Skip to main content
ÚtgáfaViðtal

„Það er mér eðlislægt að vera í listum“

By 1. október 2021október 4th, 2022No Comments
Maðurinn hefur ríka þörf fyrir að skilgreina og flokka alla hluti. Það er verðmætur eiginleiki þegar um er að ræða plöntur eða steintegundir en á alls ekki við þegar kemur að lifandi verum. Þeim ætti ævinlega að mæta í þeirri fullvissu að um sé að ræða einstakling, einstakt eintak. Sú lýsing á einmitt vel við Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur en hún hefur fjölbreytt áhugamál og hefur trú á að hinir síðustu verði fyrstir þegar allt kemur til alls.

Kolbrún Dögg er með vöðvasjúkdóm og notar hjólastól. Hún hefur notað margvíslega listsköpun til að varpa ljósi á hindranir er mæta fötluðu fólki en einnig að brjóta upp staðalímyndir og eyða fordómum. Sjálf er hún lífleg og kraftmikil, hvernig staðalímyndir eru það helst sem mæta henni? „Helst þær að maður sé rosaleg hetja,“ segir hún. „Ég fæ að heyra að ég sé dugleg og láti ekkert stoppa mig og njóti lífshamingju þrátt fyrir að vera í hjólastól. Þetta eru staðalmyndir sem helst ganga út á að klappa fólki á öxlina og hrósa fyrir dugnað þótt í raun snúist atorkan ekki um annað en að vera til. Kannski líka vegna þess að maður mætir ýmsum hindrunum þá er maður svo duglegur að fara yfir þær. Samt þykir alveg skiljanlegt að maður ætti eiginlega að vera alltaf á bömmer.

Fatlaða illmennið

Kolbrún Dögg er með BA-gráðu í þroskaþjálfun og diploma í fötlunarfræðum. Í vor útskrifaðist hún svo með BA-gráðu í sviðslistum af sviðshöfundabraut frá Listaháskóla Íslands. Leikræn tjáning og gjörningar hafa heillað hana og hún notað ýmsar skapandi leiðir bæði í námi og starfi.

„Já, það er sterk staðalímynd að fatlað fólk sé illmennin í sviðslistum eða dýrslegt. Ríkarður III er til að mynda með herðakistil og illmenni, en George í Mýs og menn er með þroskahömlun og honum er lýst sem dýrslegum og barni að eilífu. Það er mjög algengt sérstaklega þegar um að er að ræða fólk með þroskahömlun en einstaklingar sem glíma við andleg veikindi eru hættulegu einstaklingarnir í bókum, kvikmyndum og leikritum. Ef fatlað fólk er sýnt einhvers staðar í listum og menningunni er það hetjur eða hættulegt. Endalok þess eru svo að ýmist sigrast það á ofurmannlegan hátt á erfiðleikum eða deyr.“ Fæstir sjá þennan hóp fyrir sér meðal uppistandara að gera grín að ævi sinni og samfélaginu en það er engu að síður meðal þess sem þú hefur gert.

„Já, það er reyndar aðeins að breytast, held ég,“ segir hún.

Finnst þér fólk almennt mæta þér frekar með vorkunnsemi en á jafningjagrundvelli? „Nah, það er eiginlega meira kynslóðaskipt. Eldra fólk gerir það fremur en yngra ekki. Ég var með hópi ungs fólks í náminu í Listaháskólanum og það er oft miklu upplýstara. Ég fann ekki annað en við værum öll á jafningjagrunni.“

Fatlað fólk í gervi þekktra einstaklinga

Kolbrún Dögg gerði ljósmyndagjörning fyrir tíu árum þegar hún útskrifaðist úr diplómanámi í fötlunarfræðum. Þetta var lokaverkefni hennar og unnið í samstarfi við Jónatan Grétarsson ljósmyndara og þekkt fólk í samfélaginu. Yfirskriftin var: Fullgild þátttaka: fötlunarlist og valdefling.

„Ég fékk leyfi hjá þekktum persónum til að nota nöfnin þeirra og fatlaðir einstaklingar brugðu sér síðan í þeirra gervi. Ég var til dæmis Erna Ómarsdóttir dansari og Dorrit Moussaieff. Maður með Downs-heilkenni var Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, og fleira. Með því að taka mann með sýnilega skerðingu, ljósmynda hann og setja undir nafn Jóns Gnarr eða Baltasars Kormáks leikstjóra fékk ég áhorfendur til að staldra við. Segja: „Ha.“ Hingað til hefur ekki verið mikið um að fatlað fólk mennti sig í listum eða séu í valdamiklu hlutverki. Því hefur verið ætlaður annar bás.“

Í raun er það óskiljanlegt því svo fjölbreytt tjáningarform standa fólki opin í listum og þær beinlínis kalla stöðugt eftir nýjum sjónarhornum. Skerðingar hafa aldrei staðið ímyndunaraflinu fyrir þrifum. Hvað telur þú að valdi? „Bæði hefur vantað upp á aðgengi og fyrirmyndir skort,“ segir hún. „Leiklistarnámið og sviðlistadeildin voru lengi á Sölvhólsgötu og þar var ekkert aðgengi og einfaldlega hvarflaði ekki að fólki að reyna að sækja um. Fatlað fólk sem hefur starfað innan hreyfingarinnar List án landamæra er með diplómanám frá Myndlistaskólanum í Reykjavík og starfandi listamenn en hefur ekki bankað á dyrnar hjá Listaháskólanum því það er engin önnur manneskja með þroskahömlun þar í myndlist eða leiklist eða dansnámi. Það þarf klárlega að breytast. Ég held að það verði næsta skref.“

Sviðslistamyndir Kolbrúnar Daggar

 Ljósmyndir: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. 

Praktík fremur en áhugi ráði för í starfsvali

Er það kannski raunin með alla okkar háskóla að það vanti ekki endilega betra aðgengi fyrir fatlað fólk hvað varðar líkamlegar hindranir heldur að þeir þurfi að vera betur andlega opnir? „Ég held að mín kynslóð hafi frekar valið sér nám út frá praktík fremur en draumum eða áhugamálum. Fólk fór kannski í Kennaraháskólann því þar var aðgengi en langaði ef til vill í jarðfræði en þar var ekki gott aðgengi.“

En hvað mætir ykkur svo þegar þið komið út í atvinnulífið? Eru hugar manna þar opnir fyrir öllum? „Ég lærði félagsliða og vann í iðjuþjálfun á Kleppspítala á árunum 2002-2004. Þá var ég gangandi og notaði hjólastól líka en á þeim árum var ekki gert ráð fyrir geðveikum notanda eða starfsmanni í hjólastól. Ég átti orðið erfitt með að fara upp og niður stigana á hverjum degi og í raun orðið hættulegt. Það er svo miklu takmarkaðra aðgengi fyrir fatlað fólk að fá vinnu en ég held að það breytist með aukinni menntun.“

Hefur þú einhvern tíma mætt fordómum eða skrýtinni hegðun á vinnustað vegna fötlunar þinnar? „Hmm, jú, ég fann fyrst frá einni samstarfskonu á Kleppi að hún var ósátt við að ég væri til jafns við hana. En svo breyttist það eftir að hún kynntist mér og sá hvað ég hafði fram að færa. Eins fannst notendum stundum skrýtið að ég væri að vinna með þeim í hjólastól sérstaklega vegna þess að ég reyndi að vinna á jafningjagrunni ekki eins og ég væri einhver sérfræðingur. Við vorum að reyna að breyta viðhorfinu. Vegna skort á aðgengi og jafnra tækifæra á almennum vinnumarkaði fer margt fatlað fólk að vinna eitthvað tengt réttindabaráttu fatlaðs fólk. Vinna hjá Öryrkjabandalaginu og aðildarfélögum þess, hjá NPA-miðstöðinni, kannski stundum eitthvað í tölvugeiranum. Það er stundum erfitt að taka vinnu vegna þess að þar eru hindranir í vegi en sú stærsta er viðhorfið.“

Varð að banka á dyrnar

Nú er mjög mikil samkeppni í sviðslistabransanum og margir berjast um bitann. Hvað sérðu fram undan? „Ég er auðvitað nýútskrifuð og ég sé fyrst og fremst fyrir mér að skrifa og skapa mér verkefni sjálf. Mig dreymdi um að verða leikari þegar ég var lítil en eftir því sem mín skerðing varð meiri þegar ég var unglingur fór ég að meðtaka þessi viðhorf samfélagsins að hreyfihömluð manneskja í hjólastól gæti ekki orðið leikari. Það var heldur enginn leikari í hjólastól. Ég ákvað því að verða áhugaleikkona og var það í nokkur ár en svo hef ég alltaf verið í einhvers konar félagsskap sem gefur færi á slíkri sköpun. Það er mér bara eðlislægt að vera í listum og rétt eins og vatn streymir fram og leitar í ákveðinn farveg þá fór líf mitt á þessa braut. Þegar ég sótti um var ég ekki á leið í listnám. Sá þetta auglýst og hugsaði: Ég verð að banka á dyrnar. Ef ég geri það ekki gerir það kannski enginn annar. Ég varð bara að sjá hvert þetta leiddi og ég komst inn og varð að hefja námið. Ég hugsaði með mér að kannski gæti ég bætt aðgengi að skólanum.“

Kolbrún Dögg var 45 ára þegar hún hóf námið en hefði kosið að vera 25 ára, á því aldursbili. Þá hefði hún átt meira sameiginlegt með samnemendum sínum en á sama tíma játar hún að aldur hennar og lífsreynsla hafi gert það að verkum að hún opnaði þeim aðra sýn á verkefnin. Hún er bjartsýn og full vilja til að takast á við lífið og listina.

„Ég viðurkenni samt alveg að ég hefði aldrei farið í gegnum þetta nám nema vegna þess að ég hafði NPA-aðstoð. Réttindabaráttu fatlaðs fólks er líka hvergi nærri lokið. Ég held að það sé aldrei komið nóg. Það þarf að hamra járnið. Að hugsa sér að ekki sé enn búið að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er búið að staðfesta hann en ekki lögfesta. Það eru alltaf einhverjar afsakanir. Mér finnst líka vanta viðurlög ef aðgengi er ekki eins og það á vera,“ segir hún að lokum en lokaverkefni hennar í Listaháskólanum, KÁM: Þeir síðustu verða fyrstir, er um þessar mundir í skoðun hjá Þjóðleikhúsinu ásamt fjölda annarra verka. Ef það verður ekki tekið upp þar hyggst hún sækja um styrk og setja það upp sjálf. En hvort verður mun framtíðin skera úr um.

Texti: Steingerður Steinarsdóttir. Ljósmyndir: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)