Skip to main content
Umsögn

435. mál. Ófrjósemisaðgerðir. 14. janúar 2019

By 13. júní 2019No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
 
Reykjavík 14. janúar 2019
 
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir, 435. mál.
ÖBÍ fagnar því að lagt sé til að afnema heimildir í lögum til að framkvæma ófrjósemisaðgerðir á fötluðum einstaklingum og er það samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í samningnum er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til að halda frjósemi sinni til jafns við aðra. Slíkur réttur gildir jafnt fyrir ólögráða ungmenni sem og fullorðna einstaklinga.
 

Í greinagerð frumvarpsins kemur fram að á árunum 1998-2014 voru gerðar níu ófrjósemisaðgerðir á einstaklingum á aldrinum 15-18 ára þar sem umsókn var undirrituð af lögráðamanni. Af þessum níu voru átta stúlkur og einn piltur. Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu voru gerðar fimm ófrjósemisaðgerðir á börnum á tímabilinu 2013-2017, ein hjá pilti og fjórar hjá stúlkum.

ÖBÍ leggst gegn ófrjósemisaðgerðum á ólögráða einstaklingum. Nær væri að nota önnur úrræði eins og afturkræfa langtímagetnaðarvörn þar til einstaklingur verður lögráða og getur sjálfur tekið ákvörðun um frjósemi sína. Slíkt fellur undir 1. grein þessa frumvarps um að tryggja einstaklingum sjálfsforræði til ákvarðanatöku um ófrjósemisaðgerðir.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis