Skip to main content
FréttRéttindabarátta

Gleðilegan kvenréttindadag

Í dag eru 108 ár liðin frá því ófatlaðar konur á Íslandi fengu fyrst kosningarétt og óska ÖBÍ réttindasamtök landsmönnum öllum gleðilegs kvenréttindadags.

Vert er að minnast á það að fatlaðar konur fengu hins vegar ekki kosningarétt fyrr en síðar. Þrátt fyrir þau lagalegu réttindi hefur fatlað fólk ekki alltaf getað notið þess réttar til fulls.

Réttindabarátta kvenna hefur borið mikinn árangur á undanförnum 108 árum og hafa réttindi kvenna aukist á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Baráttan er þó ekki unnin, sér í lagi hvað varðar réttindi fatlaðra kvenna.

Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks án tafar. Í 6. grein samningsins, er nefnist fatlaðar konur, segir:

1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningur þessi kveður á um.