Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Hvítbók um skipulagsmál og umhverfismatsskýrsla

By 31. október 2023No Comments

„Í skipulagi á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og samgöngum verði stuðst við algilda hönnun til að jafna stöðu fatlaðs fólks og tryggja aðgengi allra til þátttöku í atvinnulífinu.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka (ÖBÍ) um drög að hvítbók um skipulagsmál og umhverfismatsskýrsla, mál nr. 167/2023.

ÖBÍ fagnar því að áætlanir Innviðaráðherra miði að því að samhæfa og efla stefnumótun og áætlanagerð á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Fatlað fólk á rétt til ferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu, sbr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Sá réttur er ekki virtur nema að stjórnvöld tryggi það að á búsetusvæðunum sé nægt framboð af aðgengilegu húsnæði, að samgönguleiðir séu greiðar og almenningssamgöngur geri ráð fyrir öllum, að heilbrigðis- og félagsþjónusta sé trygg og að öryggi allra sé borgið í hættuástandi, til dæmis vegna náttúruhamfara.

Hugmyndafræði algildrar hönnunar þarf að vera öllum áætlunum til grundvallar, eins og kveðið er á um í bæði mannvirkja- og skipulagslögum. En algild hönnun á ekki aðeins við um manngert umhverfi heldur alla þjónustu og felur í sér að horft sé til þarfa allra frá upphafi til að kostnaðarsamar, tímafrekar og flóknar viðbætur þurfi ekki að koma til þegar kerfin eru tekin í notkun og í ljós kemur að þau útiloka og jaðarsetja ákveðna þjóðfélagsþegna.

ÖBÍ telur jákvætt að í skipulagi verði gert ráð fyrir heildstæðu kerfi vandaðra almenningsrýma og útivistarsvæða af mismunandi stærð og gerð sem henta fyrir hreyfingu, leik, samskipti og endurnæringu ólíkra aldurs- og getuhópa. Brýnt er að huga vel að fjölbreyttum aðstæðum einstaklinga og skipuleggja aðgengilegt samfélag fyrir öll en ekki bara sum.

1.

Eitt af lykilviðfangsefnum hvítbókarinnar snýr að jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi. Þar kemur fram „að tryggja þarf framboð á fjölbreyttum íbúðum sem stuðlar að sjálfbærni og félagslegri samheldni með tilliti til efnahags.“ ÖBÍ leggur til eftirfarandi breytingar:

Tryggja þarf nægt framboð á fjölbreyttum íbúðum í samræmi við hugmyndafræði um algilda hönnun sem stuðlar að sjálfbærni og félagslegri samheldni með tilliti til efnahags og fötlunar.

2.

Í markmiðum hvítbókarinnar um gott samfélag er tekið fram „að í skipulagi verði stuðlað að bættu búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum.“ Atvinnutækifæri fatlaðs fólks eru af skornum skammti og dæmi eru um að atvinnurekendur veigri sér við að ráða fatlað fólk til starfa sökum þess að vinnustaðurinn sé óaðgengilegur. ÖBÍ leggur til að bæta eftirfarandi áherslupunkti við áherslur hvítbókarinnar í þéttbýli á bls. 42:

Í skipulagi á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og samgöngum verði stuðst við algilda hönnun til að jafna stöðu fatlaðs fólks og tryggja aðgengi allra til þátttöku í atvinnulífinu.

3.

ÖBÍ bendir jafnframt á að bandalagið sendi þann 24. ágúst vel rökstudda umsögn um grænbók um skipulagsmál. Áherslurnar sem þar koma fram eru áfram í fullu gildi. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að innleiða áherslurnar inn í hvítbók um skipulagsmál og stuðla að uppbyggingu aðgengilegra mannvirkja um land allt í samræmi við SRFF.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að hvítbók um skipulagsmál og umhverfismatsskýrsla
Mál nr. 167/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 31. október 2023