Skip to main content
Umsögn

335. mál. Tekjuskattur (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu). 26. nóvember 2018

By 20. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefniAlþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
 

Reykjavík, 26. nóvember 2018

Efni:  Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu), þingskjal 403 –335. mál. 

ÖBÍ styður og leggur áherslu á að frumvarp um að uppbætur á lífeyri verði undanþegnar skattskyldu verði að lögum. 

ÖBÍ gerir engar efnislegar athugasemdir við frumvarpið, en til að skýra betur mikilvægi þess að uppbót á lífeyri [1] og uppbót vegna reksturs bifreiðar verði skattfrjáls eru sett fram nokkur dæmi frá örorkulífeyrisþegum sem leitað hafa til ÖBÍ.

Dæmi a) Samspil uppbótar á lífeyri við fjárhagsaðstoð sveitarfélags.
Anna er með 75% örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) en vegna fyrri búsetu erlendis fær hún greitt 28% af örorkulífeyri og tengdum greiðslum. Mánaðarlegar greiðslur TR til hennar árið 2017 voru 111.313 kr. á mánuði (fyrir skatt). Anna fær viðbót hjá sveitarfélaginu til að ná upp í grunnfjárhæð sveitarfélagsins (155.774 kr. fyrir skatt). 

Anna fær 6.428 kr. á mánuði frá TR í uppbót vegna lyfjakostnaðar frá TR. Greiðsla uppbótarinnar hefur í för með sér að fjárhagsaðstoð til hennar lækkar um sömu krónutölu, eða 6.428 kr. Heildartekjur hennar eru því þær sömu (155.774 kr. á mánuði) með og án uppbótar vegna lyfjakostnaðar. Útborgað er Anna með 152.126 kr. á mánuði.  Allar skattskyldar greiðslur lækka fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Sökum þess að uppbót er skattskyld nær hún ekki tilgangi sínum, þ.e. að bæta þeim sem hana fá greidda kostnað, eins og í tilviki Önnu vegna lyfjakaupa. Ef uppbótin væri óskattskyld kæmi hún ekki til frádráttar við útreikning fjárhagsaðstoðar.

Dæmi b) Samspil uppbótar vegna reksturs bifreiðar og húsnæðisstuðnings til  leigjenda.
Jón býr einn og er með heildartekjur að upphæð 300 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt (280 þúsund kr. frá TR og 20 þúsund kr. frá lífeyrissjóði). Sökum hreyfihömlunar fær Jón einnig uppbót vegna reksturs bifreiðar að upphæð 16.583 kr. á mánuði. Jón leigir á almennum markaði fyrir 200 þúsund kr. á mánuði. Allar skattskyldar greiðslur umfram frítekjumörk skerða húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning.
Án uppbótarinnar fengi Jón 64.920 kr. í samanlagðan húsnæðisstuðning eða 32.460 kr. í húsnæðisbætur og 32.460 kr. í sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg. Með uppbót vegna reksturs bifreiðar teljast heildartekjur Jóns vera 316.583 kr. fyrir skatt. Sökum þess að uppbótin er skattskyld lækka húsnæðisbætur hans um 1.323 kr. og sérstakur húsnæðisstuðningur um 7.388 kr. Af 16.583 kr. uppbót greiðir Jón 6.126 kr. í tekjuskatt auk þess sem samanlagður húsnæðisstuðningur hans lækkar um 8.711 kr.
 
Skerðingar og skattar af 16.583 kr. eru 14.837 kr. Uppbótin bætir því stöðu hans um 1.746 kr.

Uppbætur þær sem frumvarpið tekur til skerða einnig barnabætur og vaxtabætur, sökum þess að þær eru skattskyldar.

Í lögum um félagslega aðstoð er að finna uppbætur, sem heimilt er að veita lífeyrisþegum til að mæta kostnaði sem hlýst af sjúkdómum og fötlun. Á meðan uppbætur þessar eru skattskyldar, fá lífeyrisþegar ekki notið þeirra nema að litlu leyti. Afar mikilvægt er því að breyta tekjuskattslögum þannig að framangreindar uppbætur teljist ekki til skattskyldra tekna lífeyrisþega eins og dæmin að ofan sýna.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa mjög lítil áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Lagabreytingin myndi hins vegar bæta stöðu lífeyrisþega sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma. Alþingi allt hvet ég til góðra verka og það, að bæta kjör fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega, sem er það fólk sem lægstar tekjur hefur í okkar samfélagi, er gott verk. 

 
Ekkert um okkur án okkar.
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ

[1] Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar. Uppbótin vegna lyfjakostnaðar er greidd vegna lyfjakostnaðar sem Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki og þarf að sýna fram á kostnað vegna lyfjakaupa til að fá uppbótina greidda. Uppbótin er einnig heimilt að greiða vegna kaupa á heyrnartæki, umönnunarkostnaðar, húsaleigukostnaðar sem fellur utan húsnæðisbóta, rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíu og vistunarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangaheimilum. Uppbót á lífeyri er aldrei greidd til lífeyrisþega með tekjur yfir 2.827.779 kr. eða eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. á ári. 


Umsögnin á vef Alþingis