Skip to main content
Umsögn

Skert staða lífeyrisþega vegna búsetu erlendis – stuttar reynslusögur

By 20. nóvember 2017júní 9th, 2023No Comments

Samkvæmt svari félags- og jafnréttismálaráðherra, dags 27.2.2017, við fyrirspurn á Alþingi fengu 1.719 lífeyrisþegar skertar greiðslur frá Tryggingastofnun vegna fyrri búsetu erlendis.  Í svarinu kom einnig fram að einstaklingum í þessari stöðu hafði fjölgað um 829 frá árinu 2010. Stærsti hluti lífeyrisþega með búsetuskertar greiðslur, eða 1.145 einstaklingar (67%), bjó áður í ríkjum, sem gerðir hafa verið milliríkjasamningar við. Þrátt fyrir milliríkjasamninga eru 884 lífeyrisþegar ekki með neinar greiðslur frá fyrra búsetulandi. Hæsta hlutfallið var meðal endurhæfingarlífeyrisþega eða 100%, meðal örorkulífeyrisþega var hlutfallið 88% og 62% hjá ellilífeyrisþegum. Því er ljóst að forsendur fyrir hlutfallsútreikningi, að lífeyrisþegar fái greiðslur á móti frá fyrra búsetulandi, ganga ekki upp.

Hér að neðan verða á næstu dögum birtar örsögur – dæmi um stöðu lífeyrisþega með búsetuskertar greiðslur vegna fyrri búsetu erlendis. Nöfnum fólksins hefur verið breytt.

Örsaga nr. 13 – Andrej er 69 ára gamall ellilífeyrisþegi. Hann flutti til Íslands árið 2003 frá landi utan EES. Andrej fékk fullt örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) og lífeyrissjóði 10 árum eftir flutning til Íslands í kjölfar alvarlegs sjúkdóms. Þá hafði hann verið í fullu starfi frá því hann flutti til landsins. Hann reyndi að vinna hálft starf næstu tvö árin en varð að hætta þar sem heilsan leyfði það ekki. Andrej fær engar greiðslur frá fyrra búsetulandi þar sem hann er með íslenskan ríkisborgararétt. Hann fær greiddan ellilífeyri frá TR miðað við tæp 28% búsetuhlutfall. Lífeyrissjóðsgreiðslur hans eru einnig lágar eða um 20 þús. kr. á mánuði. Hann hefur 109 þús. kr. til framfærslu á mánuði. Andrej er giftur. Sameiginlegar tekjur hjónanna eru yfir grunnfjárhæð sveitarfélagsins fyrir hjón/sambúðarfólk sem er rúmar 270 þús. kr. á mánuði (fyrir skatt). Hann fær því enga fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi sínu. Hann er í raun upp á eiginkonu sína kominn með framfærslu.

Örsaga nr. 12 – Fanney er 38 ára gömul kona, sem stundaði nám og bjó í 10 ár á einu Norðurlandanna eftir 18 ára aldur. Hún fékk örorkumat rúmu ári eftir að hún flutti aftur til Íslands. Fanney er með 56% búsetuhlutfall og mun það vera óbreytt á meðan hún fær lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Fanney fær engar greiðslur frá fyrra búsetulandi, en í því landi geta einstaklingar yngri en 40 ára ekki fengið örorkumat. Þessum einstaklingum er ætlað að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði (flexjob) fyrir fólk með skerta starfsgetu. Fanney býr á Íslandi og getur af þeirri ástæðu einni ekki nýtt sér „flexjob“. Fanney hefur eingöngu búsetuskertan örorkulífeyri frá TR til framfærslu. Hún er einhleyp og barnlaus og býr hjá móður sinni. Hún fær ekki fjárhagsaðstoð þar sem tekjur hennar eru yfir grunnviðmiði fyrir einstakling sem býr hjá öðrum. Hún hefur ekki efni á að leigja sjálf. Ráðstöfunartekjur hennar eru um 165 þús. kr. á mánuði. Jafnvel þó hún væri með aðrar tekjur, s.s. lífeyrisjóð eða atvinnutekjur, þá munu fyrstu 63 þús. krónurnar ekki bæta neinu við ráðstöfunartekjur hennar vegna „krónu á móti krónu“ skerðinga.

Örsaga nr. 11 – María er 44 ára gömul kona, sem flutti til Íslands frá einu Norðurlandanna þegar hún var 27 ára gömul. Foreldrar hennar eru íslenskir. 6 árum síðar fékk hún örorkumat og fær hún greitt miðað við 28% búsetuhlutfall. Lífeyrisgreiðslur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) eru rúmar 104 þús. kr. á mánuði. Af þeirri upphæð eru  tæpar 48 þús. kr. sérstök framfærsluuppbót, sem skerðist krónu á móti krónu. Til  viðbótar fær hún fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi sínu. María hefur rúmar 166 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði. Hún fær engar greiðslur frá fyrra búsetulandi. María býr í leiguhúsnæði, en þar sem  hún er ekki með þinglýstan leigusamning, fær hún engan húsnæðisstuðning.

Örsaga nr. 10 – Julia er 54 ára gömul kona, sem fluttist 25 ára til Íslands frá landi innan EES og hefur búið hér á landi síðan. Julia veiktist og fékk örorkumat þegar hún var 31 árs gömul. Hún eignaðist tvö börn á Íslandi og var einstæð móðir frá því þau voru lítil og var ekki mikið á vinnumarkaði áður en hún veikist. Julia var með 100% búsetuhlutfall til ársins 2010, en þá var búsetuhlutfallinu breytt í 55%. Við endurmat í byrjun árs 2017 var búsetuhlutfallinu breytt aftur í 44%. Julia á engan rétt hjá lífeyrissjóði og fékk synjun um örorkulífeyri frá fyrra búsetulandi, þar sem hún telst hafa einhverja starfsgetu. Julia hefur reynt að vinna hlutastarf. Síðasta sumar varð hún að hætta að vinna af heilsufarsástæðum. Í kjölfarið fékk hún sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi sínu, um 136 þús. kr. á mánuði í 9 mánuði. Þessar tekjur skerða greiðslur Tryggingastofnun ríkisins (TR) til hennar verulega. Tekjur hennar eru að jafnaði um 155 þús. kr. á mánuði eftir skatt.  Hún fær enga fjárhagsaðstoð, þar sem tekjur hennar eru yfir grunnfjárhæðinni. Af þessum tekjum greiðir hún 100 þús. kr. í leigu á mánuði. Julia býr ein, en börnin hennar eru uppkomin.

Örsaga nr. 9 – Inger er 59 ára gömul kona, sem hefur verið búsett á Íslandi í 20 ár. Hún fékk fyrst örorkustyrk (50% örorkumat) eftir bílslys sem hún lenti í fyrir tíu árum síðan. Í kjölfar alvarlegra veikinda var matinu breytt í 75% örorkumat frá árinu 2014. Útreikningur búsetuhlutfalls miðast við fyrsta örorkumatið (styrkinn) og því er búsetuhlutfall hennar 34%. Inger býr ein. Heildarráðstöfunartekjur hennar eru 212 þús. kr. á mánuði, en stærsti hluti tekna hennar er örorkulífeyrir frá lífeyrissjóði, þar sem Inger var í vel launuðu starfi fyrir veikindin.

Örsaga nr. 8 – Laufey er 62ja ára gömul kona. Hún flutti 21 árs til Bandaríkjanna, þar sem hún giftist og eignaðist tvö börn. Í kjölfar skilnaðar flutti hún aftur til Íslands, þá 48 ára gömul. Laufey lenti í alvarlegu vinnuslysi rúmum þremum árum eftir að hún flutti aftur til landsins. Hún fékk fyrst greiddan endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) og síðar örorkulífeyri, en lífeyrinn var greiddur miðað við 31% búsetuhlutfall. Fjórum árum síðar óskaði félagsráðgjafi ÖBÍ eftir endurskoðun búsetuhlutfalls hennar, þar sem ljóst var að búsetuhlutfall Laufeyjar var of lágt. TR hafði reiknað búsetuhlutfall hennar út frá þeirri reglu sem gildir fyrir lífeyrisþega sem flytja til Íslands frá aðildarríkjum EES. Búsetuhlutfall Laufeyjar var leiðrétt í 61%, en úrskurð Úrskurðarnefndar almannatrygginga þurfti til að fá mistökin leiðrétt fjögur ár aftur í tímann. Laufey býr ein í félagslegu leiguhúsnæði. Hún er einungis með örorkulífeyri frá TR til framfærslu og fær um 203 þús. kr. útborgað á mánuði. Af þeirri upphæð er rúmar 87 þús. kr. fyrir sérstaka framfærsluuppbót, sem skerðist „krónu á móti krónu“ við allar tekjur.

Örsaga nr. 7 – Bjarni er 58 ára gamall örorkulífeyrisþegi. Hann er fæddur og uppalinn á Íslandi og flutti til Bandaríkjanna 22ja ára gamall þar sem hann bjó og starfaði í 23 ár. Fimm árum eftir flutninginn til Íslands veiktist hann alvarlega og fékk fyrst endurhæfingarlífeyri árið 2008, þá 50 ára gamall. Bjarni fær greiddan örorkulífeyri miðað við 68% búsetuhlutfall. Hann á ekki rétt á greiðslum frá fyrra búsetulandi fyrr en hann nær ellilífeyrisaldri. Heildartekjur Bjarna eru rúmar 180 þús. kr. útborgað, þar af eru rúmar 13 þús. kr. frá lífeyrissjóði. Bjarni fær ekki fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi sínu þar sem hann er giftur og sameiginlegar tekjur hans og eiginkonu hans eru yfir grunnfjárhæð sveitarfélagsins fyrir hjón/sambúðarfólk sem er 226 þús. kr. á mánuði (grunnfjárhæð fyrir hjón). Árið 2016 átti eiginkona hans, sem flutti til Íslands um svipað leyti og hann, einnig við alvarleg veikindi að stríða. Hún fékk því einnig búsetuskertan endurhæfingarlífeyri. Skuldastaða hjónanna er erfið enda fjárhagurinn mjög þröngur. Bjarni fær rúmar 54 þús. kr. á mánuði í sérstaka framfærsluuppbót, sem skerðist „krónu á móti krónu.“ Því munu fyrstu 54 þús. krónurnar annars staðar frá ekki bæta neinu við ráðstöfunartekjur hans.

Örsaga nr. 6 – Guðrún er 58 ára gömul kona, sem bjó um 20 ár í EES-ríki eftir 16 ára aldur. Hún flutti aftur til Íslands 2007 og fékk örorkumat 4 árum síðar. Búsetuhlutfall hennar er 57%. Guðrún fékk synjun um örorkulífeyri frá fyrra búsetulandi. Guðrún fær mjög lágar greiðslur úr lífeyrissjóði (um 11 þús. kr. á mánuði ) en þær bæta engu við ráðstöfunartekjur hennar vegna „krónu á móti krónu“ skerðinga. Guðrún varð ekkja á síðasta ári. Hún hafði samband við Tryggingastofnun ríkisins (TR) og fékk þær upplýsingar að dánarbætur, sem TR greiðir (43.896 kr. á mánuði árið 2016), myndu einnig skerða framfærsluuppbótina frá TR um sömu upphæð (krónu á móti krónu). Það breytti því engu um framfærslu hennar hvort hún fengi dánarbætur eða ekki, þar sem upphæð sérstakrar framfærsluuppbótar var hærri. Guðrún og eiginmaður hennar reyndu mikið til að halda húsnæði sínu þrátt fyrir lágar tekjur, en hann var í láglaunastarfi. Eftir að hann lést varð hún að selja íbúðina, þar sem hún gat ekki ein staðið undir afborgunum og viðhaldi af húsnæðinu með sínum lágu tekjum. Heildartekjur hennar eru 160 þús. kr. eftir skatt á mánuði.

Örsaga nr. 5 – Esther er 46 ára gömul kona, sem flutti til Íslands frá landi innan EES þegar hún var 35 ára gömul. Sex árum síðar (árið 2013) fékk hún endurhæfingarlífeyri og síðar örorkulífeyri. Búsetuhlutfall hennar er 30% og mun það vera óbreytt á meðan hún fær lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Samkvæmt upplýsingum frá TR hækkar búsetuhlutfall hennar fyrir útreikning ellilífeyris ekki, jafnvel þó hún búi á Íslandi þar til hún nær ellilífeyrisaldri. Esther fær engar lífeyrissjóðsgreiðslur á Íslandi og einu tekjur hennar eru örorkulífeyrir frá TR, rúmar 109 þús. kr. á mánuði. Árið 2016 sótti um hún örorkulífeyri til fyrra búsetulands og bíður hún eftir að umsókn hennar verði afgreidd. Á meðan umsókn hennar bíður afgreiðslu fær hún lán hjá sveitarfélagi sínu upp í grunnfjárhæðina, en enga fjárhagsaðstoð. Ef hún fær greiðslur að utan ber henni að endurgreiða lánið. Esther býr ein með tveimum börnum sínum og fær greiddan barnalífeyri með öðru þeirra, þar sem hitt barnið er skráð með lögheimili hjá föður sínum. Esther er einnig í mjög erfiðri húsnæðisstöðu enda mjög tekjulág og hefur ekkert stuðningsnet. 

Örsaga nr. 4 – Magnús er 36 ára maður, sem flutti til Danmerkur ásamt foreldrum sínum þegar hann var 14 ára gamall. Hann flutti aftur til Íslands 29 ára gamall. Þremum árum síðar lenti hann í alvarlegu bílslysi og hefur verið óvinnufær síðan. Á þeim tíma var Magnús í verknámi, sem hann náði ekki að ljúka vegna afleiðinga slyssins. Magnús er með 39% búsetuhlutfall. Hann fær engar greiðslur að utan og á engin réttindi í lífeyrissjóði. Magnús var um tíma með fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu, en flutti aftur heim til foreldra sinna, þar sem tekjur hans dugðu engan veginn til framfærslu. Hann er með rúmar 137 þús. kr. á mánuði útborgað frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) (fyrir og eftir skatt) og eru það einu tekjur hans.  Sérstaka framfærsluuppbótin, sem skerðist „krónu á móti krónu“, er tæplega 58 þús. kr. af tekjum hans. Magnús er í raun fastur heima hjá foreldrum sínum.

Örsaga nr. 3 – Cynthia er 55 ára gömul kona sem flutti til Íslands árið 2009 frá landi innan EES. Hún vann fyrstu árin en veiktist og fékk fullt örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) árið 2015. Búsetuhlutfall hennar hér á landi er 19% og fær hún greiddar rúmar 67 þús. kr. á mánuði frá TR. Til viðbótar var hún með rúmar 21 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði. Cynthia býr ein, þar sem fjölskylda hennar flutti aftur til heimalandsins. Hún hefur fengið viðbót hjá Reykjavíkurborg upp í grunnfjárhæðina. Cynthia leigði húsnæði á almennum markaði en hefur verið húsnæðislaus eftir að hún missti leiguhúsnæðið haustið 2016. Hún hefur ekki ráð á að greiða fyrir gistiheimili og því er hún á götunni. Hún er á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, sem er í raun hennar eina von um húsnæði. Árið 2015 voru heildartekjur hennar með fjárhagsaðstoð borgarinnar rúmar 1,7 millj. kr. eða rúmar 140 þús. kr. á mánuði að jafnaði, þ.e. tekjur við skattleysismörk. 

Örsaga nr. 2 – Helga er 28 ára gömul kona. Hún flutti með foreldrum sínum til Danmerkur þegar hún var barn. Fjölskyldan flutti aftur til Íslands þegar hún var um tvítugt, en hún ætlaði sér að vera áfram í Danmörku. Eftir að hún veiktist alvarlega vildi fjölskyldan að Helga flytti aftur til Íslands, sem hún gerði, þá 21 árs. Faðir hennar hafði þá fengið þær upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) að hún gæti sótt um endurhæfingarlífeyri, sem hún gerði. Helga fékk synjun á grundvelli þess að hafa ekki búið á Íslandi þrjú síðustu ár fyrir umsókn. Hún reyndi endurhæfingu og fékk fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi sínu. Helga sótti um örorkulífeyri 3 árum seinna og fékk örorkumat og örorkulífeyri miðað við 47% búsetuhlutfall. Eftir að mál hennar hafði farið í gegnum úrskurðarnefnd almannatrygginga fékk hún greiðslur 2 ár aftur í tímann, en búsetuhlutfall hennar var lækkað niður í 21%. Helga flutti aftur til Danmerkur þar sem hún fékk ekki þá aðstoð hér á landi sem hún þurfti og gat ekki framfleytt sér á tekjunum. Hún fær engar greiðslur frá fyrra búsetulandi, en í því landi geta einstaklingar yngri en 40 ára ekki fengið örorkumat. Þessum einstaklingum er ætlað að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði (flexjob) fyrir fólk með skerta starfsgetu. Árið 2017 fær Helga rúmar 46 þús. kr. á mánuði frá TR, en einungis greiðslur skv. lögum um almannatryggingar eru greiddar úr landi (örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót og tekjutrygging).

Örsaga nr. 1 – Drífa er 25 ára gömul kona, sem fékk synjun um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) á grundvelli þess að hafa ekki verið búsett á Íslandi síðustu 3 ár fyrir umsókn. Drífa er fædd og uppalin á Íslandi en fór í nám erlendis þegar hún var rúmlega tvítug. Sökum þess að hún fór í nám til eins af Norðurlöndunum þurfti hún að flytja lögheimili sitt til námslandsins. Eftir að Drífa hóf nám hrakaði heilsu hennar mjög hratt og hún varð að minnka námið og loks hætta því. Hún komst ekki í endurhæfingu í námslandinu og flutti til Íslands, en þá hafði hún verið með lögheimili erlendis í 1 og ½ ár. Hún hefur engar aðrar tekjur en fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins og er gert að bíða eftir endurhæfingu þar til 3 ár eru liðin frá því að hún flutti lögheimilið aftur til Íslands. Hún á ekki rétt á endurhæfingarlífeyri frá námslandinu.