Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurRéttarkerfiUmsögn

Skýrsla um alþjóðasamninginn um afnám alls kynþáttamisréttis

By 1. mars 2024mars 4th, 2024No Comments

ÖBÍ réttindasamtök telja mikilvægt að íslensk stjórnvöld vinni markvisst að afnámi alls kynþáttamisréttis og tryggi öllum landsmönnum óháð bakgrunni jafnt aðgengi að öryggi, mannsæmandi lífi og mannréttindum.

ÖBÍ áréttar að fatlað fólk er fjölbreyttur hópur sem mætir ýmsum hindrunum í daglegu lífi og því brýnt að fatlað fólk sé upplýst um sín mannréttindi og bjargráð til að geta tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk. Sú staða á sérstaklega við fatlaða innflytjendur og fatlað fólk á flótta sem er ólíklegra til að þekkja réttindi sín og/eða búa við sterkt félagslegt tengslanet sér til halds og trausts.

Brýnt er að stjórnvöld setji upp fötlunargleraugun í þessum málum, hugi að aðstæðum fatlaðs fólks með erlendan bakgrunn og beiti sér markvisst gegn þeirri tvöföldu mismunun sem sá hópur verður gjarnan fyrir. ÖBÍ vill því koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Fatlað fólk á flótta

ÖBÍ telur mikilvægt að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái skilvirka, mannúðlega og vandaða málsmeðferð. ÖBÍ áréttar að fatlað fólk á flótta er viðkvæmur hópur og minnir íslensk stjórnvöld á að unnið er að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) en samningurinn skuldbindur aðildarríki til þess að fara ekki gegn ákvæðum hans, þ.m.t. fötluðu fólki á flótta, þar er Ísland hvergi undanskilið. Ómannúðleg meðferð íslenskra stjórnvalda í máli Husseins Hussein, fatlaðs umsækjanda um alþjóðlega vernd undirstrikar mikilvægi þess að vanda vel til verka í þessum viðkvæma málaflokki.

Óháð og sjálfstæð mannréttindastofnun

ÖBÍ harmar að óháð og sjálfstæð mannréttindastofnun bíði enn þinglegrar meðferðar Alþingis og í raun nái ekki eyrum þingmanna. Hlutverk mannréttindastofnunar verður að efla og vernda mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins, hafa eftirlit með framkvæmd laga og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda auk þess að vera opinberum aðilum og eftir atvikum einkaaðilum til ráðgjafar um eflingu og vernd mannréttinda. Á meðan málið situr fast í fyrstu umræðu inni á Alþingi er stöðnun á framþróun mannréttinda á Íslandi. Fólk með takmarkað fjárhagslegt svigrúm sem verður fyrir kynþáttamisrétti hefur fá bjargráð til að leita réttar síns. Á þetta sérstaklega við um fatlað fólk með erlendan bakgrunn sem á rétt á vernd í gegnum almannatryggingakerfið.

Fullgilding og lögfesting alþjóðlegra skuldbindinga

Í loka athugasemdum nefndar um afnáms alls kynþáttamisréttis lýsir nefndin yfir áhyggjum yfir því að Ísland hafi ekki lögfest samninginn að öllu leyti. Jafnframt ítrekar nefndin fyrri tilmæli um að aðildarríki lögfesti öll efnisákvæði samningsins og tryggi alhliða vernd gegn kynþáttamismunun. ÖBÍ tekur undir athugasemdir nefndarinnar og bendir jafnframt á að Ísland hefur ekki fullgilt valfrjálsa bókun SRFF sem felur í sér kvörtunarleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum. Talið er mikilvægt að fatlað fólk geti leitað til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar það telur réttindi sín ekki virt. Óbindandi álit frá nefndinni er þannig mikilvægur liður í að styrkja mannréttindi og leiðbeina um leiðir til úrbóta.

ÖBÍ telur brýnt að stjórnvöld sýni vilja í verki með lögfestingu á alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis og valfrjálsra bókunar SRFF. Þátttaka Íslands í alþjóðlegu mannréttindasamstarfi er góðra gjalda verð en má ekki einskorðast við ljósmyndir af undirritun samninga og handaböndum ráðamanna. Til að þátttakan hafi raunveruleg áhrif verða landsmenn allir að öðlast ný bjargráð til að leita réttar síns þegar á þeim brotið samhliða undirritun alþjóðlegra skuldbindinga. Því verða stjórnvöld að stíga skrefið til fulls, gefa alþjóðlegum skuldbindingum vægi í íslensku réttarríki og stuðla þannig að réttlátara samfélagi fyrir alla en ekki bara suma.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Skýrsla um alþjóðasamninginn um afnám alls kynþáttamisréttis
Mál nr. S-7/2024. Forsætisráðuneytið. Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
Umsögn ÖBÍ, 1. mars 2024