salernisaðstaða þarf að vera til staðar og öll öryggisatriði til að tryggja skjóta rýmingu þurfa að vera í lagi.

Þá er rétt að ganga út frá þeim viðmiðum sem koma fram í leiðbeiningarblaði MGN 306 frá 1996: „ Recommendation on the design and operation of passenger ships to respond to elderly and disabled persons’ needs.“

Athugasemdir við reglugerðina

Í 5. reglu segir: „Bátur, sem er í viðgerð, breytingum eða endurbótum og er útbúinn samkvæmt því, skal uppfylla a.m.k. þær kröfur sem upphaflega voru gerðar til bátsins.“ Álit ÖBÍ er að rétt sé að setja viðmiðunarreglur um bætta aðstöðu og aðgengi eftir umfangi viðgerða, breytinga eða endurbóta. Þá sé ákvæði um að farþegaskip og -bátar séu teknir úr umferð eftir ákveðinn tíma ef ljóst er að ekki er hægt að uppfylla kröfur sem gerðar eru til nýrra báta.

Í 5. reglu segir ennfremur: „Meiri háttar viðgerðir, breytingar eða endurbætur og búnaður í tengslum við þær skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru til nýrra báta, en þó aðeins í því sem varðar þessar viðgerðir, breytingar eða endurbætur og innan þeirra marka er stjórnvöldum þykja skynsamleg og hagkvæm.“ Álit ÖBÍ er að skynsamar og hagkvæmar breytingar skulu að lágmarki og án afsláttar vera þær að nýir farþegabátar og -skip séu fyllilega aðgengileg fötluðu fólki. Útbúinn verði listi yfir þær kröfur sem verði komið í hendur rekstraraðila og eigenda farþegabáta og -skipa. Uppfylli nýir bátar og skip ekki þær kröfur sem gerðar eru til aðbúnaðar og aðgengis farþega þá hafi eigendur ákveðinn tíma til að bæta úr því, en sæti annars viðurlögum. Sömu kröfur þurfa að eiga við um björgunar- og annan öryggisbúnað svo að tryggt sé að fatlað fólk hafi sömu möguleika og aðrir á að koma sér úr hættulegum aðstæðum.

Í viðauka 31 – Farþegabátar og farþegaskip er hvergi gert ráð fyrir því að fatlað fólk geti verið meðal farþega.
• Ekki varðandi neyðaráætlun eða öryggisfræðslu fyrir farþega, sbr. almenn ákvæði.
• Ekki varðandi handrið og landgang, en það er brýnt að fatlað fólk komist um og frá borði á þægilegan hátt.
• Ekki varðandi vistarverur og neyðarútganga en hér er gert ráð fyrir að tröppur og dyr skuli vera minnst 750 mm breiðar. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er gert ráð fyrir að umferðarbreidd dyra sé aldrei minni en 800 mm. Minnsta hindrunarlausa breidd ganga í byggingarreglugerð er 1300 mm og miðast við að hægt sé að mæta hjólastólanotanda á ganginum. Í neyðartilvikum er óvíst að farþegar hafi þolinmæði til að bíða.
• Ekki varðandi útgönguleiðir þar sem „minna útgönguopið úr vistarverundum skal vera minnst 600 * 600 mm“ en þar er gert ráð fyrir að farþegar eigi að geta farið út í snatri. Hreyfihamlaðir farþegar eiga ekki kost á að fara út um svo lítið neyðarútgönguop.
• Ekki varðandi salerni, þar sem engar kröfur eru gerðar um að farið sé eftir kröfum um algilda hönnun snyrtinga og baðherbergja sbr. 6.8.3. gr. byggingarreglugerðar. Eðlilegt og rétt væri að í hverjum farþegabáti og -skipi sé a.m.k. eitt salerni sem uppfylli þau skilyrði. Þegar vikið er frá kröfum um salerni fyrir báta sem notaðar eru til stuttra ferða þarf að vera krafa um að hreinlætisaðstaða um borð sé öllum aðgengileg.

Samráð

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri

 


Umsögnin var send til Innviðaráðuneytis, í samráðsgátt stjórnvalda 22. september 2022.