Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um loftferðir. 2020

By 16. nóvember 2020No Comments

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 16. nóvember 2020

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um loftferðir

Rétturinn til að ferðast og takmarkanir á honum

Í 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF,[1] segir:

Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi,

Í frumvarpi til laga um loftferðir[2] er þessi réttur staðfestur í 1. mgr. 205. gr. þar sem kemur fram að óheimilt er að synja fötluðum eða hreyfihömluðum einstaklingi um farskráningu í flug og að fara um borð í loftfar á flugvöllum innan EASA ríkjanna. Í 2. mgr. 205. gr. eru svo taldar upp undanþágurnar frá þessum meginkröfum, sem er þegar flugöryggiskröfur krefjast þess, eða „ef stærð loftfarsins eða dyr þess við för um borð í loftfarið og meðan á flutningi stendur koma í veg fyrir það.“

Það er rétt að árétta að skylda stjórnvalda og samfélagsins alls er að ryðja úr vegi öllum hindrunum sem koma í veg fyrir að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi til jafns við aðra. Stjórnvöld eiga að setja upp rammana fyrir það með lögum og reglum sem tryggja þennan rétt og ákvæðum sem gera þjónustuaðilum skylt að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks, með eins fáum undanþágum og mögulegt er og ráðstöfunum til að fækka þeim enn frekar innan tilgreinds tíma.

Mjög mikilvægt er að allar undanþágur sem gefa rekstaraðildum rúm til að fara á svig við að veita þá þjónustu sem fatlað fólk á rétt á séu vel skilgreindar og rökstuddar í regluverkinu. Hentisemisákvarðanir eru ekki boðlegar og þá verður innleiðing laganna að fela í sér tímasettan aðlögunartíma fyrir rekstraraðila. Ef flugvélar til farþegaflutninga eru í rekstri sem ekki geta flutt hreyfihamlað fólk, sem dæmi eru um hérlendis, þá þurfa að vera kvaðir á flugrekendum um að skipta þeim út fyrir vélar sem geta tekið alla farþega um borð og þau hjálpartæki sem geta fylgt þeim.

Í 4. mgr., 205. gr. segir að hægt sé að krefjast þess að fatlaður eða hreyfihamlaður einstaklingur verði að ferðast í fylgd með aðstoðarmanni eða öðrum einstaklingi sem getur veitt honum aðstoð, þegar flugöryggiskröfur krefjast þess. Aftur er það mjög brýnt að þær flugöryggiskröfur séu vel skilgreindar, þ.e. í hvaða aðstæðum þær eiga við og við hvaða einstaklinga þær geti átt. Margt fatlað eða hreyfihamlað fólk telur sig ekki þurfa aðstoð, auk þess sem það felur í sér talsverðan kostnað að ferðast um með aðstoðarmanni. Rétt er að einstaklingar beri ábyrgð á sjálfum sér og meti sjálfir hvort þeir þurfi að ferðast í fylgd með öðrum út frá skilgreindum meginreglum.

Aðstoð og þjónusta

Í 206. gr. segir að rekstaraðili flugvallar skuli veita fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingum aðstoð innan flugvallasvæðis án þess að greiða viðbótargjald. Það stendur ekkert um það hvaða þjónusta skuli vera veitt, hvernig eða af hverjum. Samkvæmt reglugerð nr. 475/2008 eiga starfsmenn samgöngumiðstöðva að fá þjálfun og vitneskju í þjónustu við fatlað fólk. Innleiðing þess ákvæðis hefur hingað til verið takmörkuð og þarf að uppfylla með skýrari hætti.

Aðgengi að upplýsingum

Í frumvarpinu eru sett fram ýmis ákvæði um upplýsingagjöf, sem er vel. Í 1. mgr. 202. gr. segir að „farþegum og einstaklingum sem hyggjast ferðast með flugi og farmflytjendum skulu veittar greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar um fyrirhugað flug,“ og í 3. mgr. að óheimilt sé „að mismuna viðskiptavinum við upplýsingagjöf eða aðgengi að farmiðum og farmiðaverði á grundvelli þjóðernis, búsetu eða staðsetnignar söluaðila.“ Hér þarf að bæta við „vegna fötlunar.“ Slíkt ákvæði er sett fram í 207. gr.

Hægt er að finna nokkrar upplýsingar um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra á heimasíðu Samgöngustofu[3], en það þarf að gera þær aðgengilegri. Fólk veit ekki endilega hvert á að leita og það væri æskilegt ef flugrekstraraðilar sendu upplýsingar til fólks sem pantar sér PRM þjónustu við staðfestingu á bókun.

Í upplýsingum þurfa að koma fram upplýsingar um réttindi farþega og sú þjónusta sem er veitt, en líka takmarkanir á réttindum og þjónustu. Ef samgöngumiðstöðvar, í þessu tilfelli flugvellir, eru ekki fyllilega aðgengilegir fyrir fatlað fólk þurfa aðgengilegar upplýsingar um það að liggja fyrir á þjónustusíðum.

Fatlað fólk er ólíklegra en aðrir til að nýta sér almenningssamgöngur vegna óvissu um sín réttindi og veitta þjónustu, en ekki síst vegna þess að það er brennt af fyrri reynslu. Þó að ýmislegt hafi batnað undanfarin misseri er margt sem enn þarf að laga varðandi flugsamgöngur. Fatlað fólk þarf oft að leggja út í mikinn aukakostnað, m.a. vegna aðstoðarfólks, flugrúta er hér óaðgengileg hreyfihömluðu fólki, salernin um borð í flugvélum eru einnig óaðgengileg, auk þess sem flugferðum fylgja ýmis óþægindi vegna ósveigjanleika í þjónustu.

Réttast væri að Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setti upp samgönguáætlun til að tryggja að allir geti komist sinnar leiðar með almenningssamgöngum. Það felur í sér að líta heildrænt á samgöngumáta; svo sem flug, almenningsvagna, akstursþjónustu fatlaðra, leigubíla, skip og báta, og hvernig kerfin skarast. Það felur í sér að eiga raunverulegt samtal við fólk með skerðingar og fatlanir um hvernig það upplifir þá þjónustu sem er veitt og hvernig hægt er að bæta hana til að koma til móts við þarfir þess. Þar má horfa til samgönguáætlunar[4] sem breska ríkisstjórnin hóf fyrir tveim árum.

Frekari útfærsla og samráð

Það þarf áfram að huga að ýmsu til að tryggja að réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólk til að ferðast með þeim hætti sem það vill og á rétt á og til að samfelld og góð þjónusta sé veitt.

Í 1. mgr. 209. gr. er ráðherra gefin heimild til að setja í reglugerðir nánari ákvæði meðal annars um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga og einstaklinga með sérþarfir. Ráðherra er eindregið hvattur til að nýta sér hana og eiga í þeirri vinnu náið samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks.

Orðið „samráð“ kemur fyrir 31 sinni í frumvarpinu, en við gerð þess var aldrei haft samband við ÖBÍ, þó svo að réttindi fatlaðs fólks séu þar nokkuð veigamikil. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. SRFF ber stjórnvöldum skylda til að eiga virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um öll þau mál sem varða hagsmuni þess. Sem eru öll mál.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ