Skip to main content
Frétt

Ætlar dómsmálaráðherra ekkert að gera?

By 12. desember 2018No Comments
Réttindagæslumaður manns sem var vistaður á Bitru á níunda áratugnum, segist ekki skilja niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins í máli mannsins. Til stendur að kynna lokaskýrslu um greiðslu sanngirnisbóta á föstudaginn. Í kjölfarið ætla stjórnvöld að ákveða hvort og þá hvernig verði ráðist í rannsóknir á fleiri vistheimilum fyrir fatlaða. Fréttastofa RÚV hefur fjallað ítarlega um málið en einnig hefur verið fjallað um það hér á vef ÖBÍ.
 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segist í fréttum RÚV harma erfiða reynslu sem Ólafur Hafsteinn Einarsson varð fyrir þegar hann var vistaður í fangelsinu að Bitru á níunda áratugnum. Þetta kemur fram í bréfi Sigríðar til Ólafs sem greint var frá í fréttum sjónvarps klukkan sjö. Í bréfinu segir að unnið sé að skýrslu um framkvæmd laga um sanngirnisbætur. Þegar þeirri vinnu sé lokið taki ráðuneytið þessi mál til frekari skoðunar, þar með talið hvort og þá hvernig verði staðið að frekari rannsóknum og bótauppgjöri.

„Þetta er ekkert rétta bréfið sem við vorum að biðja um,“ segir Ólafur.

Hvað varstu að biðja um?

„Ég var að biðja um að þessi heimili verði rannsökuð þannig að allir öryrkjar sem voru á svona heimilum verði undir sama hatti. Ekki bara á Bitru heldur á öllum þessum heimilum.“

„Viðurkennum söguna“

Eiríkur Smith, réttindagæslumaður Ólafs, segir að alltof langan tíma hafi tekið að fá svar frá ráðuneytinu.

„Svo loks þegar við fáum svar erum við ekki vissir hver niðurstaðan er. Við bíðum auðvitað spennt eftir þessar skýrslu sem á að koma út á föstudaginn. Og vonandi fáum við einhver skýrari svör þá, hver niðurstaðan er í máli Ólafs sem verður þá vonandi eitthvað sem hann getur nýtt sér í sinni málaleitan.“

Skýrslan sem Eiríkur vísar til og einnig er vísað til í bréfi ráðuneytisins, er lokaskýrsla um greiðslu sanngirnisbóta sem til stendur að kynna á föstudaginn. Þar verður meðal annars farið yfir hvernig hefur gengið að greiða þeim bætur, sem sættu illri meðferð við vistun á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins. Eiríkur vonar að sú skýrsla marki ekki endalok þessara mála.

„Það er allavega mikilvægt út frá sjónarhóli mannréttinda að við viðurkennum þessi brot sem hafa verið framin, að við viðurkennum söguna, og að við rannsökum og afhjúpum þá menningu og viðhorf, og hvernig staðan er í dag. Og að við séum viss og trygg fyrir því að það sama sé ekki að gerast í dag,“ segir Eiríkur.