Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ við frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45-2015

By 15. maí 2020No Comments
Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6

105 Reykjavík

Reykjavík, 27. febrúar 2020

Efni: Umsögn ÖBÍ við frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015.

Vísað er til ofangreinds frumvarps. ÖBÍ telur frumvarpið almennt vera til bóta og fela í sér jákvæðar breytingar og ÖBÍ tekur undir tillögurnar að mestu leyti eins og þær liggja fyrir. Þó vill ÖBÍ koma að eftirfarandi athugasemdum:

Takmörkun vegna eigin sakar.
ÖBÍ telur verulega ósanngjarnt og í andstöðu við tilgang almannatrygginga (þ.e. bætur úr opinberum sjóðum hvað sem þær kallast) að skerða réttindi vegna eigin sakar. Hér er verið að beita reglum og sjónarmiðum skaðabóta- og vátryggingaréttar sem eiga ekki við um opinber réttindi. ÖBÍ telur raunar að farið sé inn á mjög varasamar slóðir ef opinber aðstoð er háð því að einstaklingur hafi ekki valdið sér ástandinu sjálfu. Fullyrða má að það sé meginregla íslensks réttar að borgararnir eigi rétt á þjónustu og aðstoð frá opinberum aðilum án þess að litið sé til þess hvort borgarinn eigi sök á eða „beri ábyrgð á“ ástandi sínu. Þessi meginregla er gegnum gangandi í þeim lögum sem mæla fyrir um aðstoð, t.d. greiðslur almannatrygginga vegna örorku, greiðslur vegna atvinnuleysis, aðstoð á heilbrigðisstofnunum vegna sjúkdóma, slysa o.s.frv.

Slysahugtakið.
Ljóst er að frumvarpinu er ætlað að gera breytingar á slysahugtaki laganna þannig að það nái yfir fleiri tilvik og ÖBÍ tekur heilshugar undir þá breytingu. Aftur á móti virðist sem nánari umfjöllun um hugtakið í athugasemdum frumvarpsins sé ekki að öllu leyti í samræmi við þá breytingu sem gera á. Er hér átt við umfjöllun um það að ekki sé um að ræða slys þegar „einstaklingur t.d. misstígur sig eða fær verk í bak án þess að til komi eitthvert atvik, skyndilegt og óvænt, sem orsakar það“.

Lagatextinn mun að sjálfsögðu ganga framar en þegar upp koma vafatilvik er litið til lögskýringargagna. Þá gæti umfjöllun í lögskýringargögnum villt fyrir og mögulega leitt til túlkunar sem virðist í andstöðu við tilgang lagabreytinganna.

Atvinnusjúkdómur.
Sú breyting að atvinnusjúkdómar falli undir lögin er bæði eðlileg og sanngjörn. ÖBÍ telur þó óþarft að setja reglugerð þar sem taldir verða upp þeir sjúkdómar sem falla undir lögin. Réttara er að líta einfaldlega svo á að allir atvinnusjúkdómar falli undir lögin. Upptalning í reglugerð verður aldrei tæmandi og nánast óhjákvæmilegt að einhver atvinnusjúkdómur verði undanskilinn (hvort sem það er gert viljandi eða ekki). Verður ekki séð að það samrýmist markmiði laganna og jafnræðisreglu að einhverjir atvinnusjúkdómar verði undanskildir þar sem þeir hafi ekki verið tilgreindir í reglugerð. Verði reglugerðin engu að síður sett er rétt að skýrt komi fram í henni að hún sé til viðmiðunar, þ.e. til einföldunar við úrlausn einstakra mála, og að upptalningin sé ekki tæmandi talning allra atvinnusjúkdóma.

Íþróttaiðkun einungis hjá formbundnum félögum.
Ætlunin er að þrengja gildissvið slysatryggingarinnar þannig að með reglugerð megi ákveða að hún nái einungis yfir íþróttaiðkun sem stunduð er hjá formbundnum íþróttafélögum sem eru aðilar að tilteknum íþróttasamböndum. ÖBÍ sér ekki röksemdir að baki þessari takmörkun og telja að hún samrýmist ekki markmiði og tilgangi laganna. Takmörkunin er nú til staðar í 1. gr. reglugerðar nr. 245/2002, um slysatryggingar íþróttafólks. Með frumvarpinu er ætlað að veita reglugerðarákvæðinu skýrari lagastoð og má því deila um að núverandi fyrirkomulag standist lögmætisreglu.

Í athugasemdum er ekki útskýrt af hverju slys við aðra íþróttaiðkun fellur utan við slysatrygginguna. Þyrfti að færa skýr rök fyrir því að mismuna fólki sem sannanlega slasast við íþróttaiðkun. Það segir ekkert um slysi eða afleiðingar þeirra að þau hafi átt sér stað við iðkun innan eða utan formbundinna félaga. Afleiðingarnar fyrir einstaklinginn eiga að vera það sem skiptir máli.

Takmarkanir sem gera á með breytingum á 10. gr. laganna.
Ætlunin er að fella brott c. lið 3. tölul. 1. mgr. laganna og þar með þau réttindi sem veitt eru með ákvæðinu. Í athugasemdum er þetta einungis rökstutt með þeim hætti að greinin hafi haft afar takmarkað gildi, þ.e. náð til fárra tilvika. Verður ekki séð að þörf sé á því að fella heimildina alveg úr gildi enda veitir hún réttindi til greiðslu ferðakostnaðar sem óþarfi er að fella niður.

Að lokum er bent á mikilvægi þess að lögfesta sem fyrst Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið skýrt á um að hann muni ekki beita Samningnum, hvorki beint né óbeint, fyrr en hann hefur verið lögfestur.

Ekkert um okkur án okkar.

Virðingarfyllst
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ