Skip to main content
DómsmálRéttarkerfiUmsögn

Mannréttindasáttmáli Evrópu (samningsviðauki nr. 16)

By 9. nóvember 2023júní 6th, 2024No Comments

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu samningsviðauka nr. 16 við samninginn við mannréttindasáttmála Evrópu.

ÖBÍ réttindasamtök taka heilshugar undir að Ísland fullgildi og lögfesti samningsviðauka nr. 16 við mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Með ráðgefandi álitum munu innlendir dómstólar geta lagt fyrir dómstólinn spurningar um meginreglur sem varða túlkun og beitingu þeirra réttinda sem skilgreind eru í samningnum og bókunum við hann.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. hans verða æðstu dómstólum aðildarríkjanna gert kleift að óska eftir ráðgefandi áliti Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) um túlkun réttinda samkvæmt MSE. Ráðgefandi álitum MDE er ætlað að veita aðildarríkjum aðstoð og leiðbeiningar við túlkun á samningum innan landsréttar. Tilgangurinn er ekki að flytja landsdeiluna til MDE.

ÖBÍ telur brýnt að bæði Hæstarétti Íslands og Landsrétti verði gert kleift að óska eftir áliti. Rökin fyrir því að Landsrétti verði einnig heimilt að óska eftir ráðgefandi áliti eru að fá mál rata til Hæstarétttar sökum strangra skilyrða sem áfrýjuð mál þurfa að uppfylla.

Ráðgefandi álit eru ekki bindandi. Í ljósi þess að þau eru ekki bindandi og ekki er verið að framselja dómsvald er þeim mun ríkari ástæða að fullgilda og lögfesta samningsviðauka nr. 16 við MSE. Fullgilding samningsviðaukans mun stuðla að því að við úrlausn mála á áfrýjunarstigi liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um þjóðaréttarlegar skuldbindingar samkvæmt MSE.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingafyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Samningsviðauki nr. 16 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu)
121. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 9. nóvember 2023