
Mynd: Adobe Stock.
„Sveitarfélögin þurfa að gæta þess að íbúar þeirra hverfi ekki ofan í hít þjónustuleysis“
Markmið sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2025-2029 er að „efla og styrkja svæði og samfélag höfuðborgarsvæðisins“ og byggir á greiningu og samráði. Þó ekki við íbúa svæðisins heldur aðeins við kjörna fulltrúa, embættismenn og aðra stjórnendur í háskóla-, atvinnu- og menningarlífi á höfuðborgarsvæðinu. Í áætluninni er gert ráð fyrir að íbúar verði upplýstir um áætlunina, en hafi litla aðkomu að því að móta og framkvæma hana.
Helsti mælikvarðinn á framgang áætlana er hversu vel þær gagnast þörfum og óskum þeirra sem þær eiga að þjóna. Sérstaklega er mikilvægt að vítt og breitt samráð sé við þá samfélagshópa sem eiga mest undir að áætlanir séu skilvirkar.
Þegar á að bæta lífsskilyrði á svæðinu til framtíðar ætti að vera eðlilegt að leita til þeirra íbúa sem eru í viðkvæmari stöðu en þorri almennings, þar á meðal fatlaðs fólks, barna, aldraðra, fátæks og heimilislauss fólks.
Innan sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eru starfandi notendaráð fyrir fatlað fólk, sem eru þáttur í lögbundnu samráði yfirvalda við fatlað fólk. Störf notendaráða snúast ekki bara um stefnumótun í félagsþjónustu heldur á að horfa á verksviðið í víðara samhengi, og fjalla til dæmis um fyrirhugaðar framkvæmdir, aðgengi og þess háttar. Svo virðist sem sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2025-2029 hafi ekki verið kynnt fyrir notendaráðunum á höfuðborgarsvæðinu á neinu stigi.
Efnislegar athugasemdir
Sóknaráætlun er skipt upp í þrjá málaflokka, sem þó eru samofnir því þeir geta ekki staðið sjálfstætt.
Atvinnu- og nýsköpun
Áhersluverkefnin eru annars vegar nýsköpun og samkeppnishæfni og hins vegar stafræn þróun.
Þessar áherslur taka fyrst og fremst mið af þörfum og möguleikum atvinnurekenda. Vissulega skiptir stafræn þróun okkur öll máli. Þjónusta miðast orðið við það að fólk geti sinnt flestum sínum erindum á netinu, að því marki að oft og tíðum er ekki hægt að fá samband við þjónustuaðila á staðnum, í síma eða jafnvel gegnum tölvupóst. Ofuráhersla á afgreiðslu mála án snertingar við þjónustuaðila veldur því að fólk sem á erfitt með að tileinka sér nýja tækni verður eftir án bjargar.
Sveitarfélögin þurfa að gæta þess að íbúar þeirra hverfi ekki ofan í hít þjónustuleysis og skilja eftir leiðir svo þau sem þurfa meiri stuðning fái hann þrátt fyrir að lunga fólks geti og vilji í flestum tilfellum nýta sér hraðari stafrænar leiðir. Sveitarfélögin ættu aftur á móti að auka stuðning við viðkvæma hópa með því að kenna fólki að nota tæknina og sinna erindum sínum stafrænt eftir getu. Enn fremur þarf að gæta þess að þær lausnir sem teknar eru í notkun séu fyllilega aðgengilegar og fylgi alþjóðlegum forskriftum, eins og WGAC um stafrænt aðgengi.
ÖBÍ réttindasamtök harma að í sóknaráætluninni er ekki lögð áhersla á leiðir til að auka atvinnuþátttöku fólks sem hefur fá tækifæri á vinnumarkaði.
Í haust taka gildi breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga með auknum hvata til atvinnuþátttöku. Það þýðir að atvinnurekendur þurfa að vera sveigjanlegri en hingað til í ráðningum, fjöldi hlutastarfa og starfa með sveigjanlegum vinnutíma þarf að aukast mikið og síðast en ekki síst þarf að bæta aðgengi að vinnustöðum og veita starfsfólki viðeigandi aðlögun. Sveitarfélögin þurfa að taka þátt í þeirri vegferð, bæði í framboði á fjölbreyttum störfum og viðeigandi stuðningi svo að fatlað fólk geti stundað vinnu.
Sveitarfélög eiga að annast afgreiðslu umsókna vegna hjálpartækja til náms fyrir 16 ára og eldri og atvinnu fyrir 18 ára og eldri, samkvæmt 7. gr. reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja, nr. 760/2021, en hafa hingað til gert lítið eða jafnvel ekkert til að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
Umhverfis- og samgöngumál
Margt fatlað fólk er háð einkabílnum eða akstursþjónustu fatlaðra. Almenningssamgöngur eru fjarlægur kostur fyrir fjölda hreyfihamlaðs fólks enda er ekki hægt að treysta því að vagnarnir séu aðgengilegir og enn síður biðstöðvarnar. Ástandið hefur batnað en stærstur hluti biðstöðva á höfuðborgarsvæðinu er þó enn óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki. Leiðakerfið má líka bæta, stytta ferðatíma og fjölga biðstöðvum. Víða á svæðinu rísa nýir íbúakjarnar með afar lélegum tengingum við strætó, en á sama tíma hefur verið heimilað að fækka mikið bílastæðum við íbúðahús. Borgarlínunni er sennilega ætlað að bjarga málunum en enn eru sex ár í að fyrstu lotu hennar eigi að vera lokið. Áætlanir fara því ekki vel saman.
Akstursþjónusta fatlaðs fólks miðast við ákveðið þjónustusvæði en henni er þó ætlað að veita sambærilega þjónustu og strætó fyrir fólk sem getur ekki tekið strætó. Landsbyggðarstrætó fer yfir mörk sveitarfélaga eða þjónustusvæðis þeirra en það gerir akstursþjónustan ekki. Hér þarf að gera samning um að heimila þann akstur því fólk þarf að geta farið út á land, til dæmis í flug.
Áherslur um umhverfismál má taka undir en bent er þó á að útfærsla hringrásarlausna sorphirðu tekur ekki mið af þörfum fatlaðs fólks og getu þess til að fara með flokkað sorp oft langa og ógreiðfæra vegu. Það þarf að skerpa á þeim þáttum í skipulagsáætlunum sveitarfélaga.
Velferð og samfélag
Áherslur um húsnæðismál í áætluninni snúa að greiningum en ekki framkvæmdum. Fram hefur komið að skortur á lóðaframboði sé helsti þröskuldurinn í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Á meðan standa dýrari íbúðir eftir óhreyfðar. Sveitarfélögin þurfa stýra betur úthlutunum með hliðsjón af raunverulegum þörfum fólks. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem býr í íbúðum á vegum óhagnaðdrifinna leigufélaga, eins og Bjarg og Brynja, búa við meira húsnæðisöryggi en aðrir.
Verka- og ábyrgðarskipting ríkis og sveitarfélaga í velferðarmálum hefur lengi verið óljós og það hefur aðeins bitnað á þeim sem síst eiga við því. Í hverri áætluninni á fætur annarri hafa birst markmið um að skýra þau mörk en lítið hefur áunnist. Hér væri gott að sjá markvissa áætlun í þá átt því að það hefur sýnt sig að málshátturinn “orð eru til alls vís” er ekki forspár í þessum málum.
Minnt er á að öll börn eiga sama rétt til náms. Í 20. gr. laga um grunnskóla er fjallað um skólahúsnæði og kemur þar fram í 2. mgr. að grunnskólahúsnæði og skólalóðir skuli uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögunum, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður skuli taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Ferlar þurfa að vera til staðar innan stjórnsýslunnar til að tryggja þennan rétt.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Drög að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2025-2029
Mál nr. S-4/2025. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 30. janúar 2025