Skip to main content
Málefni barnaMenntamálUmsögn

Þjónustustofnun á sviði menntamála

By 8. mars 2023mars 9th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um frumvarp til laga um þjónustustofnun á sviði menntamála.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) styðja frumvarp til laga um þjónustustofnun á sviði menntamála þar sem í frumvarpinu er lagt til að [x] fái sérstakt hlutverk við að styðja og efla skólastarf enda mikilvægt að styrkja og samræma skólaþjónustu í leik-, grunn- og framhaldsskólum um land allt.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Mikil þörf er á umbótum á landsvísu á framkvæmd skólaþjónustu á öllum skólastigum. Nauðsynlegt er að gera úrbætur á því misræmi sem hefur verið á milli sveitarfélaga hvað varðar aðgengi barna að þjónustu. Til að tryggja jafnræði í aðgengi að þjónustunni er nauðsynlegt að leggja áherslu á faglegan stuðning á öllum skólastigum óháð búsetu.

Auka verður innan skólakerfisins fjölbreyttar starfsstéttir og sérstaklega verður að gæta að hópum barna og ungmenna sem þurfa sérstakan stuðning, t.d. vegna fötlunar. ÖBÍ – réttindasamtök fagna því að fyrirhugað sé að ráðast í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð sem tekur mið að ólíkum þörfum nemenda.

Málefni fatlaðra barna jafnt og ófatlaðra barna eru mikilvæg og því fagnar ÖBÍ allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld allra barna.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ – réttindasamtaka

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ- réttindasamtaka


Mál nr. 38/2023. Mennta- og barnamálaráðuneytið. 
Frumvarp til laga um þjónustustofnun á sviði menntamála [Drög að frumvarpi til laga].
Umsögn ÖBÍ, 8. mars 2023