Skip to main content
AðgengiKosningarUmsögn

Reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga

By 1. september 2023apríl 18th, 2024No Comments

„Kjörskrá þarf að vera með aðgengilegu sniði svo að blindir og sjónskertir, fólk með lesblindu, þroskaskerðingu og aðrir geti skilið.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga.

Rétturinn til að kjósa er bæði stjórnarskrárvarinn og auk þess er hann varinn í alþjóðlegum mannréttindasamningum. Rétturinn til að kjósa er því grundvallarréttur í lýðræðisþjóðfélagi. Í ljósi þess að um grundvallarrétt er að ræða hvílir lagaleg skylda á ríki og sveitarfélögum að ganga úr skugga um að möguleikar allra kosningabærra þjóðfélagsþegna til að taka þátt í kosningum sé tryggður.

Í 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) segir:

Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa að eigin frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosið, þar á meðal með því:
i) að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,
ii) að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með árangursríkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
iii) að tryggja að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklings að eigin vali við að greiða atkvæði.

Nærtækt væri fyrir kjörstjórnir að leita álits notendaráða fatlaðs fólks í sveitarfélögnunum og uppfylla þannig samráðsskyldu sína.

Athugasemdir um ákvæði reglugerðarinnar. 

3. gr. Kjörskrá.

„d. Þjóðskrá Íslands tilkynnir sveitarfélagi að gerð hafi verið kjörskrá jafnskjótt og gerð hennar lokið og eigi síðar en 20 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst. Kjörskrá skal vera aðgengileg almenningi til skoðunar á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað sem sveitarstjórn ákveður, eigi síðar en 14 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst.“

Kjörskrá þarf að vera aðgengileg í aðgengilegu rými svo að hreyfihamluðu fólki sé ekki haldið frá henni. Kjörskrá þarf að vera með aðgengilegu sniði svo að blindir og sjónskertir, fólk með lesblindu, þroskaskerðingu og aðrir geti skilið. Kjörskrá þarf að birtast á heimasíðu, sem er aðgengileg blindu og sjónskertu fólki og með upplýsingum á einfölduðu máli.

6. gr. Kjörgögn

Á hverri kjördeild þarf að vera aðgangur að stækkunargleri, skapalóni með upphleyptu punktaletri, s.k. blindraspjaldi, og öðrum þeim hjálpartækjum og -gögnum sem gera fötluðu fólki kleift að nýta kosningarétt sinn á kjörstað.

8. gr. Kjörstaðir

Það þarf að vera óheimilt að halda kosningar í óaðgengilegu húsnæði fyrir fatlað fólk. Greitt aðgengi, skýrar upplýsingar og góð aðstaða þarf að vera til staðar. Aðgengishópur ÖBÍ tók saman eftirfarandi ábendingar um aðgengi að kjörstöðum árið 2016, sem ekki eru endilega tæmandi en ættu að gefa ágætlega til kynna þær lágmarkskröfur sem gera þarf til kjörstaða:

Bílastæði og aðkoma að kjörstað.

Nægt framboð af bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sé við kjörstað og sem næst inngangi. Skv. byggingarreglugerð skulu þau vera “ 3,80 m x 5,00 m að stærð eða 2,80 m x 5,00 m með hindrunarlausu 1,00 m breiðu umferðarsvæði samsíða.“ (6.2.4. gr.)
Aðgengi að kjörstað þarf að vera hindrunarlaust frá bílastæði og alla leið inn að kjörklefa. Meðal annars þarf aðkomuleið að vera án þrepa, skábrautir mega ekki vera brattari en 1:20 að jafnaði og þröskuldar ekki hærri en 25 mm. Dyragættir þurfa að vera a.m.k. 0,8 m að breidd og útidyr með sjálfvirkum opnunarbúnaði.

Ef kjörstaðurinn uppfyllir ekki þessi skilyrði, þá er hann óhentugur sem slíkur.

Salerni og hvíldaraðstaða.

Salerni fyrir hreyfihamlaða þarf að vera á kjörstað.

Mikilvægt er að nægt framboð sé af bekkjum og stólum með handstoðum á kjörstað. Margt fólk á erfitt með gang og þarf reglulega að setjast niður.

Upplýsingar á kjörstað.

Upplýsingar þurfa að taka mið af þörfum blindra og sjónskertra, fólks með þroskahömlun og lesblindra. Kosningaefni er oft flókið fyrir fólk með þroskahömlun og því þurfa upplýsingar að vera eins skýrar og skilmerkilegar og auðið er. Allur texti þarf að vera vel læsilegur, í stórum stöfum og skýrri leturgerð, t.d. Arial.

Starfsfólk þarf að vera sýnilegt og tilbúið að aðstoða þá sem koma inn á kjörstað.

Á kjördeild.

Kjósandi sem þarf aðstoðar við „sökum sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf“ má skv. lögum velja eigin fulltrúa eða einhvern úr kjörstjórninni. Mikilvægt er að kjörstjórn sé kunnugt um það.
Hægt er að óska eftir að fá afnot af skapalóni með upphleyptu punktaletri, sk. blindraspjald, og stækkunargleri. Það vita ekki allir af því að hægt sé að óska eftir þessum hjálpartækjum. Benda þarf kjörstjórn á að upplýsa kjósendur um að þau séu til staðar. Æskilegt er að stækkunargler sé í hverjum kjörklefa, frekar en frammi við þar sem fáir vita af þeim.

Kjörklefinn.

Stærðir: Á kjörstað þurfa að vera aðgengilegir kjörklefar fyrir notendur hjólastóla, sem eru nægilega stórir til að athafna sig í og næði til að kjósa. Hjólastólar sem eru í notkun á Íslandi geta verið allt að 0,71 m að breidd og 1,77 m að lengd. Í þessum klefum þurfa borð að vera í hæfilegri hæð, en ekki svo að þau hindri aðgengi.

Birta: Lýsing í kjörklefum þarf að vera nægileg til að sjónskertir geti lesið á kjörseðilinn.

Við þetta þarf að bæta að kjörklefar fyrir fatlað fólk þurfa að vera úr gönguleið á kjördeild og nægilega rúmir til að fólk sem notar umfangsmikil hjálpartæki og þarf aðstoðarmanneskju inn í klefann hafi næði til að greiða atkvæði. Kvartað hefur verið undan því að klefar séu það grunnir að tjöld nái ekki yfir kjósandann svo að fólk sem gengur fram hjá á auðvelt með að horfa inn.

10. gr. Atkvæði greitt með pósti.

Það er til bóta að fólk eigi þess kost að greiða atkvæði með pósti, en kjósandinn þarf að gera allnokkrar tímafrekar ráðstafanir til að nýta sér þann rétt. Eigi hann jafnframt að geta kynnt sér málefnin sem kosið er um og áherslur framboða þá er heldur naumt skammtað að gera kjörskrá aðgengilega almenningi í síðasta lagi 14 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst sbr. d.-lið, 1. mgr. 3. gr.

Að lokum.

Í 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga
Mál nr. 151/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 1. september 2023