Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. 2020

By 22. maí 2020No Comments
Velferðarnefnd Alþingis
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 

Reykjavík, 18. maí 2020

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, þingskjal 1072 – 634. mál

Siðferðileg álitamál geta verið erfið viðureignar. Þegar talið berst að forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu er því næst ómögulegt að komast að niðurstöðu eins og vandamálið hefur gjarnan verið sett upp. Forstjóri Landspítalans hefur spurt hvernig eigi að velja þegar fjármagn spítalans nægir annað hvort til að lengja líf dauðvona móður á besta aldri um nokkra mánuði eða bæta heilsu og lífsgæði hóps fólks á áttræðisaldri. Valkostirnir eru slæmir og eru dæmi um það sem heilbrigðisyfirvöld geta þurft að standa frammi fyrir þegar fjármagnið hrekkur ekki til þess að veita eðlilega og nauðsynlega þjónustu.

Nú erum við í miðjum heimsfaraldri og þá reynir á forgangsröðunina þegar álagið á kerfið er gríðarlegt og fjárhirslurnar tæmast. Við sjáum dæmi um það frá öðrum löndum að fötluðu fólki hefur verið kerfisbundið synjað um meðferð vegna Covid-19 sjúkdómsins.

Þá sjáum við að við þessar aðstæður minnkar önnur meðferð eða hættir. Við eigum enn eftir að sjá afleiðingar þess á heilsu fatlaðs og langveiks fólks.

Eins og kemur fram í greinargóðri umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um þingsályktunina er bannað að mismuna fólki á grundvelli fötlunar. Fatlað fólk á að njóta sömu réttinda og aðrir samfélagsþegnar og eiga stjórnvöld að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, sbr. 11. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Besta leiðin til að þurfa síður að velja milli fólks og forgangsraða í heilbrigðisþjónustu er að athuga annars vegar hvort hægt sé að hækka fjármagnið eða leita leiða til að nýta það betur.

Heilbrigðiskerfið hefur verið svelt um mjög langt skeið og þrátt fyrir að hækkanir hafi sést á fjárlögum undanfarið er langt í frá að nóg sé gert og ekki þarf stóra skelli til að það riði til.

Þá er spurningin hvort ekki sé hægt að nýta fjármagnið betur. Heilbrigðiskerfið okkar er viðbragðsdrifið og byggist frekar á að plástra heldur en fyrirbyggja. Nú liggur fyrir endurhæfingaráætlun sem meðal annars sýnir fram á að hver króna sem varið er í endurhæfingu skili sér áttfalt tilbaka. Það væri óskandi að okkur bæri gæfa til að innleiða markvisst endurhæfingarkerfi í heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem myndi ekki aðeins fela í sér sparnað heldur einnig auka heilbrigði og virkni landsmanna. Það myndi minnka álagið á heilbrigðiskerfið, stytta biðlista og stuðla að því að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og á réttum tíma.

Þannig munum við að síður standa frammi fyrir því erfiða vali að þurfa að forgangsraða í heilbrigðisþjónustu.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Emil Thoroddsen
formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál