Skip to main content
Umsögn

SRFF (íslensk þýðing, 3.útg.)

By 27. júní 2019No Comments

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 

Formálsorð.

Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum,
 
a) sem minnast meginreglna, sem kunngerðar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem mannleg reisn og verðleikar og jöfn og óafsalanleg réttindi alls fólks eru viðurkennd sem undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,
 
b) sem viðurkenna að Sameinuðu þjóðirnar hafa kunngert og samþykkt í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningunum um mannréttindi, að öllu fólki beri öll þau réttindi og eigi tilkall til þess frelsis sem þar er greint frá án nokkurs konar aðgreiningar,
 
c) sem árétta að mannréttindi og grundvallarfrelsi eru algild ódeilanleg, gagnvirk og samtvinnuð og árétta jafnframt nauðsyn þess að fötluðu fólki séu tryggð þessi réttindi og frelsi að fullu án mismununar,
 
d) sem minnast alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningsins gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, samningsins um réttindi barnsins og alþjóðasamningsins um verndun réttinda allra farandlaunþega og fjölskyldu þeirra,
 
e) sem viðurkenna að hugtakið fötlun þróast og að fötlun verður til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.
 
f) sem viðurkenna mikilvægi meginreglna og stefnumótandi leiðbeininga sem er að finna í alþjóðlegu aðgerðaráætluninni um fatlað fólk og grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri fyrir fatlað fólk, fyrir framgang, mótun og mat á stefnu, fyrirætlunum, áætlunum og aðgerðum innanlands, í heimshlutum og á alþjóðavettvangi í því skyni að jafna enn frekar tækifæri fötluðu fólki til handa,
 
g) sem leggja áherslu á mikilvægi þess að samþætta málefni fatlaðs fólks sem óaðskiljanlegan þátt í viðeigandi áætlunum um sjálfbæra þróun,
 
h) sem viðurkenna einnig að mismunun gagnvart sérhverjum einstaklingi á grundvelli fötlunar er brot á eðlislægri mannlegri reisn og verðleikum manneskjunnar,
 
i) viðurkenna enn fremur að fatlað fólk er margbreytilegur hópur,
 
j) sem viðurkenna nauðsyn þess að efla og vernda mannréttindi alls fatlaðs fólks, einnig þess sem þarf mikinn stuðning,
 
k) sem hafa af því áhyggjur að þrátt fyrir þá margvíslegu mannréttindasamninga, yfirlýsingar og skuldbindingar sem nefnd eru hér að framan er samfélagsþátttaka fatlaðs fólks sem jafnrétthárra samfélagsþegna hindruð og mannréttindi þess eru brotin í öllum heimshlutum,
 
l) sem viðurkenna mikilvægi alþjóðasamstarfs um að bæta lífsskilyrði fatlaðs fólks í öllum löndum, einkum þróunarlöndum,
 
m) sem viðurkenna verðmæti núverandi og verðandi framlags fatlaðs fólks til almennrar velsældar og fjölbreytni samfélaga sinna, eins og það er nú og getur orðið, að efling allra mannréttinda, grundvallarfrelsis og virkrar samfélagsþátttöku muni leiða til sterkari tilfinningar um að það tilheyri samfélaginu og til umtalsverðrar framþróunar samfélagsins, jafnt á mannlega sviðinu sem og því félagslega og efnahagslega, og til þess að fátækt verði útrýmt,
 
n) sem viðurkenna mikilvægi einstaklingsbundins sjálfræðis og sjálfstæðis fyrir fatlað fólk, þar með talið að hafa frelsi til að taka eigin ákvarðanir,
 
o) sem telja að fatlað fólk skuli eiga möguleika á virkri þátttöku í öllu ákvarðanatökuferli um stefnumótun og áætlanir, meðal annars ákvörðunum sem varðar það með beinum hætti,
 
p) sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir margþættri eða aukinni mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna
eða frumbyggjaættar, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu,
 
q) sem viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka eða misþyrminga, afskiptaleysis eða vanrækslu, illrar meðferðar eða misnotkunar í gróðaskyni,
 
r) sem viðurkenna að fötluð börn skulu njóta til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skuldbindinga, sem ríki sem eru aðilar að samningnum um réttindi barnsins, hafa undirgengist,
 
s) sem leggja áherslu á nauðsyn þess að ávallt sé tekið mið af kynjasjónarmiðum með það að markmiði að stuðla að því að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis,
 
t) sem vilja draga fram þá staðreynd að meirihluti fatlaðs fólks býr við fátækt og viðurkenna í því sambandi að knýjandi þörf er á að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem fátækt hefur á fatlað fólk,
 
u) sem hafa hugfast að forsenda þess að fatlað fólk njóti fullrar verndar, einkum þegar vopnuð átök standa yfir og undir erlendri hersetu, er að friður og öryggi byggist á fullri virðingu fyrir markmiðum og grundvallarreglum sem er að finna í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og því að gildandi mannréttindasamningar séu hafðir í heiðri,
 
v) sem viðurkenna mikilvægi aðgengis fatlaðs fólks að hinu efnislega, félagslega, efnahagslega og menningarlega umhverfi, að það njóti heilbrigðis og menntunar og aðgengis að upplýsingum og samskiptamiðlum til þess að gera þeim kleift að njóta allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls,
 
w) sem gera sér ljóst að það er á ábyrgð einstaklingsins sjálfs, sem hefur skyldum að gegna við aðra einstaklinga og samfélag sitt, að berjast fyrir framgangi réttinda sem eru fólgin í alþjóðaréttarskránni, og því að þau séu virt,
 
x) sem eru þess fullviss að fjölskyldan er í eðlil sínu frumeining samfélagsins og ber samfélagi og ríki að vernda hana og enn fremur að fötluðu fólki og fjölskyldum þess beri nauðsynleg vernd og aðstoð til þess að fjölskyldum verði gert kleift að leggja sitt af mörkum til þess að fatlað fólk geti notið réttinda sinna til fulls og jafns við aðra,
 
y) sem eru þess fullviss að víðtækur og órjúfanlegur alþjóðasamningur sem ætlað er að efla og vernda réttindi og mannlega reisn fatlaðs fólks muni verða mikilvægt framlag til þess að bæta úr óviðunandi félagslegri mismunun fatlaðs fólks og muni efla þátttöku þess sem borgara, sem og þátttöku í stjórnmálum og efnahags- og menningarlífi til jafns við aðra, bæði í þróunarlöndum og iðnríkjum, 
 
hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

Markmið.

Markmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. 
 
Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir: 
 
„samskipti“ merkir meðal annars tungumál, framsetning á texta, blindraletur, snertitáknmál, stækkað letur og aðgengilega margmiðlun, auk þess ritmál, talmál, auðskilið mál talgervla, óhefðbundnar tjáningarleiðir, þar með talið aðgengilega upplýsinga- og samskiptatækni, 
 
„tungumál“ merkir meðal annars talað mál og táknmál og annars konar mál sem ekki er talað, 
 
„mismunun vegna fötlunar“ merkir hvers konar aðgreiningu, útilokun eða takmörkun vegna fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að fatlað fólk fái viðurkennd, notið eða nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála sem borgarar eða á öðrum sviðum. Þetta tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, meðal annars að fötluðu fólki sé neitað um viðeigandi aðlögun,
 
„viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi, 
 
„algild hönnun“ merkir hönnun framleiðsluvara og umhverfis, áætlanir og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. 
 
„Algild hönnun“ útilokar ekki hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks, sé þeirra þörf.

3. gr.

Almennar meginreglur.

Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:

a) virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga,

b) bann við mismunun,

c) full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar,

d) virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni,

e) jöfn tækifæri,

f) aðgengi,

g) jafnrétti á milli karla og kvenna,

h) virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytist og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína,

4. gr.

Almennar skuldbindingar.

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.
 
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
 
a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að innleiða þau réttindi, sem eru viðurkennd með samningi þessum,
 
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
 
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanir,
 
d) að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,
 
e) að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að útrýma mismunun vegna fötlunar af hálfu einstaklings, stofnunar eða einkaaðila,
 
f) að framkvæma eða efla rannsóknir og þróun á vörum, þjónustu, tækjum og aðstöðu með algildri hönnun skv. 2. gr. samnings þessa og breyta þarf sem allra minnst og með sem minnstum tilkostnaði til þess að mæta sérþörfum fatlaðs fólks, að auka framboð á þeim og notkun og ýta undir algilda hönnun þegar móta á staðla og leiðbeiningar,
 
g) að framkvæma eða efla rannsóknir og þróun á nýrri tækni, og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og hjálpartæki, sem henta fötluðu fólki, með áherslu á tækni á viðráðanlegu verði,
 
h) að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um hjálpartæki, þar með talið nýja tækni, og um annars konar aðstoð, stoðþjónustu og aðstöðu,að auka þekkingu fagfólks og starfsfólks, sem vinna með fötluðu fólki, á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningi þessum til þess að unnt sé að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.
 
2. Að því er varðar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til þess að gera ráðstafanir, eins og efni þess frekast leyfa og með þátttöku í alþjóðasamstarfi, eftir því sem þörf krefur, í því skyni að fyrrnefnd réttindi verði í einu og öllu virk í áföngum með fyrirvara um þær skuldbindingar samkvæmt samningi þessum sem gilda þegar í stað samkvæmt reglum þjóðaréttar.
 
3. Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
 
4. Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á ákvæði sem stuðla frekar að því að réttindi fatlaðs fólks verði að veruleika og lög aðildarríkis eða reglur þjóðaréttar, sem gilda gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki, kunna að innihalda. Eigi skal takmarka eða víkja frá nokkrum mannréttindum og grundvallarfrelsi, sem eru viðurkennd eða gilda í aðildarríki að samningi þessum samkvæmt lögum, samningum, reglum eða venju, undir því yfirskini að slík réttindi eða frelsi sé ekki viðurkennt eða viðurkennt í minna mæli samkvæmt samningi þessum.
 
5. Ákvæði samnings þessa gilda alls staðar í sambandsríkjum án nokkurra takmarkana eða undanþága.

5. gr.

Jafnrétti og bann við mismunun.

1. Aðildarríkin viðurkenna að öll erum við jöfn fyrir lögum og eigum rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.
 
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.
 
3. Í því skyni að efla jöfnuð og útrýma mismunun skulu aðildarríkin gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
 
4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.
 

6. gr.

Fatlaðar konur.

1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.
 
2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fullan þroska, framgang og valdeflingu kvenna í þeim tilgangi að þau mannréttindi og það grundvallarfrelsi sem sett eru fram í samningi þessum sé tryggt.

7. gr.

Fötluð börn.

1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn.
 
2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
 
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska, til jafns við önnur börn og veita
þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

8. gr.

Vitundarvakning.

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:

a) til þess að standa að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal sviði fjölskyldunnar, um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn,
 
b) til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, meðal annars á grundvelli kyns og aldurs, á öllum sviðum lífsins,
 
c) til þess að auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks.
 

2. Meðal aðgerða í þessu skyni má nefna:

a) að hefja og vinna stöðugt að átaksverkefnum um vitundarvakningu hjá almenningi sem miða að því:

i. að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks,

ii. að efla jákvæða ímynd fatlaðs fólks og efla vitund í samfélaginu um málefni þess,

iii. að færni, verðleiki og geta fatlaðs fólks sé viðurkennd í ríkari mæli, enn fremur framlag þess til vinnustaða sinna og vinnumarkaðarins í heild,

b) að á öllum skólastigum, allt frá unga aldri, verði hlúð að virðingu fyrir réttindum fatlaðs fólks,

c) að hvetja allar tegundir fjölmiðla til þess að gefa þá mynd af fötluðu fólki sem samræmist tilgangi þessa samnings,

d) að efla áætlanagerð um fræðslu sem lýtur að vitundarvakningu um fatlað fólk og réttindi þess.

9. gr.

Aðgengi.

1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:

a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða,

b) upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, þar með talið rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.

 

2. Samningsaðilar skulu og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:

a) þróa, útbreiða og fylgjast með því að lágmarkskröfur verði innleiddarog leiðbeiningar um aðgengi að aðstöðu og þjónustu, sem veitt er almenningi, séu uppfylltar,

b) tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu, sem veitt er almenningi, taki mið af hvers kyns aðgengi fyrir fatlað fólk,

c) tryggja fræðslu fyrir hagsmunaaðila um aðgengismál sem varða fatlað fólk,

d) tryggja að í byggingum og annarri aðstöðu, sem er almenningi opin, séu skilti með blindraletri og skilti á auðlesnu máli sett fram á þann hátt að þau séu auðlæsileg og auðskiljanleg fötluðu fólki,

e) láta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þar með talið fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi er opin,

f) auka við að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,

g) auka við aðgang fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, meðal annars Netinu,

h) efla hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi frá upphafi til þess að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.

10. gr.

Réttur til lífs.

Aðildarríkin árétta að sérhver mannvera eigi meðfæddan rétt til lífs og skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið þess á virkan hátt til jafns við aðra. Hlé á lestri. Til að hlusta áfram smelltu hér#

11. gr.

Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum
vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.

12. gr.

Réttarstaða til jafns við aðra.

1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi alls staðar rétt á viðurkenningu sem aðilar að lögum.

2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.

3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að þeim stuðningi sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að allar aðferðir og stuðningur, sem tengist beitingu gerhæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun samanber ákvæði í alþjóðlegum mannréttindalögum. Slíkar verndarráðstafanir skulu tryggja að aðferðir og aðstoð tengd beitingu gerhæfis virði réttindi, vilja og óskir viðkomandi einstaklings, að slíkar aðferðir og aðstoð leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi í för með sér ótilhlýðileg áhrif, þær séu í samræmi við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála. Verndarráðstafanirnar skulu vera í samræmi við þau áhrif sem slíkar aðferðir og aðstoð hafa á réttindi og hagsmuni viðkomandi einstaklings.

5. Í samræmi við ákvæði þessarar greinar skulu aðildarríkin gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annarri fjárhagslegri fyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum að geðþótta.

13. gr.

Aðgangur að réttarkerfinu.

1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.
 
2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.

14. gr.

Frelsi og mannhelgi.

1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk til jafns við aðra:

a) njóti réttar til frelsis og mannhelgi,

b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða að geðþótta og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.

2. Sé fatlað fólk svipt frelsi með einhverjum hætti skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og það hljóti meðferð sem samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

15. gr.

Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.

1. Enginn skal sæta pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræðilegar eða vísindalegar tilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar.

2. Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og innan réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að koma í veg fyrir að fatlað fólk, jafnt og aðrir, sæti pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.

16. gr.

Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsog menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, meðal annars með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.

2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, meðal annars með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun.

3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með öllum úrræðum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.

4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri aðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og aðlögun skal fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, mannlegri reisn og sjálfræði fólksins, þar sem tillit er tekið til sérþarfa þeirra miðað við kyn og aldur.

5. Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, þar með talið löggjöf og stefnu þar sem tilllit er tekið til sérstakra þarfa kvenna og barna til þess að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, sem beinast gegn fötluðu fólki, og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

17. gr.

Verndun friðhelgi einstaklingsins.

Allt fatlað fólk á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi þess sé virt.

18. gr.

Umferðarfrelsi og ríkisfang.

1. Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til umferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og rétt til ríkisfangs, meðal annars með því að ábyrgjast að fatlað fólk:

a) hafi rétt til að öðlast ríkisfang og breyta því og sé ekki svipt ríkisfangi sínu að geðþótta eða vegna fötlunar,

b) sé ekki, vegna fötlunar, svipt rétti sínum til að fá, hafa umráð yfir og nýta sér skjöl um ríkisfang sitt eða önnur auðkenningarskjöl eða til að hagnýta viðeigandi verklag, t.d. málsmeðferð vegna innflytjendamála, sem kann að vera nauðsynlegt til þess að gera því auðveldar um vik að nýta sér réttinn til umferðafrelsis,

c) hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið,

d) sé ekki, af geðþótta eða vegna fötlunar, svipt réttinum til að koma til síns eigin lands.

2. Fötluð börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og eiga frá fæðingu rétt til nafngiftar, rétt til þess að öðlast ríkisfang og, eftir því sem unnt er, rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

19. gr.

Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og með sömu valkosti og aðrir og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks og til fullrar þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:

a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,

b) að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar félagsþjónustu, s.s. aðstoð inni á heimili og í búsetuúrræðum og öðrum stuðningi til samfélagsþátttöku, meðal annars persónulegan stuðning sem er nauðsynlegur til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,

c) að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þeirra.

20. gr.

Ferlimál einstaklinga.

Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því:

a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi,

b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að hjálpartækjum í háum gæðaflokki og annarri persónulegri þjónustu, meðal annars með því að hafa þau tiltæk á viðráðanlegu verði,

c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlað fólk og sérhæft starfslið sem vinnur með fötluðu fólki,

d) að hvetja framleiðendur hjálpartækja til þess að horfa til allra möguleika fatlaðs fólks til að fara sinna ferða.

21. gr.

Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þar með talið frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, meðal annars með því:

a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem hæfir einstaklingum með mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,

b) að viðurkenna og auðvelda fötluðu fólki notkun táknmáls, blindraleturs, óhefðbundinna tjáskiptaleiða og allra annarra tjáskiptaleiða sem mögulegar eru sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum,

c) að brýna fyrir einkaaðilum, sem bjóða almenningi þjónustu, meðal annars gegnum Netið, til þess að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk,

d) að hvetja fjölmiðla, meðal annars upplýsingaveitur á Netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,

e) að viðurkenna notkun táknmáls og auka notkun þess.

22. gr.

Virðing fyrir einkalífi.

1. Enginn fatlaður einstaklingur, án tillits til búsetustaðar eða búsetuforms, skal sæta því að einkalíf hans, fjölskyldulíf, heimilislíf eða skrifleg samskipti eða samskipti af öðru tagi séu trufluð að geðþótta eða með ólögmætum hætti eða að vegið sé að æru hans eða orðstír með óréttmætum hætti. Fatlað fólk á rétt á því að lögin verndi það gegn fyrrnefndri truflun eða árásum.

2. Aðildarríkin skulu tryggja að farið sé með upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks sem trúnaðarmál á sama hátt og gildir um aðra.

23. gr.

Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.

1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að útrýma mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi:

a) að réttur alls fatlaðs fólks, sem hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,

b) að réttur fatlaðs fólks til að taka með frjálsum hætti ábyrgar ákvarðanir um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, sem hæfir aldri, að upplýsingum og fræðslu um frjósemisheilbrigði og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu veitt nauðsynleg ráð sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt.

c) að fatlað fólk, þar með talið börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.

2. Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks með tilliti til lögráðs, forráðs, fjárhalds eða ættleiðingar barna eða svipaðrar íhlutunar, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum, og hagsmunir barnsins skulu í öllum málum varða mestu. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur ef það er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.

5. Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan samfélagsins.

24. gr.

Menntun.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og ævinámi í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri. Þau skulu miða að því:

a) að þroska mannlega eiginleika til fulls og tilfinningu fyrir mannlegri reisn og eigin verðleikum og auka virðingu fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og mannlegri fjölbreytni,

b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

c) að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.

2. Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:

a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi vegna fötlunar,

b) að fatlað fólk hafi aðgang að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, til jafns við aðra í þeim samfélögum þar sem það býr,

c) að viðeigandi aðlögun sé veitt viðkomandi einstaklingi til þess að þörfum hans sé mætt,

d) að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir gagnlegri menntun þess,

e) að árangursríkar, einstaklingsmiðaðar stuðningsaðgerðir séu veittar í umhverfi sem hámarkar hvað mest mögulegan árangur í námi og félagslegan þroska sem aftur samræmist því markmiði að fatlað fólk geti notið menntunar án nokkurrar aðgreiningar.

3. Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem þjóðfélagsþegnar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:

a) auðvelda fólki að læra blindraletur, óhefðbundna ritun, óhefðbundnar tjáskiptaleiðir og færni í áttun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjafræðslu,

b) auðvelda fólki að læra táknmál og stuðla að samsemd heyrnarlausra með tilliti til tungumáls,

c) tryggja að menntun einstaklinga, og þá sérstaklega barna, sem eru blindir eða sjónskertir, heyrnarlausir eða heyrnarskertir eða fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.

4. Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þar með talið fatlaða kennara, sem eru sérhæfðir í táknmáli og/eða blindraletri, og að þjálfa sérfræðinga og starfsfólk sem starfa á öllum stigum menntakerfisins. Fyrrnefnd þjálfun skal meðal annars stuðla að vitund um fötlun og notkun óhefðbundinna leiða til tjáskipta, auk kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.

5. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og ævinámi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

25. gr.

Heilsa.

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, meðal annars heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:

a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga, meðal annars með tilliti til kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,

b) bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar, sem felur meðal annars í sér eins snemmbæra greiningu og inngrip og kostur er og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og framast er kostur og koma í veg fyrir frekari fötlun, meðal annars meðal barna og eldri einstaklinga,

c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt samfélögum fólks og frekast er unnt, þar með talið í dreifbýli,

d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra,

e) leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki að því er varðar sjúkratryggingar og líftryggingar, þar sem slíkar tryggingar, sem skulu boðnar fram á sanngjarnan og réttmætan hátt, eru heimilar samkvæmt landslögum,

f) koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk þannig að um mismunun vegna fötlunar sé að ræða.

26. gr.

Hæfing og endurhæfing.

1. Aðildarríkin skulu gera skilvirkar og viðeigandi ráðstafanir, meðal annars með tilstyrk jafningjaaðstoðar, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast sem mest sjálfstæði, fulla líkamlega, andlega og félagslega getu, ásamt starfsgetu, og að vera þátttakendur í lífinu á öllum sviðum án aðgreiningar, ásamt því að viðhalda þessum gæðum. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka þjónustu og áætlanagerð á sviði heildstæðrar hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að fyrrnefnd þjónusta og áætlanir:

a) hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrkleika hvers einstaklings um sig,

b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig til sveita.

2. Aðildarríkin skulu efla þróun grunnþjálfunar og stöðugrar þjálfunar sérfræðinga og starfsfólks sem vinna við hæfingu og endurhæfingu.

3. Aðildarríkin skulu stuðla að því að hjálpartæki og tækni, sem eru hönnuð fyrir fatlað fólk og notuð eru til hæfingar og endurhæfingar séu tiltæk og þekking á þeim sé fyrir hendi.

27. gr.

Vinna og starf.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, meðal annars fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars:

a) að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,

b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, meðal annars jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þar með talið vernd gegn áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,

c) að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,

d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa með virkum hætti aðgang að tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og endurmenntun,

e) að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,

f) að auka við tækifæri til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,

g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,

h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,

i) að tryggja að viðeigandi aðlögun sé veitt fötluðu fólki á vinnustað,

j) að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,

k) að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðs fólks, að því að það haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að það geti snúið aftur til starfa.

2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.

28. gr.

Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.

2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar vegna fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, meðal annars ráðstafanir:

a) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að hreinu vatni og að tryggja aðgang að viðeigandi þjónustu, tækjabúnaði og annarri aðstoð gegn viðráðanlegu gjaldi vegna þarfa sem tengjast fötlun,

b) til þess að tryggja fötluðu fólki, einkum fötluðum konum og stúlkum og fötluðu eldra fólki aðgang að áætlunum á sviði félagslegrar verndar og áætlunum um að draga úr fátækt,

c) til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna fötlunar, þar með talið útgjöldum vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, fjárhagslegrar aðstoðar og hvíldarumönnunar,

d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera,

e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að eftirlaunum og eftirlaunakerfi.

29. gr.

Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.

Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:

a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þar með talið er réttur og tækifæri til þess að kjósa og vera kosinn, meðal annars með því:

i. að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,

ii. að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og almennum atkvæðagreiðslum án þvingana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,

iii. að fatlað fólk geti tjáð frjálst vilja sinn sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði,

b) vinna ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið virkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi, meðal annars:

i. þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,

ii. því að mynda og gerast aðilar að samtökum fatlaðs fólks til þess að rödd þess heyrist á alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.

30. gr.

Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:

a) njóti aðgengis að menningarefni á aðgengilegu formi,

b) njóti aðgengis að sjónvarpsdagskrám, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningarviðburðum á aðgengilegu formi,

c) njóti aðgengis að stöðum þar sem menningarefni eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðamannastöðum og njóti, eftir því sem við verður komið, aðgengis að minnisvörðum og stöðum sem

eru mikilvægir í þjóðmenningarlegu tilliti.

2. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.

3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í samræmi við alþjóðalög, til þess að tryggja að í lögum, sem vernda hugverkarétt, séu ekki ákvæði sem koma á ósanngjarnan hátt, eða með einhverjum þeim hætti sem hefur mismunun í för með sér, í veg fyrir að fatlað fólk hafi aðgang að menningarefni.

4. Fatlað fólk skal eiga rétt á, til jafns við aðra, að sérstök menningarleg samsemd þess og samsemd með tilliti til tungumáls sé viðurkennd og njóti stuðnings, þar með talið táknmál og menning heyrnarlausra.

5. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi með því að:

a) hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,

b) tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og hvetja til framboðs á viðeigandi tilsögn, þjálfunar og fjármagns, í þessu skyni og með sama hætti og gildir um aðra,

c) tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,

d) tryggja fötluðum börnum aðgang, til jafns við önnur börn, til að taka þátt í leikjum og tómstunda- og frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins,

e) tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku og frístunda- og íþróttastarfs.

31. gr.

Tölfræði og gagnasöfnun.

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, þar með talið tölfræðiog rannsóknargögn, sem gera þeim kleift að móta og innleiða stefnu samnings þessa svo að hann nái árangri. Aðferðir við söfnun og varðveislu slíkra upplýsinga skulu:

a) vera í samræmi við lögmætar verndarráðstafanir, meðal annars löggjöf um gagnavernd, til þess að tryggt sé að trúnaðarskylda og virðing fyrir einkalífi fatlaðs fólks sé virt,

b) vera í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar viðmiðunarreglur um vernd mannréttinda og grundvallarfrelsis og siðareglur sem gilda um söfnun og notkun tölfræði.

Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að því að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

1. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndrar tölfræði og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgang að henni.

32. gr.

Alþjóðlegt samstarf.

Aðildarríkin viðurkenna mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og að framgangur þess verði efldur til stuðnings innlendum aðgerðum/aðgerðum í einstökum löndum til þess að tilgangur og markmið samnings þessa megi ná fram að ganga og munu gera viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir í þeim málum milli og meðal ríkja og, eftir því sem við á, í samvinnu við hlutaðeigandi alþjóða- og svæðisstofnanir og borgaralegt samfélag, einkum samtök fatlaðs fólks. Fyrrnefndar ráðstafanir gætu meðal annars náð yfir eftirfarandi:

a) að tryggja að alþjóðlegt samstarf, þar með talið alþjóðlegar þróunaráætlanir, nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt,

b) að efla og auka afkastagetu, meðal annars með því að skiptast á og miðla með gagnkvæmum hætti upplýsingum, reynslu, þjálfunaráætlunum og bestu starfsvenjum,

c) að greiða fyrir samvinnu á sviði rannsókna og auðvelda aðgengi að vísinda- og tækniþekkingu,

d) að láta í té, eftir því sem við á, tækni- og efnahagsaðstoð, meðal annars með því að auðvelda aðgang að og gagnkvæma miðlun aðgengilegrar og gagnlegrar tækni, og með yfirfærslu á tækni,

Ákvæði þessarar greinar hafa engin áhrif á þá skyldu sérhvers aðildarríkis að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.

33. gr.

Framkvæmd og eftirlit innanlands.

1. Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka til tilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innan stjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum vegna framkvæmdar samningsins á ólíkum sviðum og ólíkum stigum.

2. Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á rammaáætlun, meðal annars einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að greiða fyrir, vernda og fylgjast með framkvæmd samnings þessa. Samningsaðilarnir skulu, þegar þeir tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda.

3. Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

34. gr.

Nefnd um réttindi fatlaðs fólks.

1. Setja ber á stofn nefnd um réttindi fatlaðs fólks (hér á eftir nefnd „nefndin“) sem skal vinna þau verk sem kveðið er á um hér á eftir.

2. Þegar samningur þessi öðlast gildi skulu tólf sérfræðingar skipa nefndina. Eftir að sextíu aðilar hafa fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum skal fjölgað í nefndinni um sex sem þýðir að heildarfjöldi nefndarfólks verður átján.

3. Nefndarfólk situr í nefndinni á eigin forsendum sem einstaklingar og skal hafa þroskaða siðferðisvitund og viðurkennda menntun og hæfi og reynslu á því sviði sem samningur þessi fjallar um. Óskað er eftir því að aðildarríkin taki eðlilegt tillit til ákvæða 3. mgr. 4. gr. samnings þessa þegar þau tilnefna frambjóðendur sína.

4. Aðildarríkin kjósa nefndarfólk að teknu tilliti til jafnrar dreifingar milli heimshluta, þess að fulltrúar komi frá ólíkum menningarþjóðfélögum og grunnréttarkerfum, til jafnrar þátttöku kynjanna og þátttöku fatlaðra sérfræðinga.

5. Nefndarfólk skal kjörið í leynilegri atkvæðagreiðslu af lista einstaklinga, sem aðildarríkin tilnefna úr hópi þegna sinna, þegar fundir þings aðildarríkjanna fara fram. Á þeim fundum, sem eru ákvörðunarbærir eigi tveir þriðju aðildarríkjanna þar fulltrúa, skulu þeir einstaklingar sem eru kjörnir til setu í nefndinni vera þeir sem hljóta flest atkvæði og hreinan meirihluta atkvæða fulltrúa aðildarríkjanna sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.

6. Halda ber fyrstu kosningu eigi síðar en sex mánuðum eftir þann dag þegar samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda aðildarríkjunum bréf, með eigi skemmri fyrirvara en fjórum mánuðum fyrir þann dag þegar sérhver kosning skal fara fram, og óska eftir tilnefningum þeirra innan tveggja mánaða. Aðalframkvæmdastjórinn tekur því næst saman skrá í stafrófsröð um alla einstaklinga, sem þannig eru tilnefndir, og gefur til kynna hvaða aðildarríki tilnefndi þá og sendir að svo búnu skrána þeim ríkjum sem eru aðilar að samningi þessum.

7. Kjörtímabil nefndarfólks er fjögur ár. Heimilt er að endurkjósa þau einu sinni. Engu að síður skal kjörtímabili sex þeirra sem kosin eru í fyrstu kosningu ljúka að tveimur árum liðnum; strax að lokinni fyrstu kosningu skal fundarstjóri, á fundi þeim er um getur í 5. mgr. þessarar greinar, velja nöfn fyrrnefndra sex aðila í nefndinni með hlutkesti.

8. Kjör hinna sex viðbótarmeðlima nefndarinnar skal fara fram þegar reglubundnar kosningar fara fram í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar greinar.

9. Falli meðlimur nefndarinnar frá eða segir af sér eða lýsi því yfir að hún eða hann geti ekki, af einhverri annarri ástæðu, gegnt skyldum sínum skal aðildarríkið, sem tilnefndi viðkomandi, skipa annan sérfræðing, sem hefur menntun og hæfi og uppfyllir þær kröfur er um getur í viðeigandi ákvæðum þessarar greinar, til þess að starfa í nefndinni út kjörtímabilið.

10. Nefndin setur sér starfsreglur.

11. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal útvega nauðsynlegt starfsfólk og aðstöðu til þess að nefndin geti sinnt störfum sínum með skilvirkum hætti samkvæmt samningi þessum og boða til fyrsta fundar hennar.

12. Þau sem sitja í nefndinni, sem er komið á fót samkvæmt samningi þessum, skulu með samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þiggja laun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið kann að ákveða, að teknu tilliti til mikilvægis þeirra ábyrgðarstarfa sem nefndin sinnir.

13. Nefndarfólki ber réttur til aðstöðu, forréttinda og friðhelgi sérfræðinga sem reka erindi Sameinuðu þjóðanna eins og mælt er fyrir um í viðeigandi hlutum samningsins um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna.

35. gr.

Skýrslugjöf aðildarríkjanna.

1. Sérhvert aðildarríki skal senda nefndinni, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, heildstæða skýrslu um ráðstafanir, sem hafa verið gerðar í því skyni að efna skuldbindingar þess samkvæmt samningi þessum, og um framfarir, sem hafa orðið á því sviði, innan tveggja ára frá því að samningur þessi öðlast gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki.

2. Eftir það skulu aðildarríkin senda skýrslur sínar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti og oftar í hvert sinn sem nefndin fer fram á það.

3. Nefndin skal kveða á um viðeigandi leiðbeiningar um efni skýrslnanna.

4. Aðildarríki, sem hefur sent nefndinni heildstæða frumskýrslu, þarf ekki að endurtaka áður veittar upplýsingar í skýrslum sem á eftir fara. Óskað er eftir því, þegar aðildarríkin undirbúa skýrslur til nefndarinnar, að þau geri það með opnum og gagnsæjum hætti og taki eðlilegt tillit til ákvæðisins í 3. mgr. 4. gr. samnings þessa.

5. Í skýrslunum er heimilt að geta um þá þætti og erfiðleika sem hafa áhrif á það hversu vel miðar að efna skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.

36. gr.

Umfjöllun um skýrslur.

1. Nefndin skal fjalla um sérhverja skýrslu og gera þær tillögur og leggja fram þau almennu tilmæli sem hún telur við eiga og senda hlutaðeigandi aðildarríki. Aðildarríkið getur svarað með því að láta nefndinni í té allar upplýsingar sem það kýs. Nefndin getur óskað eftir frekari upplýsingum frá aðildarríkjunum sem varða framkvæmd samnings þessa.

2. Dragist verulega á langinn að aðildarríki sendi skýrslu sína getur nefndin tilkynnt hlutaðeigandi aðildarríki um að nauðsynlegt sé að kanna framkvæmd samnings þessa í því aðildarríki, á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga sem nefndin hefur aðgang að, hafi viðkomandi skýrsla ekki verið send innan þriggja mánaða frá tilkynningunni. Nefndin skal bjóða hlutaðeigandi aðildarríki að taka þátt í fyrrnefndri könnun. Bregðist aðildarríkið við með því að senda viðkomandi skýrslu gilda ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.

3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera skýrslurnar tiltækar öllum aðildarríkjunum.

4. Aðildarríkin skulu gera skýrslur sínar almenningi í eigin löndum tiltækar með víðtækum hætti og greiða fyrir aðgangi að þeim tillögum og tilmælum sem varða þessar skýrslur.

5. Nefndin skal senda sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna, ásamt sjóðum og áætlunum á þeirra vegum, og öðrum bærum stofnunum skýrslur frá aðildarríkjunum, eftir því sem hún telur við eiga, í því skyni að taka fyrir beiðni um eða vísbendingu um þörf fyrir tæknilega ráðgjöf eða aðstoð, sem þar kemur fram, ásamt athugasemdum nefndarinnar og tilmælum, ef um þau er að ræða, viðvíkjandi þessum beiðnum eða vísbendingum.

37. gr.

Samvinna milli aðildarríkjanna og nefndarinnar.

1. Sérhvert aðildarríki skal vinna með nefndinni og aðstoða nefndarmenn við að uppfylla skyldur sínar eftir því umboði sem þeim er veitt.

2. Nefndin skal, í samskiptum sínum við aðildarríkin, taka eðlilegt tillit til leiða og aðferða við að auka getu innanlands til þess að innleiða samning þennan, meðal annars í gegnum alþjóðlegt samstarf.

38. gr.

Tengsl nefndarinnar við aðrar stofnanir.

Í því skyni að greiða fyrir árangursríkri framkvæmd samnings þessa og að stuðla að samvinnu þjóða í milli á því sviði sem hann fjallar um:

a) skulu sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar stofnanir þeirra hafa rétt til þess að eiga fyrirsvar þegar fjallað er um framkvæmd þeirra reglna samningsins sem skyldur þeirra varða. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanirnar og aðrar bærar stofnanir, eftir því sem hún telur við hæfi, að þær láti í ljós sérfræðiálit um framkvæmd samningsins innan þeirra sviða sem falla undir málaflokka hverrar um sig. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanir og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna að þær leggi fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem varða skyldur hverrar stofnunar fyrir sig.

b) Þegar nefndin uppfyllir skyldur sínar eftir umboði sínu skal hún hafa samráð, eftir því sem við á, við aðrar hlutaðeigandi stofnanir, sem er komið á fót samkvæmt alþjóðasamningum um mannréttindi, í því skyni að tryggja samsvörun leiðbeininga, tillagna og almennra tilmæla hverrar um sig viðvíkjandi skýrslugerð og að forðast tvíverknað og skörun í störfum þeirra.

39. gr.

Skýrsla nefndarinnar.

Nefndin skal gefa allsherjarþinginu og efnahags- og félagsmálaráðinu skýrslu um starfsemi sína og getur lagt fram tillögur og almenn tilmæli byggð á könnun skýrslna og upplýsinga frá aðildarríkjunum. Slíkar tillögur og almenn tilmæli ber að fella inn í skýrslu nefndarinnar ásamt athugasemdum frá aðildarríkjunum, ef um þau er að ræða.

40. gr.

Þing aðildarríkjanna.

Fulltrúar aðildarríkjanna skulu hittast reglulega á þingi aðildarríkjanna í því skyni að fjalla um öll mál er varða framkvæmd samnings þessa.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman þing aðildarríkjanna eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjórinn boðar til funda annað hvert ár eftir það eða eins oft og þing aðildarríkjanna ákveður.

41. gr.

Vörsluaðili.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili samnings þessa.

42. gr.

Undirritun.

Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja og svæðisstofnana um samvinnu í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 30. mars 2007 að telja.

43. gr.

Samþykki fyrir því að vera bundinn af samningi þessum.

Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu undirritunarríkja og formlega staðfestingu svæðisstofnana um samvinnu sem undirrita hann. Samningurinn skal liggja frammi til aðildar af hálfu sérhvers ríkis eða svæðisstofnunar um samvinnu sem ekki hefur undirritað hann.

44. gr.

Svæðisstofnanir um samvinnu.

1. „Svæðisstofnun um samvinnu“ merkir stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði koma á fót og hefur valdbærni, sem aðildarríki hennar veita henni, til að fara með málefni sem samningur þessi fjallar um. Svæðisstofnanir um samvinnu skulu greina, í skjölum sínum um formlega staðfestingu eða aðild, frá valdmörkum sínum með tilliti til mála sem samningur þessi fjallar um. Þær skulu síðar meir tilkynna vörsluaðila um hverja þá breytingu sem verða kann á umboði þeirra og skiptir máli.

2. Vísanir til „aðildarríkja“ í samningi þessum eiga við fyrrnefndar stofnanir eins langt og valdsvið þeirra nær.

3. Að því er varðar 1. mgr. 45. gr. og 2. og 3. mgr. 47. gr. samnings þessa skal eigi telja með skjöl sem svæðisstofnun um samvinnu afhendir til vörslu.

4. Svæðisstofnanir um samvinnu geta, í málum sem eru á valdsviði þeirra, neytt atkvæðisréttar á þingi aðildarríkja með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að samningi þessum, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir atkvæðisréttar síns og öfugt.

45. gr.

Gildistaka.

1. Samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta skjalið um fullgildingu eða aðild hefur verið afhent til vörslu.

2. Gagnvart sérhverju ríki eða svæðisstofnun um samvinnu, sem fullgildir samning þennan, staðfestir hann formlega eða gerist aðili að honum eftir afhendingu tuttugasta skjalsins um slíka athöfn til vörslu, skal samningurinn öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki eða slík stofnun hefur afhent viðkomandi skjal sitt til vörslu.

46. gr.

Fyrirvarar.

1. Óheimilt er að gera fyrirvara sem eru í ósamræmi við markmið og tilgang samnings þessa.
2. Heimilt er að draga fyrirvara til baka hvenær sem er.

47. gr.

Breytingar.

1. Sérhvert aðildarríki getur lagt fram breytingartillögu við samning þennan og sent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda aðildarríkjunum allar breytingartillögur, ásamt beiðni um að sér verði tilkynnt hvort þau séu því meðmælt að haldið verði þing aðildarríkja í því skyni að fjalla um þær og afgreiða. Komi í ljós, innan fjögurra mánaða frá því að aðalframkvæmdastjórinn sendir fyrrnefndar tillögur, að minnst þriðjungur aðildarríkjanna sé meðmæltur þinghaldi skal aðalframkvæmdastjórinn kalla þingið saman á vegum Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sérhverja breytingartillögu, sem er samþykkt með tveimur þriðju hluta atkvæða fulltrúa þeirra aðildarríkja sem eru viðstaddir og greiða atkvæði, til samþykktar og í framhaldi af því öllum aðildarríkjum til staðfestingar.

2. Breyting, sem er tekin upp og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda samningsríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt. Eftir það öðlast breytingin gildi gagnvart hvaða aðildarríki sem er á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um staðfestingu til vörslu. Breyting er aðeins bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana.

3. Breyting, sem er tekin upp og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar og varðar 34., 38., 39. og 40. gr. einvörðungu, skal, ákveði þing samningsaðila það einróma, öðlast gildi gagnvart öllum aðildarríkjum á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda aðildarríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt.

48. gr.

Úrsögn.

Aðildarríki getur sagt sig frá samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Úrsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.

49. gr.

Aðgengilegt snið.

Texti samnings þessa skal liggja frammi á aðgengilegu sniði.

50. gr.

Gildir textar.

Textar samnings þessa á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru jafngildir.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.