Skip to main content
AðgengiFlóttafólk og innflytjendurHúsnæðismálUmsögn

Tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi

By 16. maí 2023júní 19th, 2024No Comments

„ÖBÍ leggst gegn því að frumvarp þetta verði að lögum í núverandi mynd“ • „Sparnaður og hröð vinnubrögð réttlætir ekki óskýrar undanþáguheimildir frá skipulags- og byggingarlöggjöf á kostnað öryggis jaðarsettra einstaklinga.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tímabundinna undanþágna frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi, þskj. 1637, mál 1028.

ÖBÍ – réttindasamtök telja mikilvægt að stjórnvöld skapi sér skýra framtíðarsýn í húsnæðismálum jaðarsetts fólks. Uppsöfnuð íbúðaþörf á Íslandi bitnar verst á þeim sem standa hvað höllustum fæti og því fagnaðarefni að upplifa að stjórnsýslan getur brugðist skjótt við og breytt löggjöf og heimildum til að leysa úr brýnum vanda jaðarsettra hópa.

Í frumvarpinu er slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans veitt víðtæk heimild og aðgengi að íbúðarhúsnæði á undanþágu til skoðunar og eftirlits. Sú heimild er til bóta og brýn þörf er á samskonar heimild við eftirlit á öllum íbúðum, herbergjum eða kolageymslum sem eru til útleigu.

Markmiðið helgar ekki alltaf meðalið og brýnt að vanda vel til verka svo ný lög og reglugerðir valdi ekki auknum skaða. ÖBÍ vill því koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

1.
Breytingartillögur þær sem eru kynntar í frumvarpinu lúta að undanþágum á ýmsum lögum og veita ákveðnar bráðabirgðarheimildir sem óljóst er hvernig munu virka í reynd. Þversagnir eru algeng sjón í frumvarpinu en lesa má að framkvæmdarvaldið ætli að veita undanþágur frá kröfum um brunavarnir, mengunarvarnir auk laga um hollustuhætti en jafnframt tryggja ákveðna grundvallar vernd. Í 1. gr. í lögum um brunavarnir segir að „markmið laga þessara er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.“

Því er þörf á frekari útlistun um hvaða lagagreinar og reglur mega víkja án þess að eldvarnaröryggi sé ófullnægjandi þar sem lífi íbúa er stefnt í voða. Verulegur skortur er á skýrum viðmiðum um hversu umfangsmikil ein undanþága má vera og hvort það sé hámarksfjöldi undanþága frá reglum og lögum fyrir hvert húsnæði. Í því ljósi telur ÖBÍ það óásættanlega stjórnsýslu að fela ráðherra heimild til að útfæra frekari útfærslu á ákvæðum og reglum síðar, þegar umfang og viðmið frumvarpsins eru jafn óskýr og raun ber vitni. Reynslan sýnir að undanþágur eru alltaf varasamar og bráðabirgðaheimildir eru yfirleitt komnar til að vera.

2.
Húsnæðismál eru í lamasessi og það þarf að fara í gríðarmiklar framkvæmdir á komandi árum til að leysa húsnæðisvanda jaðarhópa eins og flóttafólks, hælisleitenda, fatlaðs fólks, farandverkamanna, og nýbúa. Þá þarf fólk að gera sér að góðu heilsuspillandi vistarverur sem eru ekki fólki bjóðandi eins og nýleg umfjöllun Kveiks opinberaði. Sá vandi hefur verið viðvarandi um árabil þrátt fyrir núgildandi lög og reglur um brunavarnir, mengunarvarnir auk laga um hollustuhætti. Því skýtur það skökku við að stjórnvöld telji nú brýnt að gefa afslátt af þeim varnöglum sem í gildi eru, sem veita þó takmarkað skjól þegar á reynir.

Eftirliti er þegar mjög ábótavant og kerfið er úrræðalítið gagnvart brotum á ákvæðum laga um mannvirki og brunavarnir. Eins og kemur fram í nýrri skýrslu um brunavarnir í íbúðum er töluvert um að íbúðarhúsnæði sé tekið í notkun án þess að fram hafi farið öryggisúttekt og þörf sé á endurskoðun viðurlagaheimilda eftirlitsaðila, þ.e. byggingarfulltrúa og slökkviliðs enda hafa sektarheimildir ekki dugað til að knýja fram úrbætur eða nýst í forvarnarskyni. Ekki er ljóst hvaða eftirliti skyldi háttað með því húnsnæði sem hér um ræðir, hver eigi að sinna því né hvernig eigi framfylgja lögum með undanþáguheimildir.

3.
Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur og virkur þátttakandi í alheimssamfélaginu. Stríð og hamfarir bitnar illa á almennum borgurum og þá sérstaklega fötluðu fólki sem á erfiðara með að finna sér öruggt skjól. Mikilvægt er að huga vel að fötluðu fólki á flótta, tryggja því aðgengilegt umhverfi svo það geti athafnað sig, komist inn og út úr herbergi sínu og inn og út úr íbúðarhúsnæði. Í frumvarpinu er ekki eitt orð um fatlað fólk, aðgengi né hvort þessum hópi verði úthýst í óviðunandi aðstæður eður ei. Slíkt gengur í berhögg við markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að fylgja eftir og vinna jafnframt að lögfestingu samningsinns inn í íslenska löggjöf.

4.
Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að hér sé verið að veita leyfi til að búa til gettó fyrir viðkvæma hópa í biðstöðu. Í frumvarpinu kemur fram að ef nýta á húsnæðið lengur en 1,5 ár sem búsetuúrræði fyrir flóttafólk verður að sækja um leyfi til að breyta notkun húsnæðisins svo að það verði tilbúið í síðasta lagi 3,5 árum eftir að það er tekið í notkun. Við hvaða aðstæður þarf fólkið að búa fyrstu árin ef húsnæðið mætir ekki viðeigandi öryggiskröfum? Það hlýtur að vera vægast sagt vafasamt að úthluta íbúðum til fólks í viðkvæmri stöðu sem tvísýnt er að muni standast úttekt að 1,5 ári liðnu.

Gert er ráð fyrir að ríkið innrétti húsnæðið sem íbúðir en þurfi ekki að breyta því til baka þegar eignin verður seld óháð því hvort eignin standist lög og reglur um brunavarnir, mengunarvarnir auk laga um hollustuhætti. Alveg er óljóst hvað verður um húsnæðið að þessum tíma liðnum og hvort eigandi húseignarinnar hafi þá heimild til að leigja hana áfram sem íbúðarhúsnæði til annara í viðkvæmri stöðu. Það getur ekki verið tilgangur frumvarpsins.

Í dag má finna fjölmörg dæmi um að fólk neyðist til að flytja inn í heilsuspillandi og ósamþykktar íbúðir, þrátt fyrir núgildandi lög og reglur sem eiga að vernda fólk frá slíku. Ef framkvæmdarvaldið er ófært um að vernda jaðarsett fólk sem býr í dag við óviðunandi aðstæður þá mun fyrirhuguð sala ríkisins á ósamþykktum íbúðum einungis auka þann vanda sem er nú til staðar.

5.
ÖBÍ – réttindasamtök telja að samráðsskylda stjórnvalda hafi ekki verið virt við gerð frumvarpsins. ÖBÍ var ekki boðið aðkoma að málinu á fyrri stigum né óskað eftir umsögn frá ÖBÍ um frumvarpið. Mikilvægt er að stjórnsýslan sýni frumkvæði að víðtæku samráði við fulltrúa jaðarhópa, sérstaklega í málum sem snúa að lífsöryggi og krefjast hraðrar afgreiðslu.

Hröð vinnubrögð og skortur á víðtæku samráði einkenna frumvarpið, sem sjá má í ýmsum þversögnum. Skortur er á skýru verklagi og framsýni varðandi þær afleiðingar sem frumvarpið kynni að hafa í för með sér.

6.
ÖBÍ leggst gegn því að frumvarp þetta verði að lögum í núverandi mynd. ÖBÍ hefur skilning á að vandinn er brýnn og að viðbrögð við honum innan núgildandi laga fylgi ákveðinn kostnaður. Sparnaður og hröð vinnubrögð réttlætir ekki óskýrar undanþáguheimildir frá skipulags- og byggingarlöggjöf á kostnað öryggis jaðarsettra einstaklinga.

Aukin eftirlitsheimild slökkviliðsstjóra og eftirlitsmanna hans að íbúðarhúsnæði er til fyrirmyndar. ÖBÍ leggur til að stjórnvöld aðlagi þessa auknu eftirlitsheimild inn í almenn lög um; brunavarnir, mengunarvarnir, hollustuhætti og húsaleigu.

Að auki leggur ÖBÍ til að slökkviliðinu verði falið aðgengiseftirlit í húsnæði ætluðu almenningi til að tryggja jafnt aðgengi fatlaðs fólks í samræmi við markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Guðjón Sigurðsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi. 1028 mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ 16. maí 2023