Skip to main content
AðgengiAlmannatryggingarUmsögnUngÖBÍ

Umsögn UngÖBÍ: Fjárlög 2025

By 1. október 2024No Comments

Ungt fatlað fólk í dag hefur færri námstækifæri og færri tækifæri til atvinnuþátttöku en ófatlaðir jafnaldrar þeirra, þrátt fyrir að mæta öllum hæfniskröfum í starfs- og námslýsingu. Sá hópur er einnig líklegra til að vera félagslega einangraður enda gerir samfélagið ekki ráð fyrir að ungt fatlað fólk fari mikið út úr húsi.

Aðgerðaáætlanir, reglugerðir og lög sem tryggja jafnt aðgengi fatlaðs fólks að almennum mannréttindum eru frábær framfaraskref, en reynslan hefur sýnt að ófjármagnaðar aðgerðir enda með áralöngum óvissuferðum á biðlistum hins opinbera. UngÖBÍ vill því koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Inngilding allra að samfélaginu

Ungt fatlað fólk vill búa við sömu þátttökumöguleika og ófatlaðir félagar sínir, þar sem fregnir af samfélagslegum hindrunum fatlaðs fólks heyrir til undantekninga en er ekki „normið“. Í inngildandi samfélagi er horfið frá hugmyndum um „venjulegar“ aðstæður fyrir suma og lélegum sérlausnum fyrir alla hina. Þess í stað eru skilyrði allra til þátttöku bætt og ávallt er hugað að fjölbreyttum aðgengisþörfum einstaklinga að samfélagslegum gæðum. Þá er vert að benda á að bætt aðgengi og inngilding allra að samfélaginu einskorðast ekki sem mannréttindamál fatlaðs fólks heldur er það ávinningur fyrir alla og jafnframt fjárhagslega hagkvæmt fyrir samfélagið. Rampar geta líka nýst foreldrum með barnavagna, textun getur hjálpað fólki með erlendan bakgrunn að læra íslensku og eldra fólk mun geta lifað sjálfstæðu lífi í aðgengilegu húsnæði með aðgengilegum verslunum og þjónustu, svo fátt eitt sé nefnt.

Aðgengilegt húsnæði og fjármagnaðar aðgerðir

Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki og vont versnandi fer þegar leitað er eftir aðgengilegum atvinnuhúsnæðum. Óaðgengileg hönnun húsnæðis og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks um að komast í örugga búsetu, atvinnuþáttöku, aðgengi að þjónustu og þáttöku í samfélaginu.

Á seinasta vorþingi samþykkti Alþingi umfangsmiklar kerfisbreytingar á almannatryggingakerfinu, með sameiningu greiðsluflokka og áformum um aukna þáttöku fatlaðs fólks á vinnumarkaði með innleiðingu hlutaörorku. Að mati UngÖBÍ skýtur það því skökku við að ekki er gert ráð fyrir fjármögnun vegna aðlögunar á atvinnuhúsnæði í fjárlagafrumvarpi 2025. Hér er sóknarfæri fyrir fjárlaganefnd til að sýna gott fordæmi og hafa áhrif á bætt aðgengi fatlaðs fólks að atvinnulífinu, bæði sem starfsmenn en einnig sem neytendur þjónustu.

UngÖBÍ leggur til að fjárlaganefnd tryggi fjármagn fyrir aðgengis aðlögun á vinnustöðum fyrir gildistöku breytinga almannatrygginga kerfisins 1. september 2025 og hugi jafnframt að varanlegum aðgengislausnum fyrir fatlað starfsfólk og fatlaða viðskiptavini.

Þá leggur UngÖBÍ að styrkveiting til einkaaðila vegna framkvæmda á aðgengislausnum í atvinnuhúsnæði verði háð skilyrðum og að tekið verði tillit til aðstæðna lítilla og meðalstórra fyrirtækja við forgangsröðun úthlutunina.

UngÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Eiður Welding
formaður UngÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Fjárlög 2025
1. mál, lagafrumvarp.
Umsögn UngÖBÍ, 1. október 2024.