Skip to main content
Málefni barnaViðtal

„Öll börn, óháð fötlun, eiga að hafa jöfn tækifæri“

By 4. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments

Elín Hoe Hinriksdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um málefni barna

„Sem stjórnarmaður í ÖBÍ lagði ég fram þá hugmynd að stofnaður yrði sérstakur málefnahópur um málefni barna. Aðrir málefnahópar höfðu þegar tekið til starfa en ljóst var að þörf var á málefnahópi sem einbeitti sér eingöngu að baráttumálum fyrir hönd barna. Ekki má gleyma að innan aðildafélaga ÖBÍ er stór hópur foreldra barna með fatlanir sem oftar en ekki lenda í þeirri stöðu að þurfa að berjast við kerfið til að ná fram lögbundnum réttindum fyrir börn sín.

Málefnahópurinn tók til starfa árið 2018 og ástæða þess að ég bauð mig fram sem formaður hópsins er sú að málefni barna eru mér mikilvæg,“ segir Elín sem er formaður ADHD-samtakanna. „Okkar helstu baráttumál hafa snúið að réttindum barna t.d. í heilbrigðis-og menntakerfinu en þar skortir verulega á fullnægjandi þjónustu við börn með fatlanir og raskanir.

Mín persónulega reynsla af því að eiga barn með raskanir og þurfa sífellt að berjast við kerfið í leit að úrræðum leiddi til þess að ég vildi leggja mitt af mörkum til úrbóta. Það á að vera viðtekin venja að kerfið grípi inn í um leið og ljóst er að barn glímir við vanda, þ.e. beita snemmtækri íhlutun. Á því stigi þarf að bjóða upp á úrræði, lausnir og eftirfylgd þvert á kerfi. Um leið er ekki síður nauðsynlegt að hlúa að foreldrunum sem oft eru við það að bugast af álagi og úrræðaleysi.“

Börnin okkar framtíðarauður

Hún segir að fordómar gagnvart fötlunum hafi minnkað þótt vissulega séu þeir ekki horfnir. „Aukinn sýnileiki fatlaðs fólks og jákvæðar og sterkar fyrirmyndir skipta þar miklu máli. Fræðsla um fatlanir er gott verkfæri til að auka skilning og útrýma fordómum og hefur málefnahópurinn rætt um mikilvægi fræðslu og þá sérstaklega í skólasamfélaginu. Málefnahópurinn hefur tekið þátt í mörgum samráðshópum á vegum stjórnvalda og er mikilvægt að horft sé til þarfa fatlaðra barna í aðgerðum stjórnvalda. Börn og ungmenni verða að fá farveg til að segja sína skoðun á málefnum sem þau varða sem og þeirra sýn á samfélagið. Málefnahópurinn stóð því fyrir Ungmennaþingi ÖBÍ og stendur til að endurtaka leikinn þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.

Samþættingu þjónustu við börn er að mörgu leyti enn ábótavant, ekki síst þegar hún liggur þvert á kerfi. Í því skyni að bæta hér úr lagðist félagsmálaráðuneytið í gagngera endurskoðun og hafa nú lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna litið dagsins ljós. Málefnahópurinn var virkur í ýmsum starfshópum ráðuneytisins við undirbúning farsældarfrumvarpsins auk þess að hafa skrifað fjölmargar umsagnir við hin ýmsu frumvörp, svo fátt eitt sé nefnt. Eftir sem áður mun málefnahópurinn fylgjast með hvernig þjónustu við börn er háttað og þrýsta á breytingar þar sem þeirra er þörf.“

Einhver skilaboð til stjórnvalda að lokum? „Stjórnvöld verða að tryggja að réttindum allra barna sé framfylgt hér á landi. Öll börn, óháð fötlun, eiga að hafa jöfn tækifæri til menntunar, tómstunda- og íþróttaiðkunar auk þess að hafa gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu.“ Og svo bætir hún við: „Við megum ekki gleyma því að það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Börnin eru okkar framtíðarauður og því er það í verkahring allra að búa svo um hnútana að hvert og eitt þeirra eigi möguleika á að dafna og líða vel í eigin skinni.“

„Stjórnvöld verða að tryggja að réttindum allra barna sé framfylgt hér á landi.“

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Mynd: Hallur Karlsson

ÁFRAM


Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)