Innra starf ÖBÍ er sterkt og blómlegt. Skipulag innra starfs skiptir verulegu máli í jafnstórum samtökum og ÖBÍ þannig að raddir ólíkra hópa og einstaklinga fái hljómgrunn. Þar leika málefnahópar samtakanna og UngÖBÍ stórt hlutverk.
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum ÖBÍ á milli aðalfunda og hefur það meginhlutverk að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiriháttar mál í hendur stjórnar. Á starfsárinu voru haldnir 12 stjórnarfundir og 11 fundir framkvæmdaráðs.
Öflugur hópur leggur baráttunni lið með þátttöku í fjölbreyttum nefndum og ráðum fyrir hönd ÖBÍ. Innan ÖBÍ eru starfræktar kjörnefnd, laganefnd og siðanefnd auk skoðunarmanna reikninga, dómnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ og úthlutunarnefnd námssjóðs. Sömuleiðis á ÖBÍ fulltrúa í fjölda ráða og nefnda á vegum ríkis og sveitarfélaga og í stjórnum fyrirtækja. Sjá: Fulltrúar í stjórn og nefndum – ÖBI
Vinnustaðurinn ÖBÍ
Öflugt fólk í innra og ytra starfi ÖBÍ er og verður lykillinn að árangri og er markvisst unnið að því að viðhalda kraftmiklu og faglegu samfélagi innan samtakanna.
Skrifstofa ÖBÍ réttindasamtaka er í Mannréttindahúsinu og er það miðpunktur daglegrar starfsemi samtakanna. ÖBÍ leggur ríka áherslu á að vera vinnustaður þar sem allir njóta virðingar, jafnréttis og viðeigandi aðlögunar. Jafnframt að samskipti séu opin og uppbyggileg og sameiginlega vinni fjölbreyttur hópur starfsfólks að því að skapa sterka liðsheild og góðan starfsanda þar sem áskorunum er mætt af hugrekki og ábyrgð, en ekki síður samheldni og gleði.
Áhersla er lögð á að fá til starfa hæft fólk sem tilbúið er að vinna sem hluti af liðsheild og í anda jafnræðis – jafnframt að því sé búið jákvætt, öruggt og hvetjandi vinnuumhverfi. Teymisfyrirkomulag er við lýði og hefur gefið góða raun. Teymin vinna að stefnu ÖBÍ á tilteknum sviðum; dómsmála, málefnastarfs, ráðgjafar, umsagna og stoðþjónustu. Teymisstjórar heyra undir framkvæmdastjóra, en hafa málefnatengt samráð við forystu samtakanna eftir því sem við á. Vikulegir starfsmannafundir leggja grunn að góðu upplýsingaflæði, ásamt markvissri endurgjöf í gegnum starfsmannasamtöl og stöðufundi. Boðið er upp á hlutastörf og sveigjanlegan vinnutíma, þá var og tekinn upp svokallaður betri vinnutími á árinu og hefur sú ráðstöfun gefið góða raun. Hugað er að fræðslu og heilsueflingu þar sem stutt er við andlega og líkamlega heilsu.
Lögð hefur verið áhersla á að bjóða starfsnema velkomna – og nú úr náminu Færni á vinnumarkaði, um 11 vikna skeið var að ræða á vormánuðum. Þá fór starfsmannahópurinn í heimsóknir til samstarfsaðila og kynnti sér starfsemi þeirra. Er þetta hluti af því að styrkja samstarf og samtal milli aðila.
Eftirtaldir starfsmenn störfuðu á skrifstofu bandalagsins í ágúst 2025: Andrea Valgeirsdóttir, Ágústa Dröfn Guðmundsdóttir, Guðjón Sigurðsson, Gunnar Alexander Ólafsson, Jóhanna Gunnarsdóttir, Kjartan Þór Ingason, Kristín Margrét Bjarnadóttir, Margrét Ögn Rafnsdóttir, Rósa María Hjörvar, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, Sigurður Árnason, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, Stefán Vilbergsson, Sunna Elvira Þorkelsdóttir, Þórgnýr Einar Albertsson og Þórný Björk Jakobsdóttir. Alma Ýr Ingólfsdóttir er formaður ÖBÍ, Vilhjálmur Hjálmarsson varaformaður og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri.
Formannafundir
Haldnir voru tveir formannafundir á starfsárinu. Sá fyrri þann 13. september 2024 þar sem fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu hélt fróðlegan fyrirlestur um þróunarsamvinnu. Var meðal annars farið yfir möguleika á styrkjum til félagasamtaka vegna verkefna í þróunarsamvinnu. Sömuleiðis fór lögfræðingur á skrifstofu ÖBÍ yfir ráðgjöf og hagsmunagæslu í þágu fatlaðs fólks af erlendum uppruna og fulltrúi frá Vinnumálastofnun kom inn á fundinn með erindi um það sem stofnunin er með í pípunum varðandi atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk.
Seinni fundurinn fór fram 3. apríl 2025 þar sem Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hélt erindi um helstu verkefni ráðuneytisins þessa dagana. Sömuleiðis voru til umræðu UNNDÍSarverkefnið og vinna við gerð umsagnar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Öflugt fræðslustarf
Markmiðið með fræðslustarfi ÖBÍ er að styrkja starf bandalagsins og styðja við aðildarfélögin og mikilvæga starfsemi þeirra í þágu fatlaðs fólks. Í fræðslustefnu ÖBÍ sem sett var haustið 2021 segir meðal annars: „ÖBÍ stendur fyrir fræðslu og þjálfun fyrir aðildarfélögin, einnig fyrir eigin stjórn, nefndir og starfsfólk. Jafnframt vinnur ÖBÍ með háskóla- og rannsóknasamfélaginu að því að skapa og auka þekkingu á réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks.“
Námsstefna ÖBÍ var haldin á haustmánuðum 2024. Markmiðið með henni er að stilla saman strengi og undirbúa fólk, í innra starfi bandalagsins sem og starfsfólk, undir vetrarstarfið. Þátttakendur fengu kynningu á stefnu, skipulagi og rekstri ÖBÍ, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hlutverki stjórnarfólks, miðlun, siðareglum og EKKO viðbragðsáætlun bandalagsins. Þá var fjallað um samskipti og samstarf, ábyrgð stjórnarmanna og tækifæri á sviði gervigreindar.
Fimm námskeið voru haldin í Fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélögin, þau voru:
Fjárlagafrumvarpið krufið – 24. september 2024
Leiðbeinandi: Ágúst Ólafur Ágústsson
Sáttamiðlun og árangur félaga – 13. nóvember 2024
Leiðbeinandi: Lilja Bjarnadóttir
Af hverju sveitarfélögin? Þjónusta í nærumhverfi – 22. janúar 2025
Leiðbeinendur voru sérfræðingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Verkefnastjórnun – 12. mars 2025
Leiðbeinandi: Haukur Ingi Jónasson
Hvernig geta öryrkjar verið sjálfstætt starfandi? 19. mars 2025
Opið námskeið í samstarfi við Kjarahóp ÖBÍ. Leiðbeinandi: Jóna Arnar Baldurs