Skip to main content
AðgengiUmsögn

Stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

By 13. mars 2023No Comments

ÖBÍ réttindasamtök hafa bent á að við áætlanagerð og framkvæmd eigi að beita hugmyndafræði algildrar hönnunar og horfa fyrst til þarfa jaðarsettra hópa.

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála

ÖBÍ fagnar því að til standi að samhæfa og efla stefnumótun og áætlanagerð á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála.

Of mörg dæmi eru um að ábyrgðarsvið stofnana hins opinbera skarist án þess að brúað hafi verið á milli. Þá eru ýmis grá svæði þekkt milli málasviða ríkis og sveitarfélaga, sem bitnar einatt á almenningi og ekki síst þeim sem eru í viðkvæmustu stöðunni. Því væri eðlilegt og rétt að starfshópar og ráð sem eiga að gera tillögur að stefnum og aðgerðaráætlunum, sbr. 5. gr. séu ekki aðeins skipuð fulltrúum ríkis og sveitarfélaga heldur einnig almennings.

ÖBÍ réttindasamtök hafa bent á að við áætlanagerð og framkvæmd eigi að beita hugmyndafræði algildrar hönnunar og horfa fyrst til þarfa jaðarsettra hópa. Við það munu kerfin þjóna betur tilgangi sínum og nýtast öllum almenningi frá upphafi. Það er kostnaðarsamt og erfitt að reyna að laga eftir á það sem ekki var gert í upphaflegum áætlunum.

Nú stendur yfir undirbúningur á lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk, en þar segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

ÖBÍ réttindasamtök leggja til við ráðherra að samtökin fái boð um að tilnefna fulltrúa í samgönguráð, byggðamálaráð og húsnæðis- og skipulagsráð.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl. 735. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 13. mars 2023