Skip to main content
AðgengiAtvinnumálHúsnæðismálMálefni barnaUmsögn

Sveitarstjórnarmál

By 4. janúar 2023janúar 6th, 2023No Comments

„Mikilvægt er að sveitarfélög veiti fötluðu fólki þá þjónustu sem þeim ber skylda til samkvæmt lögum svo fatlað fólk hafi tækifæri til að njóta sömu mannréttinda og aðrir íbúar sveitarfélaga.  Afar brýnt er að ríki og sveitarfélög leysi úr þeim ágreiningi sem ríkt hefur um kostnað vegna þjónustu við fatlað fólk“

 

Umsögn ÖBÍ um grænbók um sveitarstjórnarmál

Málefni sveitarfélaga eru eða eiga að vera málefni íbúa sveitarfélaga og áætlanir á sveitarstjórnarstiginu eiga ekki síst að fjalla um hvernig á best að hlúa að íbúum, koma til móts við réttindi þeirra og auka aðdráttarafl sveitarfélaga gagnvart almenningi.

 

Lögbundin og lögheimil verkefni sveitarfélaga

Fram kemur í grænbók um sveitarstjórnamál að víða er mikill skortur á sérfræðingum og mörg sveitarfélög kvarta undan sívaxandi kostnaðarsamri þjónustu við fatlað fólk. Sveitarfélögin verða að horfa til þess að um 15% mannskyns er með fötlun og þurfa því að gera ráð fyrir þeim fjölda inni í sínum áætlunum. Halli sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk er um 12-13 ma.kr.

Sveitarfélögin geta ekki fríað sig ábyrgð á lögbundnum verkefnum til að mynda að veita fötluðu fólki þjónustu í formi NPA samninga. Það að fatlaður einstaklingur fái viðeigandi aðstoð getur sparað sveitarfélaginu stórar upphæðir á móti þar sem viðkomandi verður virkari þátttakandi í samfélaginu. Biðlistar eru langir í úrræði fyrir fötluð börn og börn með raskanir og sveitarfélög telja nauðsynlegt að ríkið komi með virkari hætti að málefnum þessara barna. Sveitarfélögin mega gera ráð fyrir því að þau börn í sveitarfélaginu sem eru með umönnunargreiðslur munu að öllu jöfnu þurfa einhverja aðstoð sveitarfélagsins þegar þau verða fullorðin, til að mynda vegna félagslegs húsnæðis.

Mikilvægt er að sveitarfélög veiti fötluðu fólki þá þjónustu sem þeim ber skylda til lögum samkvæmt svo fatlað fólk hafi tækifæri til að njóta sömu mannréttinda og aðrir íbúar sveitarfélaga.  Afar brýnt er að ríki og sveitarfélög leysi úr þeim ágreiningi sem ríkt hefur um kostnað vegna þjónustu við fatlað fólk.

Sveitarfélögum ber að tryggja framboð af félagslegu húsnæði fyrir það fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði á annan hátt, meðal annars vegna lágra launa og félagslegra aðstæðna.

Mörg sveitarfélög hafa ekki uppfært tekju- og eignarviðmið er varðar sérstakan húsnæðisstuðning. Ráðuneytið gefur út leiðbeinandi reglur en fæst sveitarfélög fara eftir þeim viðmiðum.

Mikilvægt er að sveitarfélögin grípi það fólk sem er heimilislaust. Það verða fleiri sveitarfélög en Reykjavíkurborg að koma að þeim málaflokki.

Nauðsynlegt er að bæta samgöngur sveitarfélaga svo að allir íbúar þess geti farið um á eigin forsendum og þurfi ekki að upplifa hindranir vegna innviða. Strætisvagnar eru langflestir óaðgengilegir hreyfihömluðu fólki og samkvæmt nýrri úttekt ÖBÍ eru biðstöðvar meira og minna óaðgengilegar.

Akstursþjónusta fatlaðra er hugsuð sem ígildi strætó fyrir fólk sem getur ekki nýtt sér almenningssamgöngur og hefur ekki bíl til umráða. Þjónustan á að vera sambærileg við strætó og kosta álíka mikið og strætómiði. Það er ekki svo gott í reynd. ÖBÍ kom því til leiðar að starfshópur endurskoðaði leiðbeinandi reglur um akstursþjónustu við fatlað fólk og áttu sveitarfélög landsins að endurskoða reglur sínar með hliðsjón af þeim fyrir lok október 2020, og á tveggja ára fresti upp frá því[3]. Enn hefur að því er virðist ekkert sveitarfélag endurskoðað reglur sínar og þurfa notendur víða enn að búa við þjónustutakmarkanir sem standast ekki ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Aðgengismál þurfa að vera í góðu horfi, ekki aðeins vegna þarfa fatlaðs fólks, heldur vegna þess að gott aðgengi gagnast öllum. Eftirlit og leyfisveitingar til byggingar á nýju húsnæði þarf að vera öflugt til að tryggja það að húsnæði og önnur mannvirki séu aðgengileg öllum til framtíðar og ekki síst með hliðsjón af öldrun þjóðarinnar. Sveitarfélög sem hafa að undanförnu skipað aðgengisfulltrúa þurfa að styðja við starf þeirra og skýra umboð.

 

Atvinnu og byggðamál

Stjórnvöld leggja áherslu á óstaðbundin störf og því er mikilvægt að möguleikar til fjarvinnu séu auknir á landsbyggðinni. Það myndi að öllum líkindum leiða til aukinnar atvinnuþátttöku fatlaðs fólks í öllum sveitarfélögum. Fólk með skerta starfsgetu á sumt erfitt með að stunda vinnu vegna aðstæðna á vinnustað eða vegna þess að of mikil orka fer í að ferðast til og frá vinnustað.

Það var reynsla margra með skerta starfsgetu að þeir áttu auðveldara með að leggja stund á vinnu þegar vinnustaðir sýndu meiri sveigjanleika í formi fjarvinnu á meðan Covid faraldurinn stóð sem hæst. Margir gátu jafnvel aukið við sig vinnu þegar hægt var að vinna heima, í aðstæðum sem hentuðu þeim betur.

 

Stafræn umbreyting

Sjálfsagt er að sveitarfélög bæti rafræna þjónustu en mikilvægt er að fólk geti áfram sótt sér þjónustu með öðrum hætti. Margir geta illa eða ekki rekið sín erindi á netinu og svo er hópur sem fær einfaldlega ekki rafræn skilríki og er þannig útilokaður frá því að nálgast t.d. banka- og heilbrigðisþjónustu sem stendur öðrum til boða. Lausn hefur enn ekki fundist á þessum vanda  þó svo að nýkynnt umboðsmannakerfi muni leysa einhvern vanda.

Ekkert um okkur án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Valdís Ösp Árnadóttir
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Umsögn ÖBÍ 4. janúar 2023. Grænbók um sveitarstjórnarmál. Mál nr. 229/2022. Innviðaráðuneytið. Sjá nánar á Samráðsgátt stjórnvalda