Skip to main content
Umsögn

Reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Umsögn ÖBÍ 2021

By 20. janúar 2021No Comments
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar 
Höfðatorg, Skúlagötu 12-14 

105 Reykjavík  

Reykjavík, 19. janúar 2021 

Umsögn ÖBÍ um reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg

Athugasemdir við einstakar greinar í reglunum sem hér eru til umsagnar:  

1. gr. Lagagrundvöllur fjárhagsaðstoðar

Jákvæðar breytingar að setja inn að virða skuli sjálfsákvörðunarrétt umsækjanda og þeir studdir til sjálfshjálpar og virkrar þátttöku í mótun þjónustu sem að þeim snýr. Ætti að vera valdeflandi til lengri tíma. Verður að tryggja að unnið sé eftir þessu í reynd. Lagt er til að gerð verði reglulega verði gerð úttekt á því að unnið sé eftir þessu markmiði. 

„Skal þess gætt að hvetja umsækjanda til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum“. Hvaða öðrum? Er verið að setja ábyrgðina vegna erfiðra félagslegra aðstæðum á einstaklinginn í þessari stöðu?  

2. gr. Framfærsluskylda  

Hjón og sambúðarfólk eiga líka rétt á því að fá að taka þátt í framfærslu fjölskyldunnar. Þetta var meginstefið í Öryrkjadóminum fyrir 20 árum en hefur gleymst síðustu ár. Það er hluti af mannlegri reisn að vera ekki algerlega kominn upp á maka sinn fjárhagslega, þess vegna er nauðsynlegt að hver og einn einstaklingur hafi sjálfstæðan einstaklingsbundinn rétt til þess að hafa sínar tekjur, burtséð frá tekjum maka.  

3. gr. Mat á fjárþörf  

Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal grunnfjárþörf tilf framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur.  

Hvernig er grunnfjárþörfin fundin út?  Orðið grunnfjárþörf kemur ekki aftur fyrir í reglunum.   

Grunnfjárþörf ætti að byggja á raunverulegum kostnaði fólks við að framfleyta sér og tryggja að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Grunnfjárhæðir fyrir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verða að teljast langt frá því að vera í einhverjum samræmi við raunverulegan framfærslukostnað í íslensku samfélagi.  

Krónu á móti krónu skerðing er ótrúlega letjandi og vinnur gegn valdeflingarmarkmiðunum sem lýst er í 1. gr. Allt sem hvetur umsækjanda til virkni og atvinnuþátttöku með jákvæðum formerkjum er valdeflandi en refsingar og skilyrðingar eru letjandi og einangrandi.  

4. gr. Réttur fylgir lögheimili 

Skal umsækjandi dvelja á Íslandi á því tímabili sem hann fær fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.  

Hluti örorkulífeyrisþega fær fjárhagsaðstoð til viðbótar við örorkulífeyri upp að grunnfjárhæð sveitarfélagsins vegna búsetuskerðinga örorkulífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Þessir einstaklingar munu því  eiga á hættu að missa fjárhagsaðstoðina ef þeir dvelja tímabundið erlendis, nái þessi breyting fram að ganga. Hluti þessa hóps á enga eða mjög fáa að á Íslandi og skortir stuðningsnet. Það er því mikilvægt fyrir þessa einstaklinga að geta dvalið einhvern tíma í fyrra búsetulandi án þess að missa fjárhagsaðstoðina.  

5. gr. Form fjárhagsaðstoðar  

Engin breyting á ákvæðinu.  

Er það orðin regla hjá Reykjavíkurborg að veita fjárhagsaðstoð sem lán ef umsækjandi á umsókn hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) um örorku- eða endurhæfingarlífeyri? Hvenær er hægt að gera kröfur um endurgreiðslur láns? Þetta þyrfti að vera skýrt.  

6. gr. Gildistími umsóknar um fjárhagsaðstoð til framfærslu 

Hver er ástæða þess að lagt er til að stytta gildistíma umsóknar úr þremum mánuðum í einn mánuð?  

Þó það sé komin rafræn gátt til að sækja getur umsóknaferlinu fylgt álag og stress, sama í hvaða formi umsóknin er. Auk þess hafa ekki öll aðgang að snjalltækjum eða tölvum. 

Hvað er nákvæmlega átt við með að móttaka umsóknar ákvarðar fyrir hvaða mánuð umsóknin gildir? Gildir umsóknin og er greitt frá fyrsta þess mánaðar ef sótt er um síðar í mánuðinum?  

8. gr. Umsókn og fylgiskjöl 

Með breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð er aukin áhersla á rafrænt umsóknarferli. Sá möguleiki var áður til staðar en bætt við að undirrita skuli umsóknina með rafrænum skilríkjum. Einhver hluti umsækjanda er ekki með rafræn skilríki. Því er mikilvægt, eins og fram kemur í greininni, að einnig sé hægt að leggja fram umsókn á sérstöku eyðublaði og þá þarf að framvísa gildu persónuskilríki með mynd. Hvaða persónuskilríki teljast fullnægjandi önnur en ökuskírteini, nafnskírteini og vegabréf? Geta umsækjendur til að mynda framvísað kredit- eða debetkorti með mynd?  

Mjög mikilvægt er að umsóknin og upplýsingar um umsóknarferlið sé á fleiri tungumálum en íslensku til að koma til móts við þá sem ekki geta nýtt sér íslensku í samskiptum og til að sækja um og fá upplýsingar. Ennfremur er mikilvægt að heyrnarlausir hafi aðgang að þessum upplýsingum á táknmáli og eigi kost á aðstoð táknmálstúlks til að sækja um.  

Samkvæmt 5. mgr.  12. gr. er gert ráð fyrir því að kostnaður vegna barna greiðist af barnabótum og meðlögum ef við á.  Hvers vegna þurfa umsækjendur að framvísa gögnum um barnabætur sem eru óskattskyldar og eiga ekki að koma til frádráttar?  

Í upptalningu yfir meðfylgjandi gögn með umsókn eru einnig nefndar greiðslur frá bönkum, sparisjóðum, lánastofnunum eða öðrum aðilum. Hvaða greiðslur geta fallið hér undir? Ef umsækjandi fær lán frá lánastofnun eða öðrum s.s. ættingjum eða vinum, er þá upphæðin dregin frá fjárhagsaðstoðinni?  

Í 4. mgr. segir að þegar umsækjandi er atvinnulaus skal hann skrá sig hjá Vinnumálastofnun og leggja fram staðfestingu þess efnis og sýna fram á virka atvinnuleit á Íslandi. Hérna er um að ræða skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð sem ekki er heimild fyrir í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.  

Í 4. mgr. kemur fram að hafi umsækjandi hvorki skráð sig hjá Vinnumálastofnun né sinnt virkni, án viðhlítandi skýringa, missir hann hlutfallslegan rétt sinn til fjárhagsaðstoðar það tímabil, sbr. 11. gr. reglna þessara. Hver á að meta og hvernig eru  „viðhlítandi skýringar“ metnar?  

Í 5. mgr. 8. gr. í drögunum kemur fram að „læknisvottorð skal að jafnaði ekki vera eldra en fjögurra vikna þegar það er lagt fram og ekki til lengri tíma en þriggja mánaða.“ Í 4. mgr. 11. gr. eru þessir tímafrestir endurteknir. Í þessu samhengi þarf líka að líta til 8. mgr. 8. gr. þar sem segir að umsækjandi skuli „skila inn nauðsynlegum gögnum í síðasta lagi tveimur vikum eftir að umsókn hefur verið undirrituð.“ 

Í fyrsta lagi: Hvað ef það er ljóst frá byrjun að orsök óvinnufærninnar verður viðvarandi lengur en í þrjá mánuði? Er umsækjandi þá tilneyddur til að sækja annað vottorð með tilheyrandi kostnaði og umstangi?  

Í öðru lagi þá ætti það ekki að skipta máli þó vottorð sé eldra en fjögurra vikna ef það t.d. vottar að vandinn muni vera til staðar í þrjá mánuði skv. leyfilegum efri mörkum gildistíma vottorðsins. Aftur gæti þessi regla leitt til aukins kostnaðar fyrir einstakling sem má ekki við því. 

Í þriðja lagi þá er tveggja vikna frestur til að skila inn nauðsynlegum gögnum alltof knappur ef um óvinnufærni er að ræða. Ef umsækjandi þarf að fá tíma hjá heimilislækni/öðrum sérfræðingum til að fá vottorðið þá tekur það iðulega lengri tíma en tvær vikur og ekki í höndum umsækjanda hvenær þau berast.  

Á skilyrðið um að framvísa læknisvottorðs einnig við um umsækjendur með 75% örorkumat?  

Samkvæmt 6. mgr. er erlendum ríkisborgurum ríkis innan EES gert að framvísa staðfestingu á lögheimilisskráningu. Hver er ástæðan fyrir því að taka þennan hóp út? Lögheimili í sveitarfélaginu er skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð og á það við um alla umsækjendur. Sveitarfélagið á að geta flett því upp hvar lögheimili umsækjanda er skráð óháð því hvort hann er með íslenskan eða annan ríkisborgararétt. Greiða þarf fyrir staðfestingu eða búsetuvottorð frá Þjóðskrá, sem þýðir aukinn kostnað og fyrirhöfn fyrir þessa umsækjendur.   

Hefur verið lagt mat á hvort söfnun og vinnsla persónuupplýsinga á vegum velferðarsviðs vegna fjárhagsaðstoðar sé innan marka nýju persónuverndarlaganna? Sbr. 29. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem fjalla um mat á áhrifum á persónuvernd. 

9. gr. Félagsleg ráðgjöf og samráð

Mikilvægt er að umsækjendur um fjárhagsaðstoð sé boðin félagsleg ráðgjöf frá því að sótt er um. Ráðgjafar hjá ÖBÍ hafa síðustu misseri fengið fjölda fyrirspurna og beiðna um aðstoð frá fólki sem hefur ítrekað verið synjað um endurhæfingar- og/eða örorkulífeyri frá TR og er tekjulaust eða með mjög lágar tekjur til framfærslu. Þessir einstaklinga eru í mikilli þörf fyrir félagslega ráðgjöf og aðstoð af ýmsum toga. Í flestum tilvikum hefur VIRK Starfsendurhæfingarsjóður útskrifað þessa einstaklinga á þeim forsendum að starfsendur- hæfing sé fullreynd eða ekki tímabær. TR synjar þessum einstaklingum um endurhæfingar- lífeyri á þeim forsendum að endurhæfingaráætlun, sem læknir eða annað fagfólk sendir inn fyrir skjólstæðinga sína, sé ófullnægjandi. Synjunum fylgja ekki skýringar eða leiðbeiningar til umsækjanda og/eða fagaðila um hvað vantar til að gögn/endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi. Það er því mjög mikilvægt að félagsráðgjafar og aðrir ráðgjafar hjá sveitarfélögunum aðstoði þessa einstaklinga við að fylgja sínum málum eftir.  

10.gr. Grunnfjárhæðir  

Í reglunum er skráð inn X í stað fjárhæða fyrir grunnfjárhæðir. Við eftirgrennslan fengust þær upplýsingar að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings hefði hækkað úr 207.709 kr. á mánuði í 212.964 kr. eða 2,5% (5.255 kr.) frá janúar 2021. Á hverju byggir ákvörðun um 2,5% hækkun?  

Ljóst er að með breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð er ekki ætlunin að hækka grunnfjárhæðir. Fjárhæðir þessar eru mjög lágar og langt frá því að duga til framfærslu. Einstaklingar og fjölskyldur sem þurfa að framfleyta sér á fjárhagsaðstoð eru því fastir í fátækt.  

Ef grunnfjárhæðin væri ákvörðuð í samræmi við leiðbeinandi reglur félagsmálaráðuneytisins væri upphæðin 263.392 kr. fyrir einstakling 1 sem rekur eigið heimili og því munar rúmum 50 þúsund kr. á mánuði hjá Reykjavíkurborg.  

Fyrir umsækjanda sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði er grunnfjárhæðin mun lægri eða 179.206 kr. á mánuði. Sá sem er í þeirri stöðu hefur í raun enga möguleika til að bæta stöðu sína.  

Í greinina er bætt við ákvæðum um sérstaka fjárhagsaðstoð til foreldra sem fá fjárhagsaðstoð til að mæta útgjöldum vegna barna sinna sem eru á framfæri þeirra og búa hjá þeim. Ákvæði þessi eru jákvæð og nauðsynleg viðbót og ber að fagna. 

11. gr. Lækkun grunnfjárhæðar

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eru engin ákvæði sem heimila sveitarfélögum að setja í reglur sínar skilyrði um virka atvinnuleit eða virkni, hvort heldur umsækjandi er að fullu vinnufær eða að hluta. 

Á sama tíma er fjárhagsaðstoð í reglum Reykjavíkurborgar skilyrt við staðfestingu á atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun og virkni og þeir sem ekki fullnægja þessum skilyrðum eða hafna vinnu, segja starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða sæta viðurlögum eða eru á biðtíma samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar fá greidda hálfa grunnfjárhæð til framfærslu í tvo mánuði, sem þýðir 106.482 kr. fyrir einstakling sem einn rekur einn eigið heimili.  

Hver metur og hvernig, hvað eru „viðhlítandi skýringar“? Þetta orðalag er mjög matskennt, en ákvörðun sem byggir á þessu mati getur orðið mjög íþyngjandi fyrir þann sem þarf að treysta á fjárhagsaðstoð til framfærslu.  

Samkvæmt reglunum er einnig hægt að lækka fjárhagsaðstoðin um  helming í tvo mánuði ef umsækjandi hættir þátttöku í átaksverkefni, endurhæfingu eða námi og/eða stendur ekki við einstaklingsáætlun, nema veigamiklar ástæður sem koma fram við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því.  Lækkun fjárhagsaðstoðar nær því einnig til umsækjanda sem fá fjárhagsaðstoð á grundvelli læknisvottorðs um óvinnufærni.  Ekki er heldur ljóst hvað átt er við með „veigamiklar skýringar“ sem er mjög matskennt.  

Mikilvægt er að hafa í huga að fjárhagsaðstoðin er grunnöryggisnet samfélagsins, þ.e. greiðslur sem fólk á rétt á ef það hefur engar eða mjög lágar aðrar tekjur. Aðrar tekjur lækka  fjárhagsaðstoðina um sömu krónutölu, krónu-á-móti-krónu. Grundvallar munur er á fjárhagsaðstoð og t.d. atvinnuleysisbótum eða lífeyrisgreiðslum, því ef fjárhagsaðstoðin fellur niður þá getur fólk ekki leitað neitt annað til að fá aðstoð vegna framfærslu.  

Í núverandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 eru engin ákvæði sem heimila sveitarfélögum að setja í reglur sínar ákvæði þess efnis að virk atvinnuleit sé skilyrði fyrir þvi að einstaklingar fái fjárhagsaðstoð. Í lögunum eru engin ákvæði með heimildir til að skilyrða fjárhagsaðstoð við virkni. Frumvarp um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með ákvæðum um skilyrði fjárhagsaðstoðar hafa ítrekað verið lögð fram en ekki fengið brautargengi.  

Lögum samkvæmt er markmið félagsþjónustu sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar, meðal annars með því að að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti. Skerðing fjárhagsaðstoðar  um helming í allt að tvo mánuði í senn, ef skilyrðum um atvinnuleit og virkni er ekki mætt, gengur gegn markmiðum félagsþjónustunnar.  

Skoða ætti aðrar leiðir til að ná sömu markmiðum, sem byggja á jákvæðari nálgun og því að byggja fólk upp. Leggja þarf áherslu á hvatningu og stuðning við þá sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð til að auka virkni sína, í stað þess að beita skilyrðum og skerðingum. 

Hver er aðkoma og hvað hefur einstaklingur að segja um sína „einstaklingsáætlun“?  

12. gr. Tekjur og eignir umsækjanda  

Með tekjum í ákvæðinu er átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna og þar af leiðandi átt við bæði skattskyldar og óskattskyldar tekjur. Þó er í ákvæðinu tekið fram að einungis sé átt við skattskyldar tekjur frá TR. Því er ljóst að miskabætur og aðrar óskattskyldar eingreiðslur lækka fjárhagsaðstoðina.  

Í næstu málsgrein eru undanþegnar greiðslur vegna barna, húsnæðis- og vaxtabóta, og/eða sérstaks húsnæðisstuðnings.  Mæðra- og feðralaun eru greiðslur vegna barna og því í mótsögn að þær séu taldar til tekna og lækki þar með fjárhagsaðstoðina. Eitt af meginmarkmiðum breytinganna samkvæmt minnisblaði er að auka fjárhagsaðstoð til foreldra með börn á framfæri og að skerðing á fjárhagsaðstoð bitni ekki á börnum sem búa við fátækt. Það er því í ósamræmi við markmið breytinganna að mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra skeri fjárhagsaðstoðina.  

Í 12. greinina er sett inn ákvæði um að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu og hafa fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá TR, fyrsta mánuðinn eftir að greiðslum lýkur. Hérna er um mikilvæga breytingu að ræða fyrir þá sem annars verða tekjulausir fyrst eftir að endurhæfingarlífeyrisgreiðslur falla niður.  

13. gr. Greiðslur meðlags  

Jákvætt er að lagt er til að taka út skilyrði um að umsækjandi þurfi að hafa verið í skilum með greiðslur meðlags sl. 3 mánuði fyrir  heimild til að greiða áfallandi meðlagsgreiðslur.  Fyrir þann sem skuldar meðlag er íþyngjandi að sett er inn ákvæði að fyrir liggi samkomulag við Innheimtustofnun sveitarfélaga um greiðslu meðlagsskulda. Hins vegar er gagnrýnivert að sett er skilyrði um að barn/börn umsækjanda séu með lögheimili á Íslandi, þar sem umsækjendur eru áfram meðlagsskyldir þó svo barn eða börn þeirra flytji úr landi.   

15. gr. Framfærsla í námi á framhaldsskólastigi 

Krafa um að jafnaði 90%  mætingu verður að teljast ansi íþyngjandi þar sem lítið má út af bregða. Hlutfallið þyrfti að vera mun lægra þannig að svigrúm sé fyrir veikindi og aðra þætti sem hamla skólasókn.  

Gerð er athugasemd við að gildistíminn umsókna er þrír mánuðir og því styttri en hver önn í framhaldsskóla. Þetta er í mótsögn við að ákvarðanir um framfærslu í námi skulu vera teknar fyrir hverja önn og getur valdið óþarfa streitu hjá  námsmönnum sem vegna mikilla og langvarandi erfiðleika fá fjárhagsaðstoð. Þeir þurfa að sækja um og bíða ákvörðunar um framhaldið á miðri önn eða á prófatímabili.  

Jákvæð breyting að heimild til að veita framfærslu í námi sé ekki lengur bundið við einstaklinga á aldrinum 18-24 ára.  

Það er mikilvæg og jákvæð breyting að ákvæði um að einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoð  (15. gr. í núverandi reglum) verið tekið út. Námsmenn sem ekki ná að uppfylla skilyrði um námsframvindu hjá LÍN, til að mynda vegna sjúkdóma eða fötlunar, hafa fengið synjanir um fjárhagsaðstoð þrátt fyrir tekjuleysi á þeim forsendum að námið séu lánshæft. Ákvæði um 3ja ára búsetu á Íslandi fyrir endurhæfingar- og örorkulífeyri hefur sett fatlaða og langveika námsmenn í þá stöðu að fá hvorki greiðslur frá TR, námslán né fjárhagsaðstoð. 

16. gr. Aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri

Hver er ástæða þess að setja inn í ákvæðið um að“ leitast ber við að kanna aðstæður beggja foreldra“ og hvaða áhrif hefur niðurstaða slíkra könnunar?  

Getur það komið í veg fyrir aðstoðina skv. grein þessari ef aðstæður þess foreldris sem ekki fær fjárhagsaðstoð og barnið býr ekki hjá, eru aðrar og betri en hjá foreldrinu sem sækir um fjárhagsaðstoð?  Þó aðstæður annars foreldrisins séu betri er alls óvíst að það bæti nokkuð stöðu þess foreldris sem fær fjárhagsaðstoð og barnsins. Slíkt fer eftir samskiptum og samkomulagi  foreldranna og hvort báðir foreldrar eru að virkir þátttakendur í lífi barnsins og styðja barnið.   

18. gr. Styrkur vegna innritunarkostnaðar og kaupa á námsgögnum 

Í fyrstu málsgrein greinarinnar hefur verið tekið út að til viðbótar við fjárhagsaðstoð geti verið aðstoð vegna almennra skólagjalda. Hver er ástæða þess?  

19. gr.  Styrkur til húsbúnaðar  

Með viðbótinni í e) og f) lið er sett inn jákvæð breyting.  

20. gr.  Greiðsla sérfræðiaðstoðar  

Jákvætt og nauðsynlegt er að hækka viðmiðunarmörkin fyrir tannlækningar úr 40.000 kr. í 80.000 kr. Lagt er til að skilyrði um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samfleytt undanfarna 12 mánuði verði tekið út og þess í stað sett inn tekjumörk til viðmiðunar, til dæmis fjárhæð óskertra greiðslna almannatrygginga. Þá þyrfti að tilgreina að hægt sé að sækja um undanþágu vegna sérstakra aðstæðna.  

Bætt er inn í að heimildin nái einungis til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga á Íslandi. Hver og hvernig er metið hvað eru nauðsynlegar tannlækningar? Hvers vegna er tekjulágum ekki gefin kostur á að fá styrk vegna nauðsynlegra tannlækninga erlendis, þar sem tannlækningar kosta minna? Er heimilt að takmarka styrkina við tannlækningar á Íslandi með tilliti til ákvæða EES-samningsins?  

Jákvæð viðbót að setja inn að heimildin fyrir greiðslu viðtala nái til viðurkenndra meðferðaraðila með starfsleyfi hjá Embætti landlæknis og nái einnig til áfengis- og vímuefnaráðgjafa.   

Í breytingartillögunum eru engin viðmiðunarmörk fyrir þessa aðstoð á ári en þess í stað sett inn að hámarkið sé tíu viðtalstímar á 12 mánaða tímabili. Um er að ræða jákvæða breytingu frá núverandi reglum um viðmiðunarmörk aðstoðar 55.000 kr. á ári.  

21. gr. Útfararstyrkir

Hækkun viðmiðunarmarka fyrir útfararstyrk úr 160.000 kr. í 250.000 kr. er mjög jákvæð og löngu tímabær breyting.   

Misræmi er á milli 3. og 4. málsgreinar, það er að heimilt er að veita styrk til tekjulágs eftirlifanda maka, án þess skilyrðis að viðkomandi þurfi að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu, en það skilyrði er hins vegar sett fyrir útfararstyrk vegna útfarar barns. Réttara væri að tekjulágir foreldrar/foreldri geti fengið útfararstyrk vegna útfarar barns þess.  

Hver eru áhrif af þeirri breytingu að heimila útfararstyrk í stað fjárhagsaðstoðar  til útfarar barns foreldris sem fengið hefur fjárhagsaðstoð til framfærslu? 

23. gr. Ábyrgðaryfirlýsing vegna húsaleigusamnings  

Með fyrirhugaðri breytingu að umsækjandi geti fengið ábyrgðaryfirlýsingu vegna húsaleigusamnings í stað þess að fá lán og/eða styrk þarf umsækjandi í öllum tilvikum að greiða ábyrgðina, ef gengið er að henni. Einungis er hægt að breyta henni í lán, ekki styrk.  

Hversu langan tíma hefur umsækjandi til að greiða ábyrgðina? Er lánið vaxtalaust?   

Einnig er mikilvægt að tryggja stöðu fólks gagnvart leigusala ef hann neitar ábyrgð og vill frekar tryggingu inn á banka. 

Jákvæð breyting er að taka út úr ákvæðinu að umsækjandi sem ekki hefur fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu skv. reglunum þurfi að hafa glímt við vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika til að geta fengið aðstoð skv. ákvæðinu. Getur því náð til stærri hóps.   

Ennfremur jákvæð breyting að það nægi að vera komin með drög að húsaleigusamningi og ekki þurfi að bíða eftir þinglýsingu hans áður en ákvörðun er tekin og aðstoðin veitt.   

24. gr. Aðstoð vegna sérstakra erfiðleika

Í d-liðnum er sett inn sem skilyrði að það liggi fyrir á hvern hátt lán eða styrkur mun styrkja félagslega stöðu umsækjanda í stað áður skuldastöðu í núverandi reglum. Hvort að aðstoð styrki styrki félagslegri stöðu er mjög matskennt. Hver er ástæða fyrir þessari breytingartillögu?   

30. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum

Jákvætt að setja inn í reglurnar ákvæði með tilvísun í lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.  

Ekkert um okkur án okkar! 

Virðingarfyllst, 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir 
Formaður ÖBÍ