Skip to main content
Frétt

Aðgengileg útivistarparadís að Básum

By 27. júní 2019No Comments
MS félag Íslands hefur vakið athygli okkar á að Ferðafélagið Útivist hefur komið upp góðum pöllum á milli skála á Básum í Þórsmörk. Einnig bætt alla grunnaðstöðu fyrir hreyfihamlað fólk í þessari útvistarparadís. Ferðafélagið á hrós skilið fyrir úrbæturnar sem miða að því að veita fötluðu fólki aðgang að svæðinu til jafns við aðra. Ítarleg umfjöllun er á heimasíðu MS félagsins sem gefur ágæta mynd af aðstöðunni eftir breytingarnar. Í frétt á heimasíðu MS félagsins segir meðal annars: 

„Ferðafélagið Útivist hefur unnið að því að koma upp aðstöðu fyrir hreyfihamlaða í útivistarparadísinni, Básum á Goðalandi. Stórir og miklir pallar eru á milli skála, fláar víða, salerni með stoð og handföngum og rúmstæði á neðri hæð“ og „Á Útivist þakkir skildar fyrir að huga að aðgengismálum í Básum og gefa þar með hreyfihömluðu fólki tækifæri til að upplifa með fjölskyldu og vinum einstaka náttúrufegurð í fjallasal jökla og móbergshnúka.“


Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi hvetur ferðaþjónustuaðila til að taka sér þessa framkvæmd ferðafélagsins til fyrirmyndar. Hægt er að fá ráðleggingar hjá Stefáni Vilbergssyni, verkefnastjóra hjá ÖBÍ. Einnig má sjá grunnleiðbeiningar í leiðbeiningarritinu Algild hönnun utandyra sem málefnahópurinn gaf út 2017. Sé þess óskað er ritið sent í pósti.  

ÖBÍ minnir jafnframt ríkisvald, sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila á 30. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) en þar segir: „Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja … fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku og frístunda- og íþróttastarfs.“ (SRFF, íslensk þýðing)