Skip to main content
Umsögn

84. mál. Tekjuskattur (afnám rúmmálsreglu og frístundahúsnæði). 27. mars 2019

By 13. maí 2019No Comments
Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 27. mars 2019
 
Umsögn ÖBÍ um „frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (afnám rúmmálsreglu og frístundahúsnæði)“, á þingskjali 84 – 84. mál.
Öryrkjabandalag Íslands áttar sig ekki almennilega á tilgangi þessa frumvarps nema að ætlunin sé sú að lækka skattbyrði tekjuhárra og þeirra sem eiga miklar eignir. Virðist tilgangur frumvarpsins þannig vera þvert á vilja meginþorra landsmanna og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta á þá tekjulægstu.
 
Eins og segir í frumvarpinu má gera ráð fyrir að rúmmálsreglunni hafi verið komið á til að jafna stöðu eignalítilla og þeirra sem eiga meira. ÖBÍ telur að ekkert hafi breyst í samfélaginu sem kalli á það að sú stöðujöfnun eigi síður við í dag en áður. Hefur þvert á móti misskipting eigna aukist umtalsvert í samfélaginu á síðustu árum og því nær lagi að hækka fjármagnstekjuskatt heldur en að undanskilja hagnað af sölu stærri eigna og frístundahúsa fjármagnstekjuskatti.
 
Þegar kemur að eldri borgurum sem selja húseign sína til að lifa á söluandvirðinu er ljóst að rúmmálsreglan hefur engin áhrif þar á nema fasteignin sé þeim mun stærri. Verður ekki séð að sú skattheimta sem felst í skattlagningu söluhagnaðar í slíku dæmi hefði slík áhrif á eignastöðu þess aldraða að hann yrði öreigi á eftir.
 
Hvað varðar frístundahús telur ÖBÍ lítinn mun á tilgangi frumvarpsins, þ.e. hann er fyrst og fremst til að lækka skattbyrði þeirra eignameiri.
 
Sé flutningsmönnum frumvarpsins alvara þegar kemur að áhyggjum þeirra af lífeyrisþegum þá væri réttara að horfa til skerðingarreglna elli- og örorkulífeyris. Með því að undanskilja hagnað af sölu fasteigna frá tekjum sem skerða lífeyri mætti koma betur til móts við þann hóp sem er raunverulega að selja fasteign til að lifa af söluverðmætinu. Getur það bæði átt við um þá sem verða öryrkjar og eiga sumarbústað fyrir sem og eldriborgara sem eru að minnka við sig í fasteign.
 
Ekkert um okkur án okkar.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ