Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna)

By 11. júní 2025júní 18th, 2025No Comments

„Líkt og fram kemur í frumvarpinu eru konur meiri hluti lífeyristaka auk þess að eiga almennt minni réttindi í lífeyrissjóðum en karlar.“

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) telja það frumvarp sem hér er til umsagnar mjög mikilvægt. Beðið hefur verið eftir framtíðarlausn á vandamáli víxlverkunar örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyrissjóða um áratugaskeið.

Samtökin eru hlynnt tillögu frumvarpsins um að örorkulífeyrir, hlutaörorkulífeyrir og sjúkra- og endurhæfingargreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og tengdar greiðslur skulu ekki leiða til lækkunar við útreikning lífeyrissjóðs á lífeyri vegna orkutaps sjóðfélaga.

Frumvarpið er mikilvægt til að koma í veg fyrir að víxlverkun fari aftur af stað og komi ekki í veg fyrir þær kjarabætur sem ætlað er að felast í hinu breytta örorkulífeyriskerfi sem tekur gildi 1. september 2025. Frumvarpið er sérstaklega mikilvægt þeim örorkulífeyristökum sem hafa lægsta framfærslu þar sem víxlverkun myndi leiða til mestrar lækkunar á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til þeirra, verði ekki komið í veg fyrir hana.

Á tímabilinu frá því víxlverkunin hófst með breytingum á samþykktum lífeyrissjóða (2006-2008) og þar til samkomulag til að koma í veg fyrir áframhaldandi víxlverkun tók gildi 1. janúar 2011 missti nokkur fjöldi örorkulífeyristaka úr þeim hópi varanlega örorkulífeyri sinn hjá lífeyrissjóðum.

Um helmingur allra örorkulífeyristaka eiga réttindi hjá lífeyrissjóðum. Mun hærra hlutfall örorkulífeyristaka hefur þó greitt iðgjald í lífeyrissjóð án þess að njóta góðs af framlagi sínu. Líkt og fram kemur í frumvarpinu eru konur meiri hluti lífeyristaka auk þess að eiga almennt minni réttindi í lífeyrissjóðum en karlar. Fari víxlverkun aftur af stað eru konur líklegri en karlar til að verða fyrir tekjuskerðingum.

Allt frá því víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna kom fram hafa ÖBÍ staðið utan samráðs um málið þrátt fyrir óskir um aðkomu að því. ÖBÍ er sem endranær reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtökum

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum


Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna)
430. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 11. júní 2025