Skip to main content
FréttKjaramál

Blanksy – Gjörningur ÖBÍ réttindasamtaka

Huldulistamaðurinn Blanksy hefur skotið upp kollinum víða undanfarna viku. Lambhúshettuklæddur maður birtist á samfélagsmiðlinum Tiktok í gríð og erg til þess að vekja athygli á tveimur nokkuð óræðum tölum, 68% og 12,4%.

ÖBÍ réttindasamtök standa fyrir gjörningnum í samstarfi við BIEN og Splendid. Tilgangurinn er að varpa ljósi og vekja athygli á kjörum fatlaðs fólks á Íslandi og krefjast umbóta.

Blanksy hrellir áhrifavalda

Á meðal verka Blanksy síðustu daga var að krota þessar tölur á bíla áhrifavalda (reyndar ekki nema með raksápu). Gummi Kíró, Natan Berg, Hjálmar Örn Jóhannsson og Eggert Unnar urðu meðal annars fyrir barðinu á manninum. Í kjölfarið lýstu Natan og Eggert opinberlega eftir Blanksy og hétu hverjum þeim sem vissi hver hann var 100.000 krónum í fundarlaun. Patrik Atlason, eða Prettyboitjokko, var á meðal þeirra sem töldu sig vita hver Blanksy var.

Því til viðbótar vakti mikla athygli og umtal að auglýsingar frá meðal annars Bestu deildinni og Pizzunni voru útkrotaðar á auglýsingaskiltum um allt höfuðborgarsvæðið. Þar mátti sjá nafn Blanksy krotað auk tölunnar „68%“.

@hjalmarorn110What the hell just happened!!♬ original sound – HjalmarOrn110

Gjörningurinn vakti umtalsverða athygli. Fjallað var um bæði leyndardóminn um Blanksy og svo um afhjúpunina á Vísi, RÚV, Mbl, DV og Mannlífi.

Í gær var hulunni nefnilega svipt af Blanksy og kom í ljós að hann var enginn annar en Bubbi Morthens.

@eggertunnarHere we go, fylgist með DM´s er að fara velja winner!♬ original sound – EggertUnnar

„Við erum að gera þetta fyrir alla öryrkja Íslands. 68% þeirra ná ekki endum saman og við þurfum 12,4% hækkun. Þetta er efnahagslegt ofbeldi,“ sagði Blanksy, eða Bubbi.

68% og 12,4%

Til útskýringar má benda á að þessi 68% sem Blanksy vísar til snúa að því að 68% öryrkja geta ekki mætt óvæntum útgjöldum án þess að stofna til skuldar samkvæmt rannsókn Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Þetta er tvöfalt hærra hlutfall en hjá fólki á vinnumarkaði og algjörlega ólíðandi.

12,4% talan er einmitt sú hækkun lífeyris sem ÖBÍ réttindasamtök fóru fram á við gerð síðustu fjárlaga. Stjórnvöld urðu ekki við þeirri kröfu og hækkuðu lífeyri ekki um nema brot af því.
Samhliða þessu birti ÖBÍ skýringarmyndir vegna talnanna á Facebook og Instagram og Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ritaði grein sem birtist á Vísi.

Blank blank…

Þess er skemmst að minnast að ÖBÍ stóð fyrir sambærilegri vitundarvakningarherferð undir lok síðasta árs, þá undir merkjum gervifyrirtækisins Blanka. Sú herferð fékk tvær tilnefningar til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna.

Blank blank…